Fleiri lög, fleiri flytjendur.


Við í FÁSES erum búin að vera á haus við að fylgjast með forkeppnum víðsvegar um Evrópu og dekka það sem hinar þjóðirnar munu bjóða upp á í Lissabon. En það er samt slatti eftir. Mikið hefur verið um innbyrðis val í ár líka, sem og forkeppnir sem við náðum ekki að fylgjast með. Eigi skal þó örvænta, því hér er öllum gert jafn hátt undir höfði og engin er skilin útundan. Nú skulum við kíkja á fleiri framlög.

Albanía – Mall – Eugent Bushpepa

Albanir eru alltaf fyrstir til að velja sitt framlag til Eurovision. Á meðan við Íslendingar jöpluðum á skötu, hlustuðum á jólakveðjur, suðum hangiket og fengum kast af því að við fundum ekki toppinn á jólatréð, fór Festival in Kenges fram í Tirana þann 23. desember sl. FiK, eins og flestir skammstafa keppnina, er stærsti tónlistarviðburðurinn í Albaníu, og hefur verið haldin í bráðum 60 ár. Svo hún er öööööörlítið yngri en Eurovision og Sanremo. Albanir hafa undanfarin ár verið afskaplega duglegir við að bjóða upp á epískar ballöður með kraftmiklum dívum sem gera lítið annað en að vera í raddfimleikum á sviðinu, og hefur ekkert gengið neitt óskaplega vel. En nú kveður aldeilis við annan tón, því búið er að slaufa slaufunum og á sviðið í Lissabon mætir hinn 33 ára gamli rokksöngvari Eugent Bushpepa (já, hann heitir þetta í alvöru) með lagið “Mall” sem þýðir “þrá”, en ekki “verslunarmiðstöð”, bara svo það sé á hreinu. Eugent er sko engin nýgræðingur þegar kemur að tónlist. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2006 og er einn af vinsælustu söngvurum Albaníu í dag, og hefur m.a. hitað upp fyrir Deep Purple, Overkill og unnið með Ron “Barefoot” Thal, gítarleikara Guns n´Roses. Hans sérgrein er rokkið, og “Mall” er svo sannarlega þvottekta rokkballaða, sungin á albönsku og mjög grípandi. Svolítið einsog ef við myndum (LOKSINS) senda Magna út með eitthvað sóðalega flott! Hressileg tilbreyting hjá Albönum í ár og bara fjári gott lag.

 

Belgía – A matter of time – Sennek

Einu sinni voru Belgar hálfgert uppfyllingarefni í keppninni og voru bara ekkert að rugga bátnum. Þrátt fyrir að hafa verið með frá upphafi og unnið einu sinni með stelpukrakkanum Söndru Kim, voru Belgar svolítið týndir. Þeir voru oft mjög neðarlega og eftir breytingu keppninnar árið 2004, sátu þeir nánast alltaf eftir í undankeppninni með örfáum undantekningum eins og Tom Dice og flestir gleymdu lögunum um leið og þau kláruðu sínar þrjár mínútur. En árið 2015 fundu Belgar gullegg. Loic Nottet keppti fyrir vallónska hluta Belgíu, (landið hefur tvö opinber tungumál, frönsku og flæmsku, og hafa hlutarnir skipst bróðurlega á um að senda fulltrúa í keppnina), og sveif í fjórða sætið í keppninni með hinu ofursvala “Rythm Inside”. Þeir slógu ekki slöku við og komust aftur í aðalkeppnina árið eftir og í tíunda sætið. Í fyrra sendu þeir hina “tilfinningaríku” Blanche og BÚMM, aftur í 4. sætið. Amen. Í ár er það flæmski hlutinn sem sér um hitunina, og hún Sennek, sem heitir réttu nafni Laura Groeseneken, ætlar að freista þess að halda Belgum í aðalkeppninni og inn á topp tíu, með laginu “A matter of time”, lag sem að Portishead hefði vel getað gefið út í den. Mjög svalt, eiginlega rosalega svalt og rétt upp hönd þeir sem héldu að maður myndi aldrei nota orðin “svalt”, “Eurovision” og “Belgía” í sömu setningu! En tímarnir breytast og hér er Sennek.

Malta – Taboo – Christabelle

Ó Malta. Vér litlu eyþjóðirnar verðum að standa betur saman í baráttunni gegn stóru þjóðunum. Sameinuð erum við sterk, ekki satt? Malta hefur verið með síðan 1971, þó að þeir hafi tekið 16 ára hlé milli 1975 og 1991. Maltverjar eru ekki ólíkir Íslendingum að því leitinu að þjóðin ELSKAR Eurovision, og leggur mikið í forkeppnina ár hvert. Þegar Malta snéri aftur í byrjun 10. áratugarins var ennþá tungumálaregla í Eurovision. En Maltverjar voru undir yfirráðum Breta allt fram á miðja 20. öld og enska er annað opinberu tungumálanna á eyjunni og því fengu þeir alltaf að syngja á ensku, sem gaf þeim ákveðið forskot í keppninni….það og meint mútur og svindl. Sel það nú ekki dýrara en ég keypti það. Allavega er Malta órjúfanlegur hluti af keppninni og hafa tvisvar sinnum verið í 2. sæti síðan þeir snéru aftur. En undanfarið hefur ekki gengið neitt æðislega vel hjá þeim. Hinni andstuttu Claudiu Faniello (systur hans Fabrizio) mistókst að koma þeim í aðalkeppnina í fyrra, og það er útlit fyrir að þeirra bíði sömu örlög í ár. Christabelle Borg er 25 ára og hefur, þrátt fyrir ungan aldur, margoft reynt að komast í keppnina fyrir hönd Möltu. Nú tókst henni það loksins með laginu “Taboo”, sem er vissulega dansvænt og hún Christabelle er rosa flott söngkona. En því miður er hún ekki að skora hátt í veðbönkum og meðal aðdáenda, og því lítil von til þess að hún komist áfram. En aldrei að segja aldrei. Hver veit nema að Christabelle rúlli þessu bara upp.

Kýpur – Fuego – Eleni Foureira

Og áfram í eyþjóðunum. Kýpur, ásamt Íslandi og Möltu, hefur verið með lengst án þess að hafa unnið. Kýpverjar hafa hæst komist í 5. sætið, þrátt fyrir að hafa verið með nánast óslitið síðan 1981 og oft hefur manni fundist þeir vanmetnir og falla svolítið í skuggann af stóra bróður Grikklandi. En alltaf berjast þeir og mörg af flottustu lögum í keppninni hafa einmitt komið frá Kýpur. Þeir eru líka óhræddir við að prófa sig áfram með alls kyns tegundir af tónlist, og nú ætla þeir að reyna fyrir sér með sjóðheitan dansslagara í anda Beyoncé og Lady Gaga. Eleni Foureira er 31 árs gömul söngkona, sem er reyndar fædd í Albaníu af albönskum foreldrum, en flutti sem barn að aldri til Grikklands og ólst upp í Aþenu. Hún hefur nokkrum sinnum áður reynt að komast í keppnina fyrir hönd Grikklands, en ekki haft erindi sem erfiði. En vegna þess hvað Kýpur og Grikkland eru ógeðslega góðir vinir og listamenn landanna eru mikið í samstarfi, var hún ekki lengi að hugsa sig um þegar CyBC, kýpverska sjónvarpið, hafði samband við hana og bað hana að vera fulltrúi landsins í Eurovision, og sagði já nánast med det samme. Útkoman var svo “Fuego” sem er ekki aðeins funheitt og kynþokkafullt, heldur hvetur líka til hollari lífshátta og meiri neyslu ávaxta. Þið fattið þegar þið horfið á myndbandið..

Rokkballaða, indípopp, djúp pæling um mannsandann og sjóðheitt dívupopp var það að þessu sinni. Einhverjir mögulegir vinningshafar? Hmm, erfitt að segja. Í næsa pistli kynnumst við framlögunum frá Austurríki, Ísrael, Serbíu og Grikklandi.