Júró-stiklur FÁSES 2018

Ari Ólafsson með aðdáendum.

FÁSES blés til fimmtu útgáfu af Júró-stiklum félagsins á Sólón 18. apríl síðastliðinn. Eins og flestir vita er hér um að ræða fjölskylduvænan viðburð á vegum félagsins þar sem stiklað er á stóru yfir stiklur úr Eurovision framlögum ársins í ár ásamt því að bjóða upp á ýmis skemmtiatriði. Sunna Mímisdóttir viðburðar- og kynnningarstjóri FÁSES, kynnti hvert júró lagið á fætur öðru, útskýrði texta laga, kynnti staðreyndir um keppendur, slúðraði pínulitið og auðvitað var nördaskapurinn í hávegum hafður. Um það bil 50 manns skemmtu sér með okkur og naut léttra veitinga í boði FÁSES, en auk þess var hægt að fylgjast með viðburðinum í beinni útsendingu á facebook.

 

Ungir Eurovision aðdáendur með fánablæti!

Enginn stikluviðburður er fullkomnaður nema íslenski Eurovision keppandinn komi fram og að sjálfsögðu varð engin breyting þar á í ár. Okkar eigin Ari Ólafsson mætti að sjálfsögðu, tók lagið sitt Our Choice og æstir aðdáendur fengu mynd af sér með þessum prýðispilti. Ari hefur síðustu dagana verið að skemmta á hinum ýmsu Eurovision tengdum viðburðum, forpartýunum í London, Tel Aviv, Amsterdam og nú um helgina setur hann stefnuna á Madrid. Þar hefur Ari skemmt fyrir allt upp í tugþúsundir áhorfenda en að hans sögn er líka skemmtilegt að koma á minni viðburði eins og Júró-stiklur þar sem flytjandinn kemst í návígi við áhorfendur. Ari er frábær fyrirmynd fyrir yngstu kynslóðina og sýndi það þegar hann talaði til barnanna í salnum og hvatti þau til að fylgja draumum sínum.

 

Á meðan Eurovision lögin rúlluðu í gegn gafst áheyrendum tækifæri til að kjósa um vinsælasta lag stiklanna í rafrænni kosningu hér á FÁSES.is. Niðurstöðurnar má sjá á meðfylgjandi mynd en Ísrael, Frakkland, Finnland, Danmörk og Tékkland röðuðu sér í efstu fimm sætin.