NU KÖR VI!


FÁSES.is er nú statt í mekka hvers Eurovisionaðdáenda, Stokkhólmi, til vera viðstatt Melodifestivalen. Úrslitin í Melló, eins og Svíar kalla keppnina, fara fram nú á laugardag og keppa 12 lög um að verða framlag Svíþjóðar í Lissabon í maí. Fimm undankeppnum Melodifestivalen er nú lokið. Fyrirkomulagið er þannig að úr fyrstu fjórum undankeppnunum komast tvö lög beint í úrslit en tvö lög fara í fimmtu undankeppnina, Andra Chansen, sem er wildcard þáttur þeirra Svía. Fjögur lög komast síðan upp úr Andra Chansen, svo alls eru þetta 12 lög sem við fáum að heyra á laugardaginn.

 

Þátttakendur í úrslitum Melodifestivalen 2018

Mendez – Everyday

Mendez er ættaður frá Chile og þekktur plötusnúður í Svíþjóð. Þetta er þriðja skiptið sem hann tekur þátt í Melodifestivalen. Árið 2002 varð hann í öðru sæti með lagið „Adrenaline“ og árið 2003 komst hann í Andra Chansen með lagið „Carnaval“. Mendez komst aftur í Mellóúrslitin í ár í gegnum Andra Chansen.

Renaida – All The Feels

Renaida keppti í sænska Idolinu á síðasta ári og varð í 6. sæti. Í ár mun þessi tvítuga stúlka taka þátt í Melodifestivalen í fyrsta skipti. Renaida komst í úrslit Melodifestivalen í gegnum Andra Chansen.

Martin Almgren – A Bitter Lullaby

Martin er vörubílstjóri sem vann sænska Idolið 2015 og er þekktur fyrir soul-röddina sína. Hann komst beint inn í úrslitin eftir að hafa keppt í þriðju undankeppninni í Malmö.

John Lundvik – My Turn

John Ludvik er að taka þátt í fyrsta sinn en hann er þekktur lagahöfundur og hefur meðal annars samið lög fyrir Melodifestivalen-stjörnur eins og Sanne Nielsen og Anton Ewald. John er fæddur í London og var áður spretthlaupari. John komst beint inn í úrslitakeppnina úr fyrstu undankeppni Melló, sem haldin var í Karlstad.

Jessica Andersson – Party Voice

Jessica er sannkallaður reynslubolti því þetta er í sjöunda sinn sem hún stígur á Melodifestivalen-sviðið. Í fyrsta skiptið sem hún tók þátt í Melló, þá sem hluti dúósins Fame, vann hún með lagið „Give Me Your Love“ og lentu þau í 5. sæti í Eurovision keppninni í Riga. Jessica komst beint í úrslitakeppnina Melodifestivalen þetta árið úr þriðju undankeppninni í Malmö.

LIAMOO – Last Breath

Liamoo eða Liam Cacatian Thomassen er fæddur 1997 og er nýgræðingur í Melodifestivalen og svo til nýkominn inn í tónlistarsenuna í Svíþjóð. Hann tók þátt í sænska Idolinu 2016 en hann datt út í undanúrslitunum þar, komst svo inn sem wildcard og vann úrslitin. Hann hefur hæst náð 6. sæti á sænska vinsældarlistanum með laginu Playing with fire. Liamoo fór beint í úrslitakeppnina úr annarri undankeppni Melló í Gautaborg.

Samir & Viktor – Shuffla

Það þarf varla að kynna þá kumpána Samir og Viktor fyrir Eurovision aðdáendum en þeir eru nú að taka þátt í þriðja sinn í Melodifestivalen. Hver man ekki eftir lögunum þeirra Bada Nakna frá 2016 og Groupie frá 2015? Samir & Viktor tókst núna í fyrsta sinn að komast úr annarri undankeppninni beint í úrslitakeppni Melló en Bada Nakna og Groupie komust bæði í úrslitakeppnina eftir að hafa farið í gegnum Andra Chancen.

Mariette – For You

Mariette er Eurovision aðdáendum vel kunnug þótt hún hafi aldrei keppt í Eurovision. Árið 2015 varð hún í 3. sæti Melodifestivalen með lagið „Don‘t Stop Believing“ og árið 2017 varð hún í fjórða sæti með lagið „A Million Years“. Mariette vann OGAE Second Chance keppni Eurovisionklúbbana með seinna laginu en í þeirri keppni velja aðdáendur besta lagið úr undankeppnum Eurovision. Mariette komst beint í Mellóúrslitin hér í Stokkhólmi úr fjórðu undankeppninni sem haldin var í Örnsköldsvik.

Felix Sandman – Every Single Day

Felix var áður í strákabandinu FO&O sem lenti í 11. sæti í Melodifestivalen í fyrra með lagið „Gotta Thing About You“. Nú notar hann keppnina til að hefja sinn sólóferil. Hann komst í Mellóúrslitin í gegnum Andra Chansen í Kristianstad.

Margaret – In My Cabana

Pólska söngkonan Margaret söng sig inn í hug og hjörtu Eurovision aðdáenda með þátttöku sinni í pólsku undankeppninni árið 2016. Hún söng lagið „Cool Me Down“ en lenti eftirminnilega í 2. sæti á eftir Michal Szpak og laginu hans „Color of Your Life“ (sem lenti í 8. sæti í Eurovision í Stokkhólmi). Nú er Margaret komin í Melodifestivalen með lagið „In My Cabana“ og komst hún í úrslit í gegnum Andra Chansen.

Benjamin Ingrosso – Dance You Off

Benjamin tekur nú þátt í annað skiptið í Melodifestivalen en hann komst í úrslit í fyrra með laginu „Good Lovin“ og lenti í 5. sæti. Þess má geta að þegar FÁSES tók viðtal við Robin Bengtsson í Kænugarði þá hélt hann ekki vatni yfir Benjamin og sagði hann að lagið hans í fyrra væri eitt af hans uppáhalds Melodifestivalen lögum. Benjamin komst beint inn í úrslitakeppnina eftir fyrstu undankeppni Melló í Karlstad.

Rolandz – Fuldans

Leikarinn Robert Gustafsson er mættur í Melló með sitt vinsæla skopstælingardansband Rolandz. Hann er einna þekktastur utan Svíþjóðar fyrir að leika gamlingjann Allan Karlsson í tveimur myndum sem gerðar hafa verið um gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf. Karakterinn Roland Järverup kom fyrst fram í kvikmyndinni Screwed in Tallinn árið 1999. Hljómsveitin Rolandz varð svo þekkt í Svíþjóð árið 2008 eftir skemmtiatriði sitt í raunveruleikþættinum Dansbandskampen. Kannski klóra einhverjir sér í höfðinu yfir atriðinu, og vissulega hefur pistlahöfundar gert það sama, en það má líkja Rolandz við skagfirska sveiflukónginn Geirmund Valtýrsson í glimmerbúningi. Fuldanz þýðir samkvæmt heimildum FÁSES.is ljótupabbadansinn. Rolandz komst upp úr fjórðu undankeppninni í Örnsköldsvik beint í úrslitin í Friends Arena hér í Stokkhólmi.

 

Tvísýn úrslit

Margir Eurovision aðdáendur telja að Melodifestivalen í ár sé frekar veik keppni og sænska ríkissjónvarpið, SVT, er sannarlega að berjast við ört minnkandi áhorf á þættina. Menn eru þó vongóðir fyrir úrslitin sem fara fram í Friends Arena nú á laugardag. Staða veðbanka í dag, fimmtudag, er þannig að Benjamin Ingrosso þykir sigurstranglegastur og þar á eftir koma Felix Sandman og John Lundvik. Felix Sandman leiðir sænska vinsældarlista Spotify en aðrir keppendur sem komast á þann lista eru Mendez (4. sæti), Samir & Viktor (5. sæti) og Benjamin Ingrosso (7. sæti).

Úrslitin verða með hefðbundnu fyrirkomulagi, vægi símakosningar er 50% á móti 50% vægi dómnefndar. Dómnefndin í Melodifestivalen verður alþjóðleg eins og síðustu ár og alls verða að störfum 11 dómnefndir frá Póllandi, Albaníu, Íslandi, Ítalíu, Kýpur, Ástralíu, Georgíu, Bretlandi, Armeníu, Frakklandi og Portúgal. Síðustu árin hafa mikil áhrif alþjóðlegu dómnefndarinnar verið gagnrýnd og hefur SVT því breytt fyrirkomulaginu. Í stað þess að hver dómnefnd gefi sjö lögum stig mun dómnefndin á laugardag gefa tíu lögum stig svo dómnefndarstigum er útdeilt á fleiri framlög.

Fréttaritarar FÁSES eru staddir í Stokkhólmi á Melodifestivalen og við hvetjum ykkur því til að fylgjast með FÁSES facebook og FÁSES snappinu (fasessnap)!