Unser Lied für Lissabon


Þá er komið að því – í kvöld klukkan 19:15 að íslenskum tíma (20:15 CET) munu Þjóðverjar velja sitt framlag í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Lagið verður valið í þættinum Unser Lied für Lissabon, sem er haldið í Berlín af norðurþýska sjónvarpinu, Norddeutscher Rundfunk, NDR. Sýnt verður beint frá keppninni á stöð ARD, sem margir Íslendingar hafa aðgang að í gegnum myndlykla sína og á netinu á heimasíðu keppninnar.

Þýskaland hefur tekið þátt 62 sinnum í Eurovision, oftar en nokkur önnur þjóð. Eina skiptið sem Þjóðverjar hafa ekki verið með í úrslitum var árið 1996 þegar framlagið þeirra komst ekki áfram úr undankeppninni. Þeirri undankeppni var ekki sjónvarpað og hljóðupptökur af lögunum notaðar til að fækka lögunum úr 29 í 23. Í dag eru Þjóðverjar ein af fimm þjóðum sem fara sjálfkrafa beint í úrslit, ásamt Bretum, Frökkum, Spánverjum og Ítölum. Þjóðverjar hafa tvisvar unnið keppnina. Árið 1982 vann hin friðsama Nicole með laginu Ein Bißchen Frieden og árið 2010 vann Lena Meyer-Landrut með laginu Satellite.

Þjóðverjar hafa notað ýmsar aðferðir til að velja framlag sitt í gegnum tíðina. Í fyrra stóð valið til að mynda á milli fimm flytjenda og tveggja laga. Í ár auglýstu Þjóðverjar eftir söngvurum eða hópum til að taka þátt í keppninni. 100 manna dómnefnd skipuð fólki frá gervöllu Þýskalandi og 20 manna alþjóðleg dómnefnd fengu það vandasama hlutverk að velja atriði úr hópi 4000 atriða sem sóttust eftir því að fá að taka þátt í keppninni. Fyrst voru valin 17 atriði sem fengu að taka þátt í vinnustofu á vegum NDR, þar sem farið var í gegnum radd- og dansþjálfun. Eftir vinnustofuna var hópurinn minnkaður í sex atriði, sem munu taka þátt í keppninni í kvöld. Eftir að atriðin sex höfðu verið valin unnu þau með lagahöfundum og sömdu lögin sem þau flytja í þættinum í kvöld.

Eftir að lögin hafa verið flutt í kvöld getur almenningur kosið sitt uppáhald í símakosningu sem hefur þriðjungs atkvæðavægi. Hin áðurnefnda 100 manna dómnefnd ræður öðrum þriðjungi og þriðjungur er í höndum 20 manna alþjóðlegrar dómnefndar. Íslendingar eiga tvo fulltrúa í alþjóðlegu dómnefndinni, þau Helgu Möller og Einar Bárðarson (mælum með að fylgjast með honum á Snapchat @einar.bardar). Með þeim sitja líka Eurovision-stjörnurnar Ruth Lorenzo frá Spáni, Margaret Berger frá Noregi og hin slóvenska Tinkara Kovač, ásamt fleirum.

Listamennirnir sex sem keppa um að vera fulltrúi Þýskalands í Lissabon eru Xavier Darcy, Ivy Quainoo, Ryk, Michael Schulte, Natia Todua, og voXXclub.

Xavier Darcy er 22 ára gamall Bæverji, ættaður frá Bretlandi og Frakklandi. Xavier flytur lagið Jonah. Xavier gaf út fyrstu plötuna sína á þessu ári og sat hún meðal annars á listanum Top 50 á iTunes.

Berlínarmærin Ivy Quainoo er 25 ára. Hún flytur lagið House On Fire. Ivy vann The Voice of Germany árið 2012 og er hefur notið mikillar velgengni eftir sigurinn. Í dag býr hún í New York þar sem hún leggur stund á nám í leiklist.

Rick Jurthe, eða Ryk eins og hann kallar sig, er 28 ára gamall. Hann flytur lagið You and I. Ryk er menntaður í popptónlist og hefur frá því hann útskrifaðist unnið sem höfundur, söngvari og framleiðandi fyrir mörg mismunandi verkefni, allt frá bíómyndum til skemmtiþátta. Fram til 2015 var hann þekktur undir listamannsnafninu FOXOS.

Youtube stjarnan Michael Schulte tekur þátt með laginu You Let Me Walk Alone. Michael er 27 ára gamall og ólst upp í Dollerup á landamærum Þýskalands og Danmerkur. Hann hefur meira en 50 milljón áhorf á Youtube og er með 200 þúsund fylgjendur hvaðanæva að úr heiminum.

Natia Todua er 21 árs gömul, frá Georgíu. Hún flutti til Þýskalands og gerðist au-pair, en hafði alltaf dreymt um að lifa af tónlist. Hún tók þátt í síðustu þáttaröð af The Voice of Germany og gerði sér lítið fyrir og vann keppnina. Hún flytur lagið My Own Way.

Síðastir í upptalningunni eru hinir stórskemmtilegu strákar í voXXclub. Strákabandið skipa Florian Claus, Korbinian Arendt, Christian Schild, Michael Hartinger og Stefan Raaflaub (ekki Stefan Raab, las það líka af óskhyggju). Bandið virðist vera sænska útgáfan af Samir & Viktor sem Eurovision aðdáendur þekkja fyrir þátttöku í sænsku Melodifestivalen. Lagið I mog Di so sem voXXclub má lýsa sem þjóðlagi í nútímastíl.

Á meðan á símakosningunni stendur mun hinn 18 ára gamli Mike Singer flytja lagið sitt Deja Vu. Hann skaust upp á stjörnuhimininn í Þýskalandi þegar hann tók þátt í þýsku útgáfunni af The Voice Kids, þar sem hann var undir handleiðslu Eurovisionstjörnunnar Lenu Meyer-Landrut.

 

Það verður spennandi að sjá hver vinnur keppnina í kvöld og fetar í fótspor Levinu, sem var fulltrúi Þýskalands í Kænugarði í fyrra.