Portugal, le Portugal, Républica Portuguesa – Portúgal í Eurovision – fyrri hluti


Sólarvörnin er komin ofan í tösku og ársbirgðir af aloe vera komnar í hús. Við erum á leiðinni til Portúgal. Ferðalagið á Íberíuskagann er rétt handan við hornið og því er ekki úr vegi að rifja upp sögu Portúgala í Eurovision.

Portúgal hóf keppni árið 1964 og var því að halda uppá 53 ára afmæli sitt í keppninni þegar Salvador Sobral steig á svið í Kænugarði og heillaði Evrópu upp úr skónum. Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum Eurovision-aðdáanda að sigur Portúgala í fyrra var þeirra fyrsti í sögunni og að fram að sigrinum var Portúgal sú þjóð sem hafði tekið lengst þátt án þess að fara nokkurn sinnum heim með sigurinn í töskunni. Sögulegur sigur, vægast sagt, sérstaklega í ljósi þess að seint væri hægt að segja að Portúgalir hafi verið með miklar flugeldasýningar þegar litið er á árangur þeirra í keppninni.

En hvað höfðu Portúgalar gert í Eurovision fram að sigrinum? Hvaða lög hafa vakið athygli? Hafa einhver lög vakið athygli? Hver var besti árangur Portúgala fram að sigrinum? Þessum spurningum verður svarað í yfirferð okkar um sögu gestgjafanna frá Portúgal – áratug fyrir áratug.

Fyrstu árin: 1964-1969

Portúgal hóf keppni í Eurovision árið 1964, sem var níunda keppnin frá upphafi. Fyrsta framlag Portúgala bar heitið „Oração“ – sem þýðist sem „Bæn“ á okkar ástkæra ylhýra – og var þetta í fyrsta skiptið sem portúgalska heyrðist í keppninni. Lagið fjallaði um mann sem bað til Guðs um fyrirgefningu hans/hennar/þess fyrir að hafa sært ástina sína. Allt mjög melankólískt. Þessi frumraun Portúgala uppskar þó ekki mikið, en það endaði í síðasta sæti með nákvæmlega engin stig. Nul points!

Önnur framlög Portúgala þennan fyrsta áratug þeirra gerðu engar stórkostlega rósir og enduðu yfirleitt frekar neðarlega á töflunni. Þeirra besti árangur var 11. sætið árið 1968 sem í fyrstu hljómar eflaust ekki eins og slæmur árangur, en hafa verður í huga að á þessum árum voru mun færri keppnisþjóðir en í dag. Sem dæmi voru 18 keppnisþjóðir árið 1968.

Portúgalir skrifuðu þó einn kafla í söguna með framlagi sínu árið 1967 en það ár var portúgalski söngvarinn fyrsta svarta manneskjan sem steig á svið í Eurovision. Eduardo Nacimento fæddist í Angóla, sem var lengi vel portúgölsk nýlenda, en fluttist yfir til Portúgal snemma á sjöunda áratugnum ásamt hljómsveit sinni með það í huga að „meika það“. Þrátt fyrir að hafa gefið út eina EP-plötu með sveitinni og vera svo valinn sem fulltrúi Portúgala í Eurovision þá bankaði frægðin ekkert of harkalega uppá og fluttist hann aftur til Angóla stuttu eftir Eurovision-ævintýrið.

 

Mótmæli og miðjumoð: 1970-1979

Portúgal byrjaði áttunda áratuginn á fúlu nótunum. Ástæðuna var að finna í atburðum sem áttu sér stað árið áður. Ekki voru til neinar reglur um hvað ætti að gera í stöðunni ef til jafnteflis kæmi þannig að þegar Holland, Frakkland, Spánn og Bretland enduðu öll með jafnmörg stig í lok keppninnar árið 1969 voru öll fjögur löndin úrskurðuð sigurvegarar. Fór þetta eitthvað fyrir brjóstið á Portúgölum og ákváðu þeir því að sniðganga keppnina árið 1970. Þeir voru reyndar ekki þeir einu því Austurríki, Noregur, Svíþjóð og Finnland ákváðu að sleppa keppninni það árið af sömu ástæðu.

Portúgalir komu þó tvíefldir til baka árið 1971 og náðu sínum besta árangri til þessa með laginu „Menina do alto da serra“, sem endaði í 9. sæti af 18 þjóðum.

Framlag Portúgal árið 1973 bar heitið „Tourada“, sem hægt væri að þýða sem „nautaat“. Enn og aftur þá gekk Portúgölum ekkert einstaklega vel, lentu þó í 10. sæti af 17 þjóðum, en það voru skilaboð textans sem vöktu þó meiri athygli. Sagan segir nefnilega að nautaatið sem sungið er um í laginu sé vísun í einræðið sem var við lýði í Portúgal á þessum tíma.

Sem leiðir okkur að framlagi Portúgala árið 1974. Lagið bar heitið „E depuis do Adeus” – eða „að skilnaði loknum“ – og sagði sögu manns sem var að kveðja ástkonu sína að sambandinu loknu. Enn og aftur er það ekki gengi lagsins sem vekur athygli á laginu, en það deildi síðasta sætinu þetta árið með Sviss, Noregi og Þýskalandi. Hins vegar voru það pólitísk tengsl þessa lags sem væri efni í ágætis bíómynd, að minnsta kosti góða heimildarmynd. Um þremur vikum eftir að lagið hafði verið flutt í Eurovision, og endað í síðasta sæti, var það notað til að, hvorki meira né minna, en að „starta“ byltingu heima fyrir í Portúgal.
Árið 1926 breyttist pólitískt landslag Portúgals þegar komið var á herforingjastjórn í landinu sem þótti hallast ansi mikið í áttina að fasisma, og hélt stjórnarfarið velli í landinu allt til ársins 1974. Það ár tók hópur byltingarsinna sig til og skipulögðu valdarán þar sem markmiðið var að fella herforingjastjórnina. Með þessum hætti hefjast margar blóðugar frásagnir úr heimssögunni, en byltingin í Portúgal átti eftir að vekja athygli fyrir það að verið af friðsamlegum toga. Hlaut hún heitið „Nellikubyltingin“, en nafnið var dregið af því að mótmælendur og byltingarsinnar settu nellikur í byssuhlaup portúgalskra hermanna, sem höfðu einmitt neitað að hlýða skipunum yfirmanna sinna um að skjóta á byltingarsinnana.
Aðkoma hinnar tiltölulega látlausu ballöðu Paulo de Carvalho sem flutt hafði verið í Eurovision var á þann veg að lagið var annað tveggja laga sem notuð voru sem merki um að byltingarsinnar ættu að láta til skara skríða. Lagið var spilað á ákveðinni útvarpsstöð seint að kvöldi þann 24. apríl og daginn eftir hófst hið friðsama valdarán. Hefur því verið lýst sem eina Eurovision-laginu sem tókst að hefja byltingu, í bókstaflegum skilningi.

Framlög Portúgala restina af áttunda áratugnum áttu kannski ekki eftir að vekja mikla athygli dómefnda eða áhorfenda en fyrir þá sem rýna aðeins í texta laganna sjá fljótlega eitt þema sem einkennir flest þeirra.
Lagið frá 1975 bar heitið „Madrugada“ – eða „Dögun“ – og fjallar um gleði Portúgala sem fylgdi í kjölfar Nellikubyltingarinna.
Lagið frá 1976 bar heitið „Uma flor de verde pinho” – eða „Furugrænt blóm” eða mögulega „Furublóm“ – og er um samanburð manns á ást sinni á þjóð sinni við ást sína á konu.
Lagið frá 1977 bar heitið „Portugal no coração” – eða „Portúgal í hjartanu“ – og er einn stór lofsöngur um Portúgal og portúgölsku þjóðina.
Lagið frá 1978 bar heitið „Da li dou” – sem er því miður óþýðanlegt – var um hvernig flugdreki kveikir á þrá söngvarana eftir sínu eigin frelsi.
Lagið frá 1979 bar heitið „Sobe, sobe, balão sobe“ – eða „Upp, upp, loftbelgur/blaðra upp” – og fjallar um áhyggjulaust og „carefree“ líf söngvarans.

Miðað við þessi lög mætti með sanni segja að Nellikubyltingin hafi haft mjög góð áhrif á Portúgal og svo sannarlega haft sín áhrif á Eurovision.

Eydís, eydís og meira eydís: 1980 – 1989

Fram að þessu höfðu Portúgalir sent lög í rólegri kantinum í keppnina, með örfáum undantekningum. Þeir byrjuðu þó hið rómaða „eightís“ tímabil með krafti og framlag þeirra árið 1980 – „Um grande, grande amore“ – byrjaði kannski rólega en hresstist fljótlega upp. Þetta lag er þó ekki merkilegt fyrir þær sakir að búa yfir meira tempói en fyrirrennarar þess. Hins vegar var þetta fyrsta lagið frá Portúgal sem innihélt textabrot á öðru en portúgölsku. Viðlagið er nefnilega ekki neitt annað en frasinn „bless“ á nokkrum tungumálum, en þar má finna ítölsku, þýsku, ensku og frönsku. Má líka nefna að þessi gleðisprengja náði besta árangri Portúgala til þessa, 7. sætinu af 19 keppnisþjóðum.

Portúgalir héldu sig við hressleikann og textabrot á öðru tungumáli en portúgölsku árið eftir, en framlag þeirra 1981 bar heitið „Playback“. Lagið er að sögn söngvarans Carlos Paião satíra sem gerir grín að svokölluðum „lip-synch“ söngvurum, sem hreyfa einungis varirnar í samræmi við lagið sem spilað er í heild sinni í bakgrunninum. Atriðið sjálft er stórkostleg skemmtun þar sem Carlos sjálfur og bakraddirnar hans eru klædd í ansi litríkan fatnað ásamt því að hreyfingar bakraddasöngvaranna er ákveðinn kapítuli út af fyrir sig. Lagið vakti þó ekki mikla lukku og endaði í 18. sæti af 20.

Portúgalir héldu sig enn einu sinni við hressleikann árið eftir og mættu til leiks árið 1982 með „Bem Bom“ flutt af kvartettinum Doce. Lagið fjallar um ansi góða næturskemmtun þar sem tveir aðilar geta bara ekki yfirgefið hvort annað, en í viðlaginu eru taldar niður klukkustundirnar yfir nóttina þangað til klukkan er orðin átta. Viðlaginu líkur svo með því að pantaður er morgunmatur fyrir tvo án þess að vita hvert framhaldið verður. Með eindæmum góður partýsöngur sem endaði þó bara í 13. sæti af 18 lögum.

Portúgalir luku níunda áratugnum á svipuðum nótum og þeir hófu hann, á fartinu. Árið 1989 buðu þeir Evrópu upp á gullmolann „Conquistador“ flutt af sveitinni Da Vinci. Lagið fjallar um gullár Portúgala sem landkönnuði og nýlenduherra. Deila má þó um hvort umfjöllunarefnið nýlenduherrar yrði viðeigandi yrkisefni í dag, en þar sem þetta var samið fyrir 30 árum ætlum við að leyfa þeim að njóta vafans þegar kemur að pólitískri rétthugsun. En lagið er hresst og múnderingar Portúgalanna eru óborganlegar. Allt mjög „eightís“ og svolítið í anda Michael Jackson. Nýlendusöngurinn vakti ekki neina rosalega lukku hjá Evrópubúum, en lagið endaði í 16. sæti af 22.

 

Með þessu ljúkum við fyrri hluta sögu Portúgala í Eurovision. Í seinni pistlinum verður farið yfir tíunda áratug 20. aldarinnar ásamt tveimur fyrstu áratugum 21. aldarinnar. Ekki missa af því.