Ukraine, l’Ukraine, Україна – Úkraína í Eurovision – Þriðji hluti

Þá er komið að þriðja og síðasta hlutanum í þessari yfirferð um sögu Úkraínu í Eurovision. Við skildum við ykkur síðast árið 2012 og tökum upp þráðinn 2013 og förum yfir framlög Úkraínu til ársins í ár.

 

 

 

Síðustu fimm árin: Topp 10, eftirseta, sigur og gestgjafahlutverkið (og enn meira drama)

Úkraínumenn þurftu að „sætta sig“ við 15. sætið árið 2012 og ætluðu sér svo sannarlega að ná inn á topp 10 árið 2013. Haldin var forkeppni í Úkraínu þar sem 20 lög kepptu sín á milli um heiðurinn að fá að fara fyrir hönd heimalandsins til Malmö. Keppnin fór fram á Þorláksmessukvöld 2012 og voru úrslitin ráðin með 50% dómaraatkvæðum og 50% símakosningu. Keppnin hófst með smá drama, eins og hafði einkennt úkraínsku forkeppnirnar árin á undan, en eftir að fyrsta lagið hafði verið flutt ákváðu flytjendur þess að draga sig formlega úr keppni í beinni útsendingu. Keppnin hélt þó áfram, í stað 20 laga voru það núna 19 lög sem kepptu sín á milli. Eftir að atkvæði dómnefndar og atkvæði úr símakosningu höfðu verið lögð saman var það Zlata Ognevich með lagið Gravity sem stóð uppi sem sigurvegari.

Framsetning lagsins í Eurovision átti eftir að vekja athygli, rétt eins og venja var orðin þegar koma að úkraínsku framlögunum. Í upphafi lagsins var Zlata borin inn af sannkölluðum risa, en það var hinn 234.5 cm hái Igor Vovkovinskiy. Igor þessi hafði verið búsettur í Bandaríkjunum síðan 1989, en hann hafði flust þangað 7 ára gamall ásamt fjölskyldu sinni til að öðlast læknismeðferð vegna hæðar sinnar, og var árið 2013 hæsti lifandi maðurinn í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að Igor hafi í raun bara verið á sviðinu fyrstu sirka 15 sekúndurnar þá vakti hann mikla athygli, bæði í Malmö og hjá áhorfendum heima í stofu.

Úkraínumenn náðu markmiði sínu, að komast aftur inn á topp 10, en Zlata og félagar enduðu í þriðja sæti með 214 stig.

Úkraína 2013 – Zlata Ognevich – Gravity

 

Úkraínska sjónvarpið var víst á báðum áttum hvort taka ætti þátt í keppninni 2014 vegna pólitísks óróleika í heimalandinu, en mikið ólguástand komst á í nóvember 2013 þegar þáverandi forseti Úkraínu neitaði að skrifa undir sáttmála sem átti að koma á samstarfi á milli Úkraínu og Evrópusambandsins. Forsvarsmenn úkraínska sjónvarpsins ákváðu þó að halda sínu striki og haldin var forkeppni í Kænugarði þann 21. desember. Keppnin samanstóð af 20 lögum og voru úrslit ráðin með 50% dómaraatkvæðum og 50% SMS-atkvæðum. Eftir að atkvæði höfðu verið samanlögð var það Mariya Yaremchuk með lagið Tick-Tock sem stóð uppi sem sigurvegari.

Ekki frekar enn önnur ár var þessi keppni laus við allt drama. Eftir að úrslit höfðu verið tilkynnt hófu nokkrir keppendur að mótmæla úrslitunum á þeim grundvelli að átt hafði verið við SMS-kosninguna, það er að segja að lokað hefði verið á símalínur nokkurra keppenda á meðan símalínunni fyrir lag Mariyu Yaremchuk hafði verið haldið opinni allan tímann. Þeir sem stóðu í forsvari fyrir atriðið sem lenti í þriðja sæti hótuðu meira að segja lögsóknum, og þeir sem stóðu að atriðinu sem lenti í öðru sæti sendu inn kvörtun vegna málsins. Málið náði þó aldrei nógu langt og Mariya Yaremchuk fór því fyrir hönd Úkraínu til Kaupmannahafnar.

Enn og aftur átti sviðsetning Úkraínu eftir að vekja athygli, en í þetta skiptið ákváðu þeir að mæta með „human-sized“ hamstrahjól og eitt stykki dansara sem hljóp og hljóp og hljóp inn í hjólinu. Þetta virtist hafa verið ágætlega sterkur leikur hjá Úkraínumönnum, þar sem Mariya og hamsturinn enduðu í sjötta sæti með 113 stig.

Úkraína 2014 – Maryia Yaremchuk – Tick-Tock

 

Úkraína ákvað að taka sér hlé frá Eurovision árið 2015 þar sem ástandið heima fyrir var ekki gott. Bylting hófst í febrúar 2014, oft kölluð Euromaiden-byltingin, með miklum mótmælum og ofbeldi í höfuðborginni Kiev og náði hún hámarki þegar þáverandi forseti landsins, Viktor Yanukovich, sagði af sér.

Í stuttu máli sagt mætti svo segja að ástandið hafi orðið mjög eldfimt í kjölfarið og að innlimun Rússa á Krímeuskaganum sé í beinum tengslum við þessa byltingu. Við ætlum þó ekki að fara nánar út í beint pólitísk ástand í Úkraínu heldur hoppa yfir til ársins 2016.

____________________________________________________________________________________

Úkraínumenn tilkynntu endurkomu sína í Eurovision 2016 eftir árshlé, þrátt fyrir að ástandið heima fyrir væri ennþá eldfimt. Úkraínska sjónvarpið setti upp forkeppni sem samanstóð af tveimur undankeppnum og úrslitakeppni. Í úrslitunum kepptu sex lög sín á milli og voru úrslit ráðin með blöndu af dómaraatkvæðum og símakosningu. Eftir að öll atkvæði höfðu verið lögð saman var jafntefli á milli hljómsveitarinnar The Hardkiss með lagið Helpless og söngkonunnar Jamala með lagið 1944. Þar sem Jamala hafði hlotið fleiri símaatkvæði var hún úrskurðaður sigurvegari.

Lagið vakti strax athygli, ekki einungis fyrir að vera fyrsta lagið í sögu Eurovision sem innihélt texta á tungumáli krímverskra Tatara, heldur líka mögulegra pólitískra skírskotana í texta lagsins, en lagið fjallar um sögulega atburði sem áttu sér stað árið 1944 þegar Sovétmenn, með Stalín í fararbroddi, létu vísa á brott krímverskum Töturum úr Sovétríkjunum. EBU ákvað hins vegar að texti lagsins væri af sögulegum toga en ekki pólitískum og var laginu því leyft að halda áfram keppni, þrátt fyrir einhver mótmæli.

Úkraínumenn veðjuðu á frekar lágstemmda sviðssetningu þetta árið, engin yfirdrifin props á svæðinu, bara Jamala og LED-skjárinn. Það gerði þó gæfumuninn því eftir gífurlega spennandi stigagjöf var það Úkraína sem stóð uppi sem sigurvegari með 534 stig, einungis 23 stigum á undan Ástralíu sem var í öðru sætinu. Athygli vakti að Úkraína lenti í öðru sæti bæði hjá dómnefndinni og í símakosningunni, en þegar atkvæði voru lögð saman var útkoman sigur Úkraínumanna. Voru þeir því búnir að tryggja sér gestgjafahlutverkið árið 2017.

 

Úkraína 2016 – Jamala – 1944

 

Þrátt fyrir að skipulagning keppninnar í Úkraínu 2017 hafi ekki gengið hnökralaust fyrir sig hafa Úkraínumenn tekið gestgjafahlutverkinu alvarlega, þar með talið með vali á framlagi landsins þetta árið. Úkraínska sjónvarpið setti upp veigamikla forkeppni þar sem listamenn gátu sent inn lög rafrænt eða mætt á svæðið í eins konar áheyrnarprufu. Eftir að lög höfðu verið valin í gegnum það ferli var einnig sett upp eins konar „Svarta-Péturs“ keppni á veraldarvefnum þar sem lagahöfundar gátu sent inn lög sem kosið yrði á milli af almenningi. Vinningslagið fengi svo miða í eina af undankeppnunum.

Keppnin samanstóð svo af þremur undankeppnum, með 8 lögum í hverri, og svo einu úrslitakvöldi þar sem 6 lög kepptu um að fá að flytja framlag Úkraínu á heimavelli 2017. Úrslitin voru ráðin með blöndu af dómaraatkvæðum og símaatkvæðum og eftir að atkvæði höfðu verið lögð saman var það rokkhljómsveitin O.Torvald sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið Time. Áhugavert er að benda á að, líkt og með sigurlag Úkraínu í Eurovision 2016, lenti sigurlagið í raun í öðru sæti bæði hjá dómnefnd og áhorfendum en með samanlögðum atkvæðum náði það efsta sætinu.

Í forkeppninni bauð O.Torvald upp á hálfgerða „eftir-dómsdags“ stemmningu, þar sem hljómsveitarmeðlimir standa upp á stórum steinpöllum og með klukku, bæði á bringunum og á skjá bak við, sem telur niður tímann. Það er spurning hvort þeir bjóði upp á sömu sviðssetningu á stóra sviðinu í Kænugarði, en við fáum að vita það eftir einungis nokkra daga.

Úkraína 2017 – O.Torvald – Time

 

Hér með höfum við lokið þessari yfirferð okkar yfir 15 ára sögu Úkraínu í Eurovision. Eins og sönnu Eurovision-landi sæmir er hún uppfull af hæðum og lægðum og dramatíkin aldrei langt undan.