Niðurstöður aðalfundar FÁSES 2015

Metmæting var á síðasta aðalfund FÁSES sem haldinn var fimmtudaginn 29. október sl. Eins og við höfum margoft haldið fram eru þessir aðalfundir þeir bestu sinnar tegundir og ánægjulegt er að æ fleiri félagsmenn láti sjá sig.

Eyrún, formaður FÁSES, kynnti skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár og kenndi þar ýmissa grasa, hefðbundinna sem nýrra. Við erum eflaust flest sammála um það að Eurovision-kareókíið sló í gegn og verður haldið aftur við fyrsta tækifæri! Auður, gjaldkeri FÁSES, kynnti ársreikning félagsins sem stendur vel fyrir komandi fimm ára afmælisár FÁSES og 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision.

Lagabreytingar

Hinn æsispennandi dagskrárliður lagabreytinga var tekinn föstum tökum í ár. Niðurstaðan var sú að breyta samþykktum FÁSES þannig að félagsmenn þurfa að borga félagsgjöld fyrir 15. október ár hvert fyrir komandi félagsár til að geta nýtt forkaupsrétt á miðum (var áður 15. nóvember). Er þetta gert til að stjórn FÁSES eigi auðveldara með að úthluta einungis miðakóðum Eurovision-aðdáendapakka til þeirra félagsmanna sem sannarlega hafa greitt félagsgjöld.

Kosningar

Eyrún Ellý Valsdóttir og Hildur Tryggvadóttir Flóvenz voru sjálfkjörnar í embætti formanns og ritara FÁSES þar sem engin önnur framboð komu fram. Við njótum því starfskrafta þeirra í tvö ár í viðbót – heppin við!

Fimm FÁSES meðlimir bitust um tvö pláss í varastjórn FÁSES. Þetta voru þau Haukur Johnson, Heiður Dögg Sigmarsdóttir, Katrín Alfa Snorradóttir, Kristján J. Pétursson og Steinunn Björk Bragadóttir. Eftir æsispennandi og (á köflum) tæpar kosningar stóð Steinunn uppi sem 1. varamaður í stjórn og Haukur sem 2. varamaður. Þeim sem ekki hlutu kosningu að sinni var boðið sæti í verkefnanefnd FÁSES. Stjórn FÁSES er virkilega ánægð með að félagsmenn eru farnir að þora að bjóða sig fram enda bítur hún alls ekki (og bara laust, ef svo ber undir, í viðeigandi aðstæðum…). Með 511 félagsmenn skráða er ljóst að fleiri hendur vinna létt verk og þiggur stjórnin alla hjálp sem hún getur fengið.

Arndís Björnsdóttir og Birna Björg Guðmundsdóttir voru kjörnir félagslegir skoðunarmenn FÁSES fyrir næsta ár.

Undir liðnum önnur mál voru ýmis atriði rædd; sérstökum þökkum var komið á framfæri til stjórnar FÁSES fyrir starfið á nýliðnu ári, þátttaka FÁSES í OGAE Second Chance tekin til umræðu og Eurovision diskakaupum í Nexus velt upp. Einhverjir félagsmenn höfðu komist á snoðir um söngvakeppnisgrúsk Eyrúnar og Hildar og var samþykktur styrkur til þeirra til ritun bókar um Söngvakeppni Sjónvarpsins.

Í lok kvölds var heimasmíðað Eurovision bingó spilað og eftir dillinu og samsöngnum að dæma féll það vel í kramið.