Júró-Gróa: Hvað gerðist hjá Maríu á fyrstu æfingu?

Júró-GróaFÁSES-liðar eru mættir til Vínar og eru byrjaðir að snapa upp slúðrið! Að sögn kunnugra lenti María okkar í því að gleyma borða í allan gærdag og var svo óheppin að lenda í blóðsykursfalli eftir æfinguna í gær. Þetta gerði það að verkum að blaðamannaviðtölum var aflýst eftir æfinguna. En örvæntið ekki kæru aðdáendur, María er víst búin að vera dugleg að borða ristað brauð með Nutella í allan morgun svo hún mætir hress á æfingu á morgun. Júró-Gróa vonar að María jafni sig til fulls og fái nú smá dekur frá samferðafólki sínu – hún á það skilið!

Júró-Gróa ætlar að mæta í Nordic Night partý í kvöld. Aftur, að sögn kunnugra var norræna partýið ekkert spes í fyrra svo Júró-Gróa freistar þess að hressa aðeins upp á liðið og sprengja glimmerbombur í óeiginlegum skilningi þess orðs. Tchuss! (það þýðir sko bless á þýsku).