JÚRÓ-STIKLUR FÁSES 2017

Það vantaði heldur betur ekki upp á Eurovision stemningu á Markúsartorgi Ríkisútvarpsins í dag þegar FÁSES blés til fjórðu útgáfu af Júró-stiklum félagsins. Eins og flestir vita er hér um að ræða fjölskylduvænan viðburð á vegum félagsins þar sem stiklað er á stóru yfir stiklur úr Eurovision framlögum ársins í ár ásamt því að bjóða upp á ýmis skemmtiatriði. Tilvalin upphitun fyrir fjörið í maí! Metmæting var á samkomuna, þar sem um það bil 80 manns skemmtu sér með okkur, en auk þess fylgdist fjöldi manns með Facebook live streyminu á netinu.

Stiklurnar hófust á óvæntum video-glaðningi frá Daða Frey sem var i 2. sæti Söngvakeppninnar í ár. Þá var tekið til við að kynna framlög allra landa sem keppa í Eurovision í ár en þar var nördaskapurinn í hávegum hafður. Stóðu Steinunn og Sunna sig með stakri prýði að kynna hinar ýmsu staðreyndir um keppendur ársins fyrir okkur, útskýra texta laganna fyrir okkur og deila með okkur öllu skemmtilega slúðrinu.

Aron Brink mætti svo á svæðið, reytti af sér ljóskubrandara og tók fyrir okkur lagið sitt úr Söngvakeppninni í ár, Hypnotised. Vakti það griðarlega lukku, sérstaklega meðal yngstu aðdáendanna. Ekki var verra að fá að smella af sér mynd af goðinu eftir skemmtunina.

Enginn stikluviðburður er fullkomnaður nema íslenski Eurovision keppandinn komi fram og að sjálfsögðu varð engin breyting á því í ár. Svala heiðraði okkur með nærveru sinni þrátt fyrir þétta dagskrá þessa daga rétt fyrir brottförina til Kænugarðs. Hún spjallaði við nærstadda og auðvitað var yngsta kynslóðin með bestu spurningarnar og þurfti Svala meðal annars að útskýra hvernig hún fattaði eiginlega upp á laginu og hvort henni hafi ekki fundist gaman að vera í The Voice. Glöggur áhorfandi hafði tekið eftir fatnaði stjörnunnar og spurði af hverju hún væri í peysu frá „hinu liðinu“. Kom þá í ljós að Daði Freyr hafði sent henni græna peysu með mynd af Svölu á þar sem hann bauð henni að vera hluti af Gagnamagninu. Svala hefur vakið athygli undanfarið fyrir að taka 1944 með Jamölu mjög vel og var skorað á hana að endurtaka þann leik sem hún varð ljúfmannlega við. Að sjálfsögðu tók hún síðan fyrir okkur Eurovision framlag Íslendinga í ár, Paper. Að lokum fengum heppnir áhorfendur mynd af sér með stjörnunni og knús í kaupbæti.

 

Á meðan Eurovision lögin rúlluðu í gegn gafst áheyrendum tækifæri til að kjósa um vinsælasta lag stiklanna í rafrænni kosningu hér á FÁSES.is. Niðurstöðurnar komu eflaust ekki mörgum á óvart en Ítalía, Ísland, Svíþjóð, Belgía og Portúgal röðuðu sér í fimm efstu sætin.