Í stormi, Golddigger og Hér með þér í úrslit Söngvakeppninnar

Annað undankvöld Söngvakeppninnar 2018 var haldið 17. febrúar sl. í Háskólabíó. Eins og hefðin er hittust FÁSES-liðar á Stúdentakjallaranum fyrir keppni og í þetta sinn hafði gjaldkeri félagsins hreinsað upp lager heildsala landsins af íslenskum fánum. Fánana þurfti að setja saman og því ekki annað í stöðunni en að virkja mannskapinn. Eftir næringu og hæfilega skammt af Júróslúðri var skundað í Háskólabíó.

Í annarri undankeppninni stigu á stokk Aron Hannes, Rakel Pálsdóttir, SLAY, Þórir Geir og Gyða Margrét, Dagur Sigurðsson og Áttan. Ekki gengu tæknimálin snuðrulaust fyrir sig þetta kvöldið því engar bakraddir heyrðust í laginu Gold digger. Aron Hannes stóð sig þó með stakri prýði og flutti lagið einn og óstuddur. Ákveðið var að endurflytja lagið vegna þessara mistaka eftir að öll lögin höfðu verið flutt. Á meðan á símakosningu stóð stigu Magni Ásgeirsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir á stokk og flutti lagið Þar til storminn hefur lægt en það er íslensk útgáfa hollenska Eurovisionframlagsins frá 2014, Calm after the Storm.

FÁSES-liðinn Ástríður Margrét Eymundsdóttir var á myndavélinni á laugardagskvöldið og tók þessar frábæru myndir.

Við hlökkum til að sjá ykkur öll á úrslitum Söngvakeppninnar laugardaginn 3. mars nk. Endilega kíkið á facebooksíðu FÁSES til að fylgjast með öllum viðburðunum sem verða haldnir af því tilefni þá helgina.