Partývaktin vol. I: Nordic Night Party

Partývaktin er mætt á Vínarvaktina svo lesendur FÁSES.is geta tekið gleði sína. Fyrsta partý vertíðarinnar var hið alræmda norræna partý: Nordic Night Party. Reyndar villtist partývaktin fyrst á annan næturklúbb þar sem San Marínó var með sitt partý. Sem betur fer rötuðum við til baka því San Marínó ungliðarnir sungu víst mörg, mörg, mörg lög (og það voru ekki Eurovision-lög, enough said!).

nordic night mans

Mynd: FJÓ

Partývaktin var sérstaklega spennt yfir því að Eistarnir voru heiðursgestir (meira um það síðar!). Mörland og Debrah Scarlett stigu fyrst á stokk og tóku Fairytale með sínu nefi til heiðurs Alexanders Rybak og síðan rúlluðu þau upp skrímslinu. Måns tryllti síðan lýðinn í tíunda veldi með því að taka Melodifestivalsmellinn sinn frá 2007, Cara Mia. Hann renndi síðan beint yfir hetjurnar sínar og áhorfendunum fannst það nú ekki leiðinlegt. Einkar skemmtilegt var að fylgjast með dönsku strákunum í Anti Social Media sem sungu allan tímann með Måns sínum.

Nordic night maría

Mynd: FJÓ.

María&Co voru næst á svið – vá vá vá – stuðið sem íslenski hópurinn var í, dásamlegt! María tók Euphoria en síðan var rennt í Four Five Seconds þar sem Friðrik Dór naut sín vel. Mjög gaman var að fylgjast með áhorfendaskaranum þegar lög sem ekki eru upprunin í Eurovision eru sungin – það syngja nefnilega svo fáir með, ef nokkur! Loks var skellt í Unbroken og alveg á tæru að Ásgeir Orri, sem spilaði undir, María, Friðrik, Íris og Alma skemmtu sér hið besta.

Nordic night anti social media

Mynd: FJÓ

Anti Social Media tók síðan “The Way You Are” og síðan eitt lag úr eigin smiðju, ekki mjög eftirtektarvert. Eistarnir luku síðan sjóvinu með sínu Eurovision lagi og Eilina Born tók síðan alveg splunkunýtt númer sem var að koma út. Partývaktin lét sig hverfa af svæðinu þegar austurrísk cover-laga hljómsveit var að myrða Rise Like a Phoenix.

Partývaktin þakkar Flosa kærlega fyrir að taka saman þetta frábæra video sem gefur ykkur ágæta innsýn í Nordic Night Partý.