Þá skríður FÁSES úr PED-hýðinu

fasesLogo_png_tinyÞá er víst kominn sá tími ársins sem FÁSES skríður úr PED-hýðinu, gyrðir í brók og dembir sér í komandi Eurovision vertíð – nú í Stokkhólmi! Við vonum svo sannarlega að þið hafið átt yndislegt sumar eftir stórgóða keppni í Vín í maí. Hinn árlegi aðalfundur félagsins verður haldinn í október (og nú með óvæntu twisti!) og síðan blásum við til Eurovision-barsvars með Reyni Þór í nóvember – viðburður sem við vitum að margir FÁSES-félaga hafa beðið eftir!

Nú hafa hins vegar borist fréttir um að miðasalan á Eurovision 2016 í Stokkhólmi verði snemma í ár, líkt og var í fyrra. Aðdáendaklúbbarnir fá sérstaka miðasölu fyrir sig og yfirleitt miðast hún við að vera ívið á undan almennu miðasölunni. FÁSES hefur sent póst til félagsmanna til að kanna áhuga þeirra til miðakaupa. Þessi ósk um miða er ekki bindandi, enn sem komið er. Senda þarf tölvupóst á ogae.iceland@gmail.com með efnislínunni „Ósk um Eurovision-miða 2016“ fyrir  29. september nk. til að gefa til kynna ósk um miðakaup. Við munum síðar biðja þá sem áhuga sýna um lokastaðfestingu.

En hvernig virkar þetta miðadæmi?

  • FÁSES hefur milligöngu um sölu svokallaðra aðdáendapakka til félagsmanna sinna. Aðdáendamiðapakkinn samanstendur af miðum á allar þrjár keppnirnar sem og miða á dómararennsli (alls 6 miðar fyrir hvern félaga). Einungis verður hægt að kaupa aðdáendapakkann í heild sinni þ.e. alla 6 miðana.
  • FÁSES hefur ekki milligöngu um sölu stakra miða á Eurovision.
  • Enn sem komið er vitum við ekki hver kostnaðurinn verður við miðapakkann en undanfarin ár hefur hann verið u.þ.b. 55 þús kr.
  • Við vitum enn ekki hvort boðið verður upp á sæti eða stæði eða hvort tveggja.
  • FÁSES getur ekki ábyrgst að allir þeir sem óska eftir miðum fái þá í úthlutuninni þar sem við stjórnum ekki miðadreifingunni og fáum aðeins ákveðinn fjölda frá aðalskrifstofu OGAE. Aðdáendapökkunum er úthlutað á grundvelli félagsnúmera (því fyrr sem þú skráðir þig í klúbbinn því betri líkur á að fá úthlutuðum aðdáendapakka).
  • Til að eiga möguleika á miða verða nýir félagar að skrá sig formlega fyrir 1. október nk. Upplýsingar um hvernig fólk skráir sig í klúbbinn er að finna hér. Þeir sem skrá sig eftir 1. október eiga því ekki kost á að kaupa miða fyrir keppnina í Stokkhólmi 2016. Nýir og eldri félagar verða að greiða félagsgjöldin (2.000 kr.) fyrir 15. nóvember nk. til að eiga möguleika á miðum.
  • Hægt er að greiða félagsgjöldin með því að millifæra á reikning FÁSES: Reikn.nr. 0331-26-006600 og kt. 490911-0140.
  • Ef aðdáendamiðapakki hentar ekki æstum Eurovision-aðdáendum eru upplýsingar um almennu miðasöluna á aðalkeppni Eurovision að finna á heimasíðu keppninnar.

Vegna fjölmargra fyrirspurna vill stjórn FÁSES einnig koma því á framfæri að félagið hefur ekki milligöngu um flug eða gistingu á Eurovision.