Eins og síðustu ár er ekki slegið slöku við í partýhaldinu hér í Eurovisionlandinu. FÁSES skellti sér í Norræna partýið sem haldið var á Euroclub hér í Stokkhólmi síðasta föstudag. Þar var boðið upp á frábæra smárétti frá hverju Norðurlandanna fyrir sig. Okkur fannst nú íslenski þorskurinn marenaður í Ákavíti bestur – gæti verið þjóðerniskenndin, gæti líka verið áfengið… Eftir nokkur viðtöl, selfies með keppendum, bónorð Flosa okkar til hinnar einu sönnu Marry-me Kristu Siegfrids (þar sem hún sagði já!) og annað mingl byrjaði svaka show á stóra sviðinu þar sem norrænu keppendurnir tóku lagið (sjáið myndböndin á FÁSES facebook fyrir meira). Agnete frá Noregi kom þó ekki fram þar sem hún tekur ekki þátt í neinum fjölmiðlaviðburðum vegna veikinda.
Laugardaginn 7. maí sl. hélt Estrid Brekkan, sendiherra Íslands í Stokkhólms, móttöku fyrir íslenska hópinn í sendiherrabústaðnum við flottustu götuna í Stokkhólmi, Strandvägen. Partývaktin var að fíla veitingarnar, popp, bland í poka, vínber og jarðarber, í ræmur. Greta Salóme lék eitt klassíkt lag á fiðluna fyrir viðstadda, Tiger rag, og síðan flutti hópurinn Hear them calling við góðar undirtektir. FÁSES afhenti sendiherranum nýútkomið Fréttabréf FÁSES sem henni leist svona líka vel!
Því næst hélt Partývaktin á frumsýningu kabarettsýningu Heru Bjarkar, The Queen of Effing Everything. Þar var hlegið og hlegið og hlegið og hlegið! Hera Björk stiklaði á stóru úr lífi sínu og ferli sem söngkonu – og kryddaði að sjálfsögðu á viðeigandi stað. Frábær grín- og skemmtisýning, þær gerast bara ekki betri. Ekki skemmdi fyrir að Greta Salóme kom og tók lagið sitt og sagði nokkra dónabrandara (eins og viðeigandi er að gera seint á laugardagskvöldi á Eurovision!). Betri helmingur Partývaktarinnar vakti mikla athygli nærstaddra fyrir frábæra bakraddartakta í sýningunni þegar dívan flutti Molitva við frábærar undirtektir áhorfenda. Partývaktin hélt síðan á Euroclub þar sem enginn önnur en Helena Paparizou (sigurvegari Eurovision 2005) var að troða upp – sú hefur engu gleymt!