Grískur ástarharmleikur með skandinavísku ívafi


 

Hin 25 ára gamla Amanda Tenfjord er fulltrúi Grikkja í Eurovision í ár. Hún á ættir sínar að rekja til Noregs og Grikklands og lagið Die Together er eftir því, kraftmikil blanda af tregafullu norrænu svartnætti og grískum ástarharmleik sem er snyrtilega pakkað inn í poppballöðu samkvæmt skandinavísku formúlunni.

Gríska ríkissjónvarpið ERT notaðist við lokað ferli við val á Eurovision lagi þar sem dómnefnd valdi úr 40 innsendum framlögum. Sú krafa var gerð að flytjendur laganna væru á mála hjá plötufyrirtæki en jafnframt þuftu að fylgja upplýsingar um nánari útfærslu. Á meðal vonbiðla voru ýmis þekkt nöfn í Grikklandi en einnig í heimi Eurovision; Constantinos Christophorou sem þrisvar hefur verið fulltrúi Kýpur og Ilias Kozas úr hljómsveitinni Koza Mostra sem flutti lagið Alcohol is Free fyrir hönd Grikklands árið 2013.

Amanda á norska móður og grískan föður. Fyrstu árin bjó hún í heimabæ föður síns, Ioannina, á Grikklandi og mun hafa lært grísku áður en hún lærði norsku. Síðar meir flutti fjölskyldan til bæjarins Tennfjord í nágrenni Álasunds þar sem hún ólst að mestu upp. Á meðal bekkjafélaga hennar var norska poppstjarnan Sigrid, sem Amanda segist hafa verið innblásin af þegar hún tók ákvörðun um að gera alvöru úr tónlistardrauminum. Hún gaf út sitt fyrsta lag árið 2014 (Run) og hlaut það góðar viðtökur. Hún hefur sent frá sér fjölda laga síðan þá og hafa mörg þeirra gert það gott í Noregi.

Lagið Die Together er harmþrungið mjög og fjallar um samband í dauðaslitrunum. Byrjunin er einlæg, tær og lágstemmd en eftir því sem á líður byggist bæði dramatíkinn og krafturinn upp og lokaviðlagið skellur á eins og alda á kletti – hvort sem er við Álasund eða á jafnvel á grísku eyjunni Symi þar sem myndband lagsins er tekið upp. Líkindin á milli staðanna tveggja eru glettileg. Sjón og hlustun eru sögu ríkari.

Það er skemmtileg tilviljun að framlög grískumælandi landanna tveggja, Grikklands og Kýpur, hafa bæði tengingu við Norðurlöndin því höfundur kýpverska lagsins, Alex P, er hálfsænskur. Það sama var reyndar uppi á teningnum þegar Grikkir sigruðu Eurovision í fyrsta og eina skiptið árið 2005 en söngkonan, Helena Paparizou, sem flutti lagið My Number One, er einmitt fædd og uppalin í Svíþjóð.

Grikkir hafa ekki riðið sérstaklega feitum hesti frá Eurovision síðustu ár. Þeir lentu að vísu í 10. sæti í fyrra (Last dance – Stefania) en besti árangurinn síðustu sex árin þar á undan var 19. sæti. Þar af mistókst þeim tvisvar að komast í úrslit. Það verður því spennandi að sjá hvort grísk-norræna uppskriftin reynist jafnárangursrík nú og árið 2005.