FÁSES dagur! Zumba, upphitun og fyrstu undanúrslitin

Flosi mætti í viðeigandi bol þar sem stóð á aftan á: "Best Eurovision Zumba Teacher in the World"

Flosi mætti í viðeigandi bol þar sem stóð á aftan á: “Best Eurovision Zumba Teacher in the World”

Þá rann loksins upp dagurinn sem við höfðum öll beðið eftir svo lengi! FÁSES.is dreif sig á fætur fyrir allar aldir til að taka þátt í Eurovision-Zumba með Flosa, FÁSES-meðlimi, í Eurovillage sem er hér á Gammeltorv við Strikið í Kaupmannahöfn. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Flosi Zumba kennari í Reebook Fitness og hefur annað slagið, um það leyti sem Söngvakeppni sjónvarpsins og Eurovision er haldið, verið með sérstaka Eurovision Zumba tíma. Ágætlega var mætt á viðburðinn en það var sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með gangandi vegfarendum slást í hópinn eftir því sem leið á enda er Zumba hreyfing sem allir geta tekið þátt í.

Hér má sjá skemmtilegt myndband frá dansinum: Eurovision Zumba

Eftir hressan Zumba tíma gengur allir skærbrosandi á braut enda ekki annað hægt þegar menn eru bæði búnir að endurnæra sig líkamlega og andlega með því að dansa frá sér allt vit og syngja með helstu Eurovision slögurunum. Var því næst haldið heim til að sturta af sér og dressa sig í viðeigandi kvöldklæðnað.

FÁSES bauð til fyrirpartýs á Euro Fan Café frá kl. 16-18. Þar gæddu menn sér á viðeigandi veitingum, veifuðu íslenska fánanum, hlustuðu á íslensku Eurovision lögin og undirbjuggu sig fyrir slaginn um kvöldið.

Eftir mikla gleði og töluverðan dans á Euro Fan Café þorðu menn ekki öðru en drífa sig út í höll snemma í ljósi alls samgöngudramans sem er í gangi hjá Dönum í ár. Það borgaði sig og gátu menn komið sér tímanlega fyrir í höllinni. Þess má geta að þeir FÁSES-meðlimir sem fengu miða í sæti plöntuðu sér beint fyrir framan sviðið og þeir sem sátu fengu ofsalega góð sæti þar sem sást beint á sviðið. Það þarf síðan ekkert að fjölyrða um þann trylling sem heltók Íslendinga þegar það var tilkynnt að Ísland fengi síðasta lausa plássið á laugardaginn.

Íslendingastúkan

Íslendingastúkan

FÁSES.is dreif sig á blaðamannafund með öllum tíu framlögunum sem komust áfram á fyrsta undanúrslitakvöldinu. Þar endurtóku pollarnir Heiðar og Halli skilaboð lagsins og lögðu áherslu á þá trú sína að margt smátt gerir eitt stórt í baráttunni gegn fordómum. Þegar Halli var spurður að því hvað hafði gerst þegar míkrófónninn hans datt á sviðinu sagði hann að hann hefði óvart rekið gítarinn í og því fór sem fór. Heiðar var víst feginn að þetta óhapp varð því þá hefðu þeir geta kennt Halla um hefðu Pollapönk ekki komist áfram! Halli og Heiðar gáfu líka undir fótinn með nýtt Pollapönks-outfit, eitthvað sem á að vera úr miklu glimmeri. FÁSES.is bíður spennt eftir að sjá þann búning.