Höndlar hann að vera Eurovision-stjarna í tvær vikur? FÁSES hitti Pálma Gunnars

Pálmi Gunnarsson (Mynd: RÚV)

Pálmi Gunnarsson (Mynd: RÚV)

FÁSES-liðar vilja að sjálfsögu velja þann keppanda sem höndlar það best að vera Eurovision stjarna í Stokkhólmi í tvær vikur og þann sem verður landi og þjóð til sóma. Munu keppendur Söngvakeppninnar höndla lélega tæknimenn, trítilóða Eurovision aðdáendur og hina fáranlega ströngu tímadagskrá Jónatans Garðarssonar? Til að ganga úr skugga um það fór FÁSES.is á stúfana og lagði hraðaspurningapróf fyrir keppendur.

Æi já við vitum að þetta er kjánalegt – að ætla spyrja sjálfan Sakis Rouvas Íslands, Pálma Gunnarsson, hvort hann höndli að vera Eurovision stjarna í tvær vikur? Við biðjum ykkur að fyrirgefa okkur fyrirfram. FÁSES heldur nefnilega jafnræðið í heiðri – allir keppendur skulu fá sömu meðferð! Pálmi Gunnarsson syngur lag Þóris Úlfarssonar (sem var í Eurobandinu framan af), Ég leiði þig heim, í Söngvakeppninni næstkomandi laugardagskvöld. Pálmi er að sjálfsögðu Eurovision aðdáendum velkunnugur sem hluti af ICY tríóinu sem keppti fyrir Íslands hönd í Bergen 1986 með sjálfan Gleðibankann. Það var ákaflega skemmtilegt að hitta Pálma og Þóri og það voru ýmsar Eurovision sögur sem fengu að flakka. Pálmi hefur sungið fjögur lög í Söngvakeppni Sjónvarpsins og uppáhaldslagið hans er Línudans, að sjálfsögðu fyrir utan Gleðibankann. Pálmi er frekar undrandi yfir hve Eurovision aðdáendasenan hefur breyst – var til dæmis frekar hlessa yfir því að hafa verið í viðtali við tyrkneskt tímarit í gær þar sem Tyrkir eru ekki einu sinni að fara taka þátt í Eurovision í ár!