Sænskir sérfræðingar setja Maríu í 4. sæti

 

2592355-svt-inforesc001-jpg

Eric, Sarah, Kristin, Christer og Tess – öll hress í Inför Eurovision Song Contest. Mynd: svt.se

Inför Eurovision Song Contest eru sænskir sérfræðingaþættir um Eurovision í ætt við Alla leið á RÚV. Í ár er sænska Júró-sérfræðiráðið skipað Söruh Dawn Finer (Melodifestivalen söngkona með meiru, á m.a. alteregóið Lyndu Woodroff sem allir þekkja), sem er jafnframt þáttastjórnandi, Christer Björkman (ef þú veist ekki hver hann er áttu að vera lesa einhverja aðra síðu!), Eric Saade (Dusseldorf 2011 og Melodifestivalen keppandi í þrígang), Kristin Amparo (tók þátt í Melodifestivalen í ár) og Tess Merkel (enn ein Melodifestivalen söngkonan, hluti af slager ultimatum hljómsveitinni Alcazar).

Í kvöld var fjórði þátturinn af Inför og tóku sænsku sérfræðingarnir íslenska framlagið fyrir. MÆ Ó MÆ! Eric Saade gaf laginu 10 stig af 10 mögulegum. Hann sagði að Ísland væri ekki bara með gott lag heldur einnig góða söngkonu – lagið gæti jafnvel unnið! Síðan varð hann pínu vandræðalegur og sagðist hann svitna yfir fegurð Maríu Ólafs og hvernig hún fangaði hann með augunum. Vúhú það er aldeilis! Kristin Amparo gaf laginu 8 stig og sagði að það félli ekki að hennar smekk. Christer bar Unbroken saman við lag Jóhönnu Guðrúnar um árið og að ekki væri útilokað að Ísland lenti í topp fimm. Hann gaf íslenska framlaginu 8 stig. Sarah gaf Unbroken einnig 8 stig og sagði að húkkurinn í laginu væri góður – hann væri heilalím (við getum nú ekki verið ósammála því). Tess líkti Unbroken við myntukaramellu – ekki svo áhugaverð en frískandi – og gaf því 9 stig.

Í heildina hafa sérfræðingar Inför veitt Svíþjóð og Ástralía fullt hús stiga og þau eru því í 1.-2. sæti. Kýpur var í 3. sæti og svo Ísland í 4. sæti af öllum 40 Eurovision framlögunum. Aldeilis flott það! Áfram María!