Serbar hvetja til handþvotts í Eurovision…eða hvað?


Serbar völdu sér sitt framlag til Eurovision 2022 í gegnum forkeppni sína, Pesma za Evrovizijo ’22. Serbenska ríkissjónvarpið ákvað að bregða aðeins út af vananum í ár, þar sem tónlistarhátíðin Beovizija hefur verið notuð síðan 2007 til að velja framlag Serba í Eurovision.

Eftir tvær undankeppnir og ein úrslit, sem samanstóðu af hvorki meira né minna en 36 lögum í heildina, var það lagið „In corpore sano“ flutt af listakonunni Konstrakta sem stóð uppi sem sigurvegari.

Margir áhorfendur hafa eflaust furðað sig á því hvers vegna í ósköpunum Konstrakta er að þrífa á sér hendurnar nánast allt lagið. Svarið má finna í texta lagsins en lagið er að sögn ádeila á heilbrigðiskerfi Serbíu og þá sérstaklega slæma aðstöðu listamanna innan þess kerfis. Listamenn eru víst ekki sjúkratryggðir þar í landi og því er þeim sagt að hugsa bara vel um heilsuna svo þeir þurfi ekki að nýta sér heilbrigðisþjónustu landsins, sem víst þarf að borga ansi mikið fyrir ef viðkomandi er ótryggður. Texti lagsins hefur þó einnig verið tengdur við ádeilu á samfélagsmiðla, útlitsdýrkun, en í upphafi lags spyr Konstrakta hvert sé leyndarmálið á bak við hárið á Megan Markle, og svo auðvitað Covid-faraldurinn.

Þetta er þó langt því frá að vera það eina áhugaverða við framlag Serba í ár en þegar Konstrakta stígur á svið í Tórínó mun það vera í fyrsta skiptið sem latína heyrist á stór sviðinu í Eurovision. Enn bætist við tungumálasúpu Eurovision, en titill lagsins er á latínu ásamt því að síðasta vers lagsins er sungið á þessu forna tungumáli. Restina af laginu syngur Konstrakta svo á móðurmálinu serbnesku.

Sigur „In corpore sano“ var nokkuð afgerandi, þar sem lagið fékk um tvöfalt fleiri símaatkvæði en lagið sem lenti öðru sæti, „Muškarčina“ flutta af Söru Jo. Sigurlagið fékk einnig fullt hús stiga hjá dómnefnd, en kosningakerfi keppninnar samnstóð af 50/50 dómnefndar- og símaatkvæðum.

Öll lögin sem kepptu voru flutt á móðurmálinu serbnesku en samkvæmt reglum keppninnar þurftu öll lög að vera flutt á einu af opinberu tungumálum Serbíu, ásamt því að flytjendur þurftu að vera serbneskir ríkisborgarar. Lagahöfundar máttu þó vera af hvaða þjóðerni sem er.

 

Sara Jo, sem lenti í öðru sæti, er einn af góðkunningjum Eurovision en hún tók þátt fyrir hönd Serbíu árið 2013 sem hluti af litríka tríóinu Moje 3 með lagið „Ljubav je svuda“.

Sjá mátti annan góðkunningja Eurovision á sviðinu þetta kvöld. Hin norður-makedónska Tijana, sem flutti framlag Norður-Makedóníu árið 2014 „To the Sky“. Hún ákvað þó að hoppa yfir til nágrannalandsins Serbíu að þessu sinni, en sá sem hafði ætlað sér að syngja lagið upprunlega hætti víst við vegna ósættis við höfunda lagsins. Tijana hljóp því í skarðið en þurfti þó að sætta sig við 11. sætið að þessu sinni. Með henni í græna herberginu sat systir hennar, Tamara, sem flutti framlag Norður-Makedóníu árið 2019 „Proud“, sem sigraði einmitt dómnefndarkosninguna það árið, og framlag sama lands árið 2008 sem bar heitið „Let Me Love You“.

Sjá mátti enn fleiri góðkunningja í einu af skemmtiatriði kvöldsins, þar sem hópur söngvara söng syrpu ítalskra slagara. Þar mátti sjá Knez, sem flutti framlag Svartfjallalands árið 2015 „Adio“, Jelenu Tomašević, sem flutti framlag Serbíu árið 2008 „Oro“, Sergej Ćetković sem flutti framlag Svartfjallalands árið 2014 „Moj Svijet“ og Tijönu Bogićević sem flutti framlag Serbíu árið 2017 „In Too Deep“. Mikið stuð var á sviðinu og mælir höfundur eindregið með að fylgjast með hljómsveitarstjóranum dansandi í bakgrunni. Það verður þó látið liggja á milli hluta hversu mikið af syrpunni var sungið í lifandi flutningi.

Serbar stíga á svið í seinni undankeppninni þann 12. maí og við Íslendingar verðum því að bíða og sjá hvort Konstrakta komist í úrslitin ef við viljum kjósa þetta áhugaverða lag.