Við fengum ægilega skemmtilega samantekt frá Ísaki Pálmasyni, FÁSES meðlim, um Melodifestivalen. Njótið vel!
Úrslit Söngvakeppni sænska sjónvarpsins, Melodifestivalen, fara fram annað kvöld í Friends Arena í Stokkhólmi. RÚV mun sýna beint frá keppninni og hefst útsendingin klukkan 19:30. Keppnin þykir ein sú glæsilegasta í Eurovision heiminum og gefur Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva ekkert eftir. Keppnin hefur verið haldin næstum árlega frá því að Svíjar tóku fyrst þátt í Eurovision árið 1959. Sigurvegari keppninnar verður fulltrúi Svíþjóðar í Eurovision sem verður haldin í Stokkhólmi 14. maí.
Haldnir voru fjórar undankeppnir þar sem tvö lög komust beint í úrslit. Lögin sem lentu í þriðja og fjórða sæti í hverri undankeppni kepptu svo síðastliðið laugardagskvöld innbyrðis um að komast áfram í úrslit í „Andra chansen“ þættinum.
Lögin sem keppa í úrslitum Melodifestivalen í ár eru:
Penentoz – Håll om mig hårt
Lisa Ajax – My Heart Wants Me Dead
David Lindgren – We Are Your Tomorrow
SaRaha – Kizunguzungu
Oscar Zia – Human
Ace Wilder – Don‘t Worry
Robin Bengtsson – Constellation Prize
Molly Sandén – Youniverse
Boris René – Put Your Love on Me
Frans – If I Were Sorry
Wiktoria – Save Me
Samir & Viktor – Bada nakna
Á meðan á símakosningunni stendur munu nokkrar af þekktustu stjörnum úr Melodifestivalen fyrri ára rifja upp gamla takta og flytja syrpu laga úr fyrri keppnum. Þeirra á meðal er Charlotte Pirelli sem er betur þekkt á Íslandi undir nafninu Charlotte Nilsson. Hún er Íslendingum af góðu kunn eftir að hafa unnið Eurovision í kapphlaupi við Selmu árið 1999. Charlotte mun flytja lagið Hero sem var sigurlag Melodifestivalen 2008. Sara Dawn Finer sem var kynnir á Eurovision í Malmö 2013 í hlutverki Lyndu Woodruff mun einnig taka þátt í atriðinu og mun flytja lagið Live Forever sem lenti í 4. sæti í Melodifestivalen 2007. Meðal annarra sem koma fram eru After Dark, þekktasta dragdrottning Svíja, Linus Svenning, Magnus Carlsson og fleiri.
Stigagjöfin í Melodifestivalen verður svipuð og stigagjöfin í Söngvakeppninni hér heima. Stærsti munurinn er sá að lögin munu fá greidd atkvæði frá alþjóðlegum dómnefndum. Í ár eru dómnefndir frá Ástralíu, Eistlandi, Hollandi, Hvíta-Rússlandi, Frakklandi, Noregi, Bosníu og Herzegóvínu, Ísrael, Slóveníu, Kýpur og Ítalíu. Hver dómnefnd gefur 7 lögum stig (1-2-4-6-8-10-12 stig). Samtals hafa dómnefndirnar yfir að ráða 473 stigum. Símakosningunni lýkur ekki fyrr en fimm mínútum eftir að dómnefndirnar hafa tilkynnt sín stig. Símakosningin vegur 50% og hafa kjósendur 473 stig í pottinum. Hvert lag fær stig í hlutfalli við greidd atkvæði. Hljóti lag 10% kosningu í símakosningu fær það 47 stig. Með þessu fyrirkomulagi helst spennan allt til enda.
Veðbankarnir eru auðvitað löngu farnir að spá fyrir um hver muni vinna Melodifestivalen. Hinn 18 ára gamli hjartaknúsari, Frans Jeppssen-Wall, þykir sigurstranglegastur af veðbönkunum. Á eftir honum eru Molly Sandén og Ace Vilder. Eins og við Íslendingar þekkjum vel þá er oft lítið mark takandi á spám veðbankanna svo það ber að taka þessum upplýsingum með fyrirvara. Sama hvaða lag vinnur annað kvöld er óhætt að lofa góðri skemmtun frá Stokkhólmi.