En hvað með kynninn?

Upp er runninn fagur Eurovision dagur. Spennan magnast, fiðrildin í maganum æsast og í þessum skrifuðu orðum eru Pollaönkarar tilbúnir í fjölskyldusýningu úrslitakeppninnar sem jafnframt er síðasta stóra æfingin fyrir úrslitin í kvöld. Strákarnir eru tilbúnir, áhorfendur eru tilbúnir en hvað með þann sem sér um að kynna framlögin í kvöld?  Hluti af því að gera stóru stundina sem skemmtilegasta fyrir aðdáendur heima í stofu er í höndum Felix Bergssonar sem í ár, líkt og síðustu misseri, hefur kynnt framlög þátttakenda áður en þeir stíga á svið. Kynnirinn fylgir íslenska hópnum hvert fótmál og aflar sér upplýsinga um þátttakendur á meðan á dvöl hans hér úti stendur. Hlutverk hans er mikilvægt enda er hann sá eini sem nær að koma beinum skilaboðum um keppendurna og framlög þeirra til kjósenda. Það hefur því verið talið afar mikilvægt hvaða skilaboðum kynnar hvers lands koma áfram! Slíkt getur hreinlega skipt sköpum og bæði haft jákvæð, og í sumum tilvikum neikvæð, áhrif. Fáses.is settist niður með Felix Bergssyni í blaðamannahöllinni í Kaupmannahöfn seinni partinn í gær. Þá hafði hann nýlokið við að fylgjast með æfingu dagsins þar sem hann lagði lokahönd á kynningu sína fyrir kvöldið. Við spurðum hann nokkurra spurninga um síðustu daga og úrslitin sem fram undan eru.

10339551_10152432783498784_1328504146766693880_nJæja Felix, hvernig líður þér í dag? Hvernig hafa síðustu dagar verið eftir að Pollapönkararnir komust upp úr fyrri undankeppninni – og bjóstu við því?

„Ég er spenntur en líka dálítið þreyttur og stressaður en mér líður mjög vel og ég er óskaplega stoltur af framgöngu Íslands í þessari keppni.“

Aðspurður um það hvort hann hefði búist við því að Ísland kæmist upp úr undariðlinu sagði Felix:

„Já ég bjóst allt eins við því að þeir kæmust upp úr riðlinnum og eins og venjulega treysti ég Helga [Jóhannessyni] og Jónatani [Garðarssyni] [á RÚV] og þeim sem vinna atriðið með listamönnunum og það er ekki síst fyrir þeirra vinnu m.a. við útfærslu flutningsins sem okkur hefur gengið svona vel undanfarin sjö ár.“

Seinni undankeppnin var á fimmtudaginn. Fáses.is var að sjálfsögðu í salnum og stemningin þar var ólýsanleg! Salurinn líflegri en í fyrri undankeppninni og þakið ætlaði nánast að rifna af höllinni eftir flutning Conchitu Wurst. Skynjar þú viðbrögð salarins eða ertu bara lokaður af í commentator box-inu svokallaða?

commentators box (PieteR Van den Berghe (EBU))„Ég skynja þau að einhverju leyti en það er rétt að við kynnarnir erum ansi lokuð af, maður lokar sig inni og setur á sig heyrnartólin og horfir á sjónvarpið. En því er ekki að neita að þegar stemningin er sem mest eins og þegar Austurríki var á sviði í seinni undankeppninni þá hristast herbergin okkar – sveiflast til alveg.“

Hvað fannst þér eftirtektarverðast við seinnin undankeppnina í gær?

„Gríðarlegu viðbrögðin sem Conchita Wurst frá Austurríki fékk og ákveðni hennar um að gefa fordómum við slíku rugli langt nef. Þar af leiðandi eru Pollapönkararnir eins og skapaðir fyrir þessa keppni“ en það er ljóst að fleiri og fleiri lönd eru að koma á framfæri boðskap í anda Pollapönkara. Pollapönkarar halda sínum frábæra boðskapi um enga fordóma á lofti, Austurríki boðar ást og hamingju fyrir alla auk þess sem Conchita stendur fyrir því að allir fái að vera eins og þeir kjósi og loks hefur Grikkland haldið því fram að lagið þeirra sé óður til ungs fólks í Grikklandi um það að hægt sé að yfirstíga allt mótlæti og rífa sig upp að nýju.

Að lokum, hvernig undirbýrðu þig fyrir stóru stundina?

„Ég byrja á því að reyna að skrifa handrit og þá skrifa ég hvert einasta orð sem ég segi. Ég horfi á tvær æfingar af þremur og tímaset textann minn við þær. Svo á ég langa fundi með Peter Fenner þar sem við leitum að punktum og húmor sem okkur langar að skjóta inn í kynninguna.“

Felix þurfti að hverfa á braut enda er hann maður margra kosta og vinnusamur mjög. Ekki nóg með það að hann sé á lokametrunum að ljúka við handrit sitt fyrir kvöldið þá ákvað hann einnig að stjórna útvarpsþætti sínum Bergson&Blöndal á Rás2 í dag. Hann verður því live í útvarpinu þangað til korter í keppni og að því loknu tekur einn stærsti sjónvarpsviðburður Evrópu!

Uppfært laugardag kl 12:05.  Fáses.is Felix aftur í blaðamannahöllinni rétt í þessu. Þar fengum við þær upplýsingar að skipuleggjendur keppninnar eru enn að gera mjög stórar breytingar á útsendingunni m.a. með því að taka út innslög sem tekin voru upp fyrir keppnina og átti að sýna milli atriða eða í hléi. Þá sagði Felix okkur að Danirnir væru að vinna og ákveða lokaútfærslu á útsendingunni alveg fram á síðustu mínútu. Kynnarnir fengu bæði sendar upplýsingar um breytingar í gærkvöldi og einnig í morgun. Það er því að mörgu að huga þegar kemur að handritaskrifum fyrir kynningar kvöldsins. Gangi þér vel Felix og góða skemmtun í kvöld við vitum að þú verður landi og þjóð til sóma með skemmtilegum og fróðlegum kynningum!