Melodifestivalen 2016

mello

Keppendur í úrslitaþættinum. Mynd SVT Melodifestivalen.

Við fengum ægilega skemmtilega samantekt frá Ísaki Pálmasyni, FÁSES meðlim, um Melodifestivalen. Njótið vel!

Úrslit Söngvakeppni sænska sjónvarpsins, Melodifestivalen, fara fram annað kvöld í Friends Arena í Stokkhólmi. RÚV mun sýna beint frá keppninni og hefst útsendingin klukkan 19:30. Keppnin þykir ein sú glæsilegasta í Eurovision heiminum og gefur Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva ekkert eftir. Keppnin hefur verið haldin næstum árlega frá því að Svíjar tóku fyrst þátt í Eurovision árið 1959. Sigurvegari keppninnar verður fulltrúi Svíþjóðar í Eurovision sem verður haldin í Stokkhólmi 14. maí.

Haldnir voru fjórar undankeppnir þar sem tvö lög komust beint í úrslit. Lögin sem lentu í þriðja og fjórða sæti í hverri undankeppni kepptu svo síðastliðið laugardagskvöld innbyrðis um að komast áfram í úrslit í „Andra chansen“ þættinum.

Lögin sem keppa í úrslitum Melodifestivalen í ár eru:

Penentoz – Håll om mig hårt

Lisa Ajax – My Heart Wants Me Dead

David Lindgren – We Are Your Tomorrow

SaRaha – Kizunguzungu

Oscar Zia – Human

Ace Wilder – Don‘t Worry

Robin Bengtsson – Constellation Prize

Molly Sandén – Youniverse

Boris René – Put Your Love on Me

Frans – If I Were Sorry

Wiktoria – Save Me

Samir & Viktor – Bada nakna

Á meðan á símakosningunni stendur munu nokkrar af þekktustu stjörnum úr Melodifestivalen fyrri ára rifja upp gamla takta og flytja syrpu laga úr fyrri keppnum. Þeirra á meðal er Charlotte Pirelli sem er betur þekkt á Íslandi undir nafninu Charlotte Nilsson. Hún er Íslendingum af góðu kunn eftir að hafa unnið Eurovision í kapphlaupi við Selmu árið 1999. Charlotte mun flytja lagið Hero sem var sigurlag Melodifestivalen 2008. Sara Dawn Finer sem var kynnir á Eurovision í Malmö 2013 í hlutverki Lyndu Woodruff mun einnig taka þátt í atriðinu og mun flytja lagið Live Forever sem lenti í 4. sæti í Melodifestivalen 2007. Meðal annarra sem koma fram eru After Dark, þekktasta dragdrottning Svíja, Linus Svenning, Magnus Carlsson og fleiri.

Stigagjöfin í Melodifestivalen verður svipuð og stigagjöfin í Söngvakeppninni hér heima. Stærsti munurinn er sá að lögin munu fá greidd atkvæði frá alþjóðlegum dómnefndum. Í ár eru dómnefndir frá Ástralíu, Eistlandi, Hollandi, Hvíta-Rússlandi, Frakklandi, Noregi, Bosníu og Herzegóvínu, Ísrael, Slóveníu, Kýpur og Ítalíu. Hver dómnefnd gefur 7 lögum stig (1-2-4-6-8-10-12 stig). Samtals hafa dómnefndirnar yfir að ráða 473 stigum. Símakosningunni lýkur ekki fyrr en fimm mínútum eftir að dómnefndirnar hafa tilkynnt sín stig. Símakosningin vegur 50% og hafa kjósendur 473 stig í pottinum. Hvert lag fær stig í hlutfalli við greidd atkvæði. Hljóti lag 10% kosningu í símakosningu fær það 47 stig. Með þessu fyrirkomulagi helst spennan allt til enda.

frans

Frans Jeppssen-Wall. Mynd SVT Melodifestivalen.

 Veðbankarnir eru auðvitað löngu farnir að spá fyrir um hver muni vinna Melodifestivalen. Hinn 18 ára gamli hjartaknúsari, Frans Jeppssen-Wall, þykir sigurstranglegastur af veðbönkunum. Á eftir honum eru Molly Sandén og Ace Vilder. Eins og við Íslendingar þekkjum vel þá er oft lítið mark takandi á spám veðbankanna svo það ber að taka þessum upplýsingum með fyrirvara. Sama hvaða lag vinnur annað kvöld er óhætt að lofa góðri skemmtun frá Stokkhólmi.