Júró-Gróan er mætt til Stokkhólms og OMG hvað hún er sjúkt peppuð fyrir þessari júró-vertíð!
Þrálátur og hávær orðrómur er uppi um að Ira Losco aðalsöngkona Maltverja sé ólétt. Ekki verður annað sagt en að búningur Iru á fyrstu æfingu Möltu fyrr í vikunni hafi ýtt undir þann orðróm (frekar óklæðileg flík að mati Gróunnar sem grafík er varpað á). Það er nú alltaf ein svona óléttusaga á hverju ári (sbr. Paula frá Rúmeníu í Köben 2014 og Debrah Scarlett frá Noregi 2015) svo það er gott að hún sé hér með komin fram. Uppfært: Ira Losco staðfesti þungunina í gærmorgun og á hún von á sér í ágúst (en því miður var ekki hægt að færa ykkur þessar fréttir fyrr þar sem FÁSES.is lá niðri um helgina vegna netárása).
Philip Kirkorov, lagahöfundur rússneska lagsins, hefur sagt að ef Rússarnir vinna Eurovision í ár verði keppnin haldin í Sochi, þar sem vetrarólympíuleikarnir 2014 voru haldnir. Ætli hann hafi það ekki beint frá Pútín?
Jóhannes úr Lighthouse X var mjög mjög hress á Euroklúbbnum í fyrrakvöld – við vonum að hann þjáðist ekki um of af timburmönnum. Danir lentu reyndar í því sama og íslenski hópurinn hér í Stokkhólmi. Hætt var við tillögu SVT á sviðsetningu „Soldiers of Love“ á síðustu stundu þar sem hún kom illa út í sjónvarpi og horfið var aftur til sviðsetningarinnar eins og hún var í Melodi Grand Prix í Danmörku.