Danir völdu sitt framlag til Eurovision á sinn hefðbundna máta, með forkeppni sinni Melodi Grand Prix. Danska sjónvarpið hefur síðustu ár verið duglegt við að einskorða sig ekki við Kaupmannahöfn hvað varðar staðsetningar á keppninni, þar sem keppnin hefur meðal annars verið haldin í Álaborg, Herning og Horsens. Keppni þessa árs var þar engin undatekning en hún var haldin í Boxen-höllinni í jósku borginni Herning.
Keppnin samanstóð af átta lögum sem kepptust fyrst um að komast í þriggja laga gullúrslit. Eftir einstaklega spennandi gullúrslit, þar sem mjög mjótt var á munum, var það stúlkna-pönkrokk-bandið Reddi með lagið „The show“ sem stóð uppi sem sigurvegari.
Hljómsveitin Reddi samanstendur af tveimur dönskum stúlkum og tveimur sænskum og hér er því svo sannarlega um strangheiðarlegt nordisk samarbejde að ræða, ásamt því að bjóða upp á sannkallaðan kvennakraft.
Kosningakerfi Dananna í ár skiptist í þrennt. Í vikunni fyrir keppnina var hægt að kjósa einu sinni á dag með smáforriti keppninnar. Meðan á keppninni stóð var annars vegar hægt að kjósa með smáskilaboðum og hins vegar að kjósa tvisvar í gegnum smáforrit keppninnar. Í fyrri umferð keppninnar voru öll átta keppnislögin flutt og kosið þeirra á milli. Þegar búið var að leggja saman öll atkvæðin voru það lögin „Hallelujah“ með Conf3ssions og „Let me go“ með Josie Elinor og Jack Warren sem komust í gullúrslitin ásamt sigurlaginu „The Show“ með Reddi.
Við tóku gullúrslitin, þar sem þrjú efstu lögin voru flutt aftur og kosið var á ný þeirra á milli með smáskilaboðum og í gegnum smáforrit keppninnar. Hvert atkvæði skipti svo sannarlega máli, því mjög mjótt var á munum að þeirri kosningu lokið. Lokaúrslit voru á þann veg að Conf3ssions endaði með 32% atkvæða, Josie Elinor og Jack Warren enduðu með 31% atkvæða og sigurvegararnir í Reddi með 37% atkvæða.
Danir hafa verið duglegir við að syngja á ensku síðan tungumálareglunni var breytt, en þangað til í fyrra höfðu þeir ekki sungið á dönsku síðan 1997. Sigur Fyr og flamme með smellinn „Øve os på hindanden“ í fyrra virðist þó hafa kveikt í móðurmálssprengju á meðal dansks tónlistarfólks, þar sem fimm lög af þeim átta sem kepptu voru sungin á dönsku.
Hins vegar voru danskir áhorfendur ekki alveg á sömu blaðsíðu, því þeir völdu þau þrjú lög sem sungin voru á ensku áfram í gullúrslitin. Hin fimm þurftu að sitja eftir með sárt ennið, en þar mátti þó finna úrval fjölbreyttar tónlistar. Þar á meðal voru rave-rappararnir í Fuld Effekt sem buðu okkur upp á danskt gleðisprengjurapp með laginu „Rave med de hårde drenge“.
Restin samanstóð af feðgnadúettinum Det var Engang með „En skønne dag“, sálarsöngvaranum Patrick Dorgan með „Vinden suser ind“, söngvaranum og lagahöfundinum Juncker með „Kommet for at blive“ og hinum léttlynda poppara Morten Filippsen með „Happy Go Lucky“.
Við fáum því ekki að heyra neina dönsku í Eurovision í ár, nema einhverju landinu detti í hug að bæta smá dönsku í textann sinn svona eins og þegar Danir gerðu heiðarlega tilraun til að blanda smá íslensku í víkingaóðinn sinn árið 2018.
Upphafsatriði keppninnar vakti mikla lukku og þá sérstaklega þær breytingar á texta „Øve os på hindanden“ sem Fyr og flamme bauð upp á. Í seinna versi lagsins söng Jesper nefnilega um hvað þeir félagar væru leiðir yfir því að hafa ekki komist áfram í Rotterdam í fyrra og báðust innilega afsökunar á því. Gaman að sjá að þeir félagar hafa húmor fyrir sjálfum sér, jafnvel þótt þeir hafi þurft að sitja eftir í undankeppni Eurovision árið 2021. Glöggir áhorfendur tóku kannski eftir því að Laurits, gítarleikari Fyr og flamme, bar forlátan klút um hálsinn sem líktist ansi mikið þjóðfána okkar Íslendinga. Spurning hvort þessi klútur hafi verið dulin skilaboð um að þeir kumpánar muni heimsækja okkur í nánustu framtíð.
Glöggir áhorfendur tóku kannski líka eftir því að Eurovision-goðsögnin Johnny Logan var staddur í græna herberginu en hann virtist vera í félagsskap með flytjendum lagsins „En skønne dag“, feðginunum Emmy Pi og Rasmus Hedeboe.
Eftir nánari grennslan kom það í ljós að Rasmus hefur spilað með hljómsveit Johnny Logan í um tíu ár og hafði Johnny Logan einmitt verið með tónleika í Helsingør daginn áður en úrslitin voru í Dansk Melodi Grand Prix. Rasmus ákvað því að spyrja félaga sinn hvort hann væri nokkuð til í að mæta með þeim feðginum í græna herbergið, sem og írsk/ástralska goðsögnin gerði. Kynnar dönsku keppninnar virtust þó annað hvort ekki vita af honum á svæðinu eða ákveðið að veita honum ekki athygli, því þótt það sé ekki á hverjum degi að methafi í Eurovision-sigrum hafi verið á svæðinu var hann aldrei nefndur á nafn. Áhugavert, en höfundur ætlar þó ekki að fara út í neinar samsæriskenningar varðandi þetta.
Núna er bara að bíða og sjá hvort að sýning þeirra stallnanna í Reddi heilli evrópska áhorfendur, en Danmörk stígur á svið í fyrri undankeppninni þann 10. maí ásamt okkur Íslendingum.