Svartfjallaland segir okkur að anda


Svartfjallaland kemur með stæl aftur inn í keppnina eftir tveggja ára hlé en þau tóku þátt síðast árið 2019 með laginu Heaven.  Venjulega hefur verið haldin undankeppni í landinu sem hefur gengið undir nafninu Montevizija en í ár var breyting þar á. Ríkisútvarp landsins ákvað að halda opna undankeppni þar sem auglýst var eftir lögum og mátti hver sem er senda inn lag. Einu skilyrðin voru að söngvarinn yrði að vera með svartfellskan ríkisborgararétt. Síðan var skipuð 10 manna nefnd sem fór yfir lögin og söngvarana og var lagið opinberað í byrjun mars.

Svartfjallaland hefur tekið ellefu sinnum þátt í keppninni eða allt frá árinu 2007 þegar landið varð sjálfstætt ríki. Þau hafa tvisvar sinnum komist upp úr undankeppninni á úrslitakvöldið. Fyrra skiptið var 2014 með laginu Moj Svijet og seinna skiptið var 2015 með laginu Adio en það lag lenti í 13. sæti í aðalkeppninni sem er besti árangur Svartfjallalands.

Þann 4. janúar síðastliðinn tilkynnti dómnefndin að söngkonan Vladana Vučinić yrði keppandinn fyrir þeirra hönd í Eurovision í ár og mun hún flytja lagið Breathe. Skilaboð lagsins eru að muna eftir að anda þó að lífið verði erfitt á köflum þar sem andardrátturinn gefi okkur styrk í lífinu. Vladana er einn af höfundum lagsins en meðhöfundur er Darko Dimitrov. Hann ættu einhverjir Eurovision aðdáendur að kannast við en lagið Breathe er tólfta Eurovision framlagið sem hann hefur puttana í. Og þau eru ansi fjölbreytt, allt frá Norður Makedónska framlaginu Proud árið 2019 og serbneska framlaginu 2021 Loco Loco.

Vladana er þekkt tónlistakona í heimalandi sínu og spannar ferill hennar tæplega tvo áratugi. Ofan á tónlistarferilinn er hún með gráðu í fjölmiðlun og hefur sett á fót vefrit um tísku. Hún er ekki ókunnug Eurovision þar sem hún hefur tekið þátt tvisvar sinnum áður í undankeppni í heimalandinu. Hún keppti árið 2005 með lagið Samo moj nikad njen. Hún lenti í 18. sæti af 20 og komst ekki í úrslitakeppnina það árið. Árið eftir, eða 2006, var hún mætt aftur með lagið Željna  þar sem hún söng dúett með Bojana Nenezić. Þau lentu í 11. sæti af 20 og komust áfram í úrslitakeppnina þar sem þau lentu í 15. sæti.

Samo moj nikad njen árið 2005

Željna árið 2006

Við hlökkum til að hlusta aftur á framlag Svartfjallalands eftir tveggja ára fjarveru en Svartfellingar munu keppa í seinni undankeppni Eurovision þann 12. maí nk.