Hera Björk 50 ára


Hera Björk Þóhallsdóttir Eurodíva með meiru fæddist í Reykjavík þann 29. mars 1972 og fagnar því hálfrar aldar afmæli í dag. Hún vann fyrst hæfileikakeppni 16 ára gömul og hefur eftir það starfað við söng, í leikhúsi og sjónvarpi ásamt reyndar fleiru. En hér verður fjallað um feril Heru tengdan Söngvakeppninni og Eurovision. Hann hófst veturinn 1999-2000 en þann vetur stjórnaði Hera skemmtiþættinum Stutt í spunann ásamt Hjálmari Hjálmarssyni. Þar fór einn þáttur í að velja Eurovisionlag Íslendinga árið 2000. Þessi gullmoli er sem betur fer til á netinu og hægt að horfa ef smellt er hér að neðan.

Það má segja að Hera hafi haldið áfram að koma bakdyramegin inn í Söngvakeppnina og Eurovision. Hún var hluti af bakraddateymi Eurobandsins, þar sem Friðrik Ómar og Regína Ósk eru fremst í flokki. Þau unnu Söngvakeppnina 2008 með lagið This is My Life og Hera fór með þeim til Belgrad í Serbíu þar sem þau komust áfram í lokakeppnina.

Hera hefur búið víðar en á Íslandi, bæði í Danmörku og Chile og tekið þátt í söngvakeppnum þar. Árið 2009 tók hún þátt í Dansk Melodi Grand Prix með lagið Someday sem er eftir þekkta skandinavíska lagahöfunda, en höfundar eru Christina Schilling, Jonas Gladinoff, Henrik Szabo og Daniel Nilsson. Hera endaði í öðru sæti, en lagið sem sigraði heitir Believe Again sem Brinck söng. Meðal höfunda þess er hinn írski Ronan Keating úr Boyzone og kynnir á Eurovisionkeppninni 1997. Það endaði svo þannig að Someday vann OGAE Second Chance Contest árið 2009.

Hera fór svo aftur sem bakrödd fyrir Ísland þetta árið og varð aftur í öðru sæti. Í þetta sinn fór keppnin fram í Moskvu þar sem Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söng lagið Is it True? fyrir Íslands hönd. Með Heru í bakröddum voru Friðrik Ómar Hjörleifsson og Erna Hrönn Ólafsdóttir.

Það kom svo loksins að því árið 2010 að Hera tók sjálf þátt í Söngvakeppninni. Hún og Örlygur Smári áttu þar lagið Je ne sais quoi sem Hera flutti og fór með sigur af hólmi. Hera var þar með sjálf loksins fulltrúi Íslands í Eurovision í Osló árið 2010. Lagið var eitt af þeim íslensku lögum sem síðast var lesið upp þegar það komst áfram á lokakvöldið. Lagið lenti í 3. sæti í forkeppninni en 19. sæti á lokakvöldinu. Lagið og ekki síður Hera sjálf varð mjög vinsælt meðal Eurovisonaðdáenda og er hún án efa með vinsælustu íslensku keppendunum. Þessar vinsældir hafa til dæmis orðið til þess að ótal remix útgáfur eru til af Je ne sais quoi.

Níu ára langri bið eftir endurkomu Heru í Söngvakeppnina lauk loks árið 2019. Þá flutti hún kraftballöðuna Moving On sem er einnig eftir Heru og Örlyg Smára. Lagið endaði í 3. sæti á eftir sterkum keppinautum, Hatara og Friðriki Ómari.

FÁSES.is færir Heru Björk innilegar hamingjuóskir á þessum tímamótum.