Hún Svala okkar er á fullu að kynna lagið sitt en hún fer öðruvísi að heldur en hinir keppendunir þar sem hún er stödd í Los Angeles og erfitt að flakka á milli Evrópuborga þaðan. Fyrr í vikunni var hún með beina útsendingu á fésbókinni hjá Radio one Líbanon. Nú hljóta margir að vera að hugsa: ,,Af hverju útvarpsstöð í Líbanon sem er ekki einu sinni að taka þátt í Eurovision?” En samkvæmt umboðsmönnum Svölu hafði útvarpsstöðin samband og bað hana um að hafa beina útsendingu á fésbókinni þeirra. Rúmlega 46 þúsund manns eru búinn að horfa á viðtalið hvaðan æva af úr heiminum.
Beina útsendingin var stórskemmtileg og náði Svala að kynna lagið sitt ásamt því að sýna fólki hver Svala er í raun og veru. Hún söng fullt af lögum allt frá sínu eigin lagi yfir í Disney lög. Þið ættuð sérstaklega að kíkja á það þegar hún tekur sigurlagið í Eurovision í fyrra og rúllar upp úkraínskunni en hún syngur það á mínútu 49:00.
Svala rifjar ýmislegt upp og segir meðal annars frá því að pabbi hennar hafi alltaf verið að seinka því að fá hana til að koma fram með sér því hún væri of ung. Þá segir hún frá sínum fyrstu tónleikum sem hún fór á 8 ára og var það enginn annar en Boy George sem hún fór að sjá. Ballet var hennar líf og yndi á yngri árum en hún þurfti að hætta vegna hnémeiðsla. Svala segist hafa átt þrjár mömmur í lífinu því hún hafi verið mikið hjá ömmum sínum og lítur mikið upp til þeirra allra. Þeir sem hafa fylgst með Svölu á Snapchat vita að hún er mikill kattaunnandi. Kötturinn hennar Lucy kemur þar mikið við sögu en Svala segist breyta hreimnum í hálf breskan þegar hún talar við Lucy.
Svala sagði að hugmyndir og innblástur við tónlistarsköpun sína komi frá eigin lífi og vina sinna. Hún talaði líka um uppáhaldstónlistarfólkið sitt en þau eru meðal annars Prince, Michael Jackson, Beyonce og gamlar dívur eins og Patsy Cline og hún tekur lagið Crazy með henni í útsendingunni. Svala var mikið spurð út í húðflúrin sín og nefndi hún meðal annars að eitt af því tengdist uppáhalds myndinni hennar Blade Runner. Önnur sagði hún mun persónulegri eins og það sem hún er með á brjóstkassanum ,,Tree and Life” en það tengir hún við hjónaband sitt.
Það var að sjálfsögðu rætt um atriðið hennar í Kænugarði. Hún sagðist ætla halda sama þemanum og í Söngvakeppninni, hvítum fötum og svipað hár en sagði að atriðið yrði sett á hærra plan þar sem sviðið er mikið stærra. Hún sagðist ekkert stressuð fyrir því að koma fram en hún fái þó alltaf fiðrildi í magann sem hún segir bara hollt að fá og bætir við að það haldi sér á tánum.
Þegar umræðan færðist yfir í uppáhalds Eurovision lögin hennar segist hún halda mikið upp á sigurlag Jamölu frá því í fyrra en einnig Euphoria, I feed you my love og Love Injected. Hún talaði um að keppnin í ár væri sterk og vonaðist hún til þess að Paper nái til fólks og komist í úrslit. Þá sagðist hún halda mikið upp á Finnland, Lettland, Serbíu, Makedóníu, Svíþjóð og Belgíu í ár.
Í lokin sagði hún frá því að von væri á nýju efni frá henni og Einari en saman mynda þau bandið Blissful. Nýtt lag verður gefið út fljótlega og heitir það Find a way. Það verður sannarlega gaman að fylgjast áfram með ferðalagi Svölu í Eurovision en hún mun koma til landsins þann 22. april til að klára undirbúa atriðið sitt fyrir Kænugarð.