Eurovision þykir frekar ávanabindandi viðburður, ekki einungis hvað varðar aðdáendur heldur einnig þegar kemur að keppendum. Á hverju ári mæta hinir svokölluðu „góðkunningjar“ Eurovision á svæðið og ætlum við nú að fara yfir þá sem hafa ákveðið að fresta gæfunnar á stóra sviðinu á ný í ár.
Eistland
Eistar bjóða uppá ekki einn heldur tvo góðkunningja í ár, hvorki meira né minna. Koit Toome og Laura mynda dúettinn sem flytur framlag Eista í ár og eru þau bæði með reynslu á stóra sviðinu í Eurovision. Koit tók þátt fyrir hvorki meira né minna en 19 árum síðan, árið 1998, þá einungis 19 ára gamall þar sem hann sat ungur og saklaus við flygilinn í hvítu jakkafötunum sínum og flutti lagið Mere Lapsed (ísl: Börn hafsins). Koit tókst þó ekki að komast inn á topp 10 en hann lenti í 12. sæti með af 25 keppendum með 36 stig.
Eistland 1998 – Koit Toome – Mere Lapsed
Það er aðeins styttra síðan mótsöngkona hans Koit, hún Laura, tók síðast þátt í Eurovision. Hún var meðlimur stúlknasveitarinnar Suntribe sem tók þátt fyrir hönd Eista árið 2005 með lagið Let’s Get Loud. Eistar tóku þátt í undankeppninni þetta árið en voru því miður frekar langt frá því að komast í úrslitin, en lagið lenti í 20. sæti af 25 keppendum með 31 stig. Sú keppni var einmitt haldin í Kænugarði líkt og í ár og bjóðum við því Lauru velkomna aftur í tvöföldum skilningi.
Eistland 2005 – Suntribe – Let’s Get Loud
Slóvenía
Hin eistneska Laura er ekki sú eina frá því í Kænugarði 2005 sem heiðrar okkur með nærveru sinni í Kænugarði í ár. Hinn slóvenski Omar Naber tók nefnilega þátt það ár líka fyrir hönd heimalandsins, þá með lagið Stop sem sungið var á slóvensku. Omar karlinn komst því miður ekki heldur í úrslitin, rétt eins og Laura, en var þó aðeins nær því en hann lenti í 12. sæti í undankeppninni með 69 stig. Omar er ekki einungis góður söngvari heldur er hann einnig lagahöfundur en hann samdi sjálfur bæði lagið sem hann flutti í Kænugarði 2005 og lagið sem hann mun flytja í ár.
Slóvenía 2005 – Omar Naber – Stop
Moldóva
Moldóva býður okkur upp á nokkuð eftirminnilega góðkunningja en það er hljómsveitin SunStroke Project. Sveitin tók þátt fyrir hönd Moldóvu í Osló árið 2010 með lagið Run Away þar sem þeir fengu aðstoð frá söngkonunni Oliu Tiru. Það sem gerði þetta framlag sérstaklega eftirminnilegt var saxófónleikarinn og sólóið hans, en eftir keppnina fékk hann viðurnefnið Epic Sax Guy og varð að eins konar internet-fyrirbæri, þar sem meðal annars GIF-myndir af mjaðmahnykkjunum hans dreifðust á milli manna ásamt því að sett var upp 10 klukkustunda myndband á Youtube þar sólóið hans var spilað stanslaust í svokallaðri „lúppu“. Einnig var búið til annað 10 klukkustunda myndband með sólóið á sömu „lúppu“ en að þessu sinni var Gandálfur í Lord of the Rings myndunum aðalhetjan, mælum með að kíkja á það hér þar sem tveir nördaheimar koma saman í tilgangsleysi internetsins. En aftur að framlaginu frá 2010. Gengi Moldóvu hafði verið með ágætum frá árinu 2005, en þeim hafði tekist að komast í úrslitakeppnina öll árin síðan þá fyrir utan árið 2008. SunStroke Project og Olia Tira komust einnig í úrslitin 2010 en enduðu þó einungis í 22. sæti af 25 keppendum með 27 stig.
Moldóva 2010 – SunStroke Project & Olia Tira – Run Away
San Marínó
San Marínó býður okkur uppá þrautseignasta góðkunningja ársins en það er engin önnur en Valentina Monetta. Er þetta í fjórða skiptið sem Valentina flytur framlag San Marínó og mun með því jafna met hinnar norsk-sænsku Elisabethar Andreassen og hinnar svissnesku Sue (Peter, Sue & Marc) um fjölda þátttaka af hendi kvenmanns í keppninni. Hún Valentina tók þátt fyrir hönd San Marínó árin 2012 með lagið The Social Network Song (OH OH – Uh – OH OH), árið 2013 með lagið Crisalide (Vola) og árið 2014 með lagið Maybe (Forse), en þau voru öll samin af yfir-góðkunningja Eurovision, Ralph Siegel. Gengi San Marínó hefur ekki verið upp á það besta hingað til, en Valentina býr þó yfir þeim heiðri að hafa flutt eina framlag smáþjóðarinnar sem hefur komist í úrslitakeppnina, en það var árið 2014. Í ár er Valentina þó ekki ein á sviðinu en henni til halds og trausts verður hinn bandaríski Jimmie Wilson og er lagið enn og aftur samið af honum Ralph Siegel.
San Marínó 2012 – Valentina Monetta – The Social Network Song (OH OH – Uh – OH OH)
San Marínó 2013 – Valentina Monetta – Crisalide (Vola)
San Marínó 2014 – Valentina Monetta – Maybe (Forse)
____________________________________________________________________________________
Það eru ekki alltaf aðalsöngvararnir sem heiðra okkur með nærveru sinni oftar en einu sinni, en í keppninni í ár eru tveir fyrrum bakraddasöngvarar sem fá aðalhlutverkið í ár.
Ísrael
Það kannast kannski ekki allir hann Imri við fyrstu sýn, en þetta er ekki hans fyrsta viðvera á Eurovision-sviðinu. Hann hefur nefnilega verið bakraddasöngvari í ísraelsku framlögunum tvisvar sinnum. Fyrra skiptið var með gulldrengnum Nadav árið 2015 í Vínarborg og seinna skiptið með hinum demantskreytta Hovi Star í fyrra í Stokkhólmi. Það er þó ekki nema von að fæstir kannist við andlitið á honum Imri blessuðum, þar sem hann var aldrei í mynd í fyrra, þar sem bakraddirnar voru fyrir utan sviðið, og hann birtist ekki í mynd árið 2015 fyrren þegar það eru sirka 30 sekúndur eftir af atriðinu. En það verður þó ekki tekið af honum Imri að hann er góðkunningi samt sem áður og bjóðum við hann velkominn í sviðsljósið.
Ísrael 2015 – Nadav Guedj – Golden Boy
Ísrael 2016 – Hovi Star – Made Of Stars
Serbía
Úr herbúðum Serba er hinn bakradda-góðkunningi keppninnar í ár, en það er hún Tijana Bogićević. Sex ár eru síðan Tijana steig síðast á Eurovision-sviðið, en það var árið 2011 þegar keppnin var haldin í Düsseldorf. Hún var þá ein af þremur bakraddasöngkonum sem fylgdu henni Ninu með lagið Caroban. Þegar horft er á upptöku af atriðinu þá er Tijana þessi ljóshærða klædd í rauðan kjól og appelsínugular sokkabuxur.Tijana hafði lengi vel einbeitt sér mest að bakraddasöng, en ákvað árið 2013 að leggja allan sinn kraft í sólóferil sinn eftir að lag sem hún gaf út öðlaðist vinsældir í heimalandinu Serbíu. Tijana býr nú í Bandaríkjunum ásamt þarlendum eiginmanni sínum og vinnur að tónlist sinni þar í landi, en ákvað þó að koma heim til Serbíu til að taka þátt í framlagi Serba í Eurovision í ár.
Serbía 2011 – Nina – Caroban
Georgía
Það er í raun einn góðkunningi í viðbót, en það er hún Tamara frá Georgíu. Hún steig þó aldrei á hið eiginlega Eurovision svið þrátt fyrir að hafa verið flytjandi eins framlags Georgíu. Þannig er mál með vexti að Tamara var einn meðlima hljómsveitarinnar Stefane & 3G sem voru flytjendur áætlaðs framlags Georgíumanna árið 2009 í Moskvu. Lagið bar heitið We Don’t Wanna Put In, en texti lagsins og sérstaklega titilinn var bein pólitísk skírskotun til þáverandi forsætisráðherra Rússa Vladimir Putin. Þetta var auðvitað hreint brot á reglum EBU um bann við pólitískum textum framlaga í Eurovision og tilkynnti EBU að Georgíumenn þyrftu annað hvort að breyta texta lagsins eða velja sér alveg nýtt framlag. Georgíumenn tóku það hins vegar ekki í mál og drógu sig úr keppni þess í stað. Tamara fór því aldrei fyrir hönd Georgíu í Eurovision, en þar sem þetta átti að verða framlag Georgíu árið 2009 (og hreinlega af því að það verður bara að minna fólk á skemmtanagildi myndbandsins) þá rifjum við upp þetta lag sem fékk aldrei að líta hið eiginlega Eurovision-dagsins ljós.
Stefane & 3G – We Don’t Wanna Put In