OGAE Big Poll 2017

Á hverju ári framkvæma stærstu regnhlífarsamtök Eurovisionklúbba í heiminum, OGAE International, risastóra könnun þar sem félagar aðdáendaklúbbanna velja sín eftirlætis Eurovisionlög í keppninni í ár. Þessi könnun er síðan m.a. notuð í veðbankasúpuna til að spá fyrir um sigurvegara keppninnar í ár enda hefur félagið innanborðs 44 aðdáendaklúbba með um það bil 10 þúsund meðlimum vítt og breitt um heiminn. FÁSES tilheyrir að sjálfsögðu samtökunum og er búin að senda tengil á könnunina á sína félagsmenn með tölvupósti. Endilega ekki gleyma að greiða atkvæði – kosningunni verður lokað á miðnætti á morgun, 23. apríl! Úrslit Íslands verða síðan tilkynnt 25. apríl hér á FÁSES.is.

Eins og staðan er nú hafa um helmingur klúbbanna kosið og hægt er að fylgjast með kosningunni hér.

Tíu efstu sætin raðast nú svona:

  1. Ítalía, 239 stig
  2. Belgía, 162 stig
  3. Svíþjóð, 156 stig
  4. Frakkland, 124 stig
  5. Eistland, 111 stig
  6. Búlgaría, 58 stig
  7. Portúgal, 44 stig
  8. Ísrael, 42 stig
  9. Makedónía, 38 stig
  10. Finnland, 29 stig

Ísland hefur því miður bara fengið 3 stig fram að þessu í OGAE Big Poll, 1 stig frá OGAE Denmark og 2 stig frá OGAE Croatia. Í efsta sæti trónir Francesco Gabbani, ítalska sjarmatröllið, en fátt virðist koma í veg fyrir sigur hans í OGAE Big Poll þar sem hann er nú þegar búin að krækja í 17 af 21 12stigunum! Einnig vekur athygli hvað fimm efstu löndin eru langt á undan hinum í stigatöflunni. Eflaust kemur mörgum Íslendingnum á óvart hve portúgalska lagið er neðarlega, einungis með 44 stig, en það lag fékk t.d. mjög jákvæða umfjöllun í Alla leið um daginn. Enn eru nokkur lönd sem hafa ekki fengið stig í könnuninni enn; Albanía, Tékkland, Þýskaland, Litháen, Malta, Moldavía, Holland, San Marínó, Serbía, Slóvenía, Spánn og gestgjafinn í ár, Úkraína.

Þessi topp tíu listi er ekki alveg í samræmi við veðbankana eins og þeir standa núna. Hjá Oddchecker raðast þessi lönd svona í topp tíu: Ítalía, Búlgaría, Svíþjóð, Portúgal, Belgía, Ástralía, Armenía, Frakkland, Aserbaídsjan og Danmörk. Eins og sjá má eru Eurovision aðdáendur mikið hrifnari af Belgíu en Búlgaríu en þessu er akkúrat öfugt farið í veðbankaspám. Aðdáendurnir eru heldur ekki eins hrifnir af Armeníu, Ástralíu, Aserbaídsjan og Danmörku eins og spárna gefa aftur á móti til kynna.