Þau keppa í fyrri undanúrslitum Söngvakeppninnar


Loksins eftir tveggja ára bið hefst Söngvakeppnin aftur í kvöld. Það hefur verið nóg að gera hjá Eurovisionaðdáendum síðustu vikur við að fylgjast með fjöldanum öllum af undankeppnum erlendis svo það er ekki úr vegi að rifja upp hverjir stíga á svið í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi í kvöld. Meirihluti keppenda í kvöld er ekki ókunnugur Söngvakeppnissviðinu en eins og lesendur vita er alltaf sérlega skemmtilegt að fylgjast með nýliðum blómstra.

Amarosis syngja lagið Don’t You Know (titill lagsins á íslensku og ensku) eftir systkinin í bandinu, Má Gunnarsson og Ísold Wilberg. Ísold tók þátt í Söngvakeppninni 2020 með lagið Klukkan tifar (Meet Me Halfway) ásamt Helgu en þær komust alla leið í úrslitin í Laugardagshöll og lentu þar í 4. sæti. Már er blindur vegna augnsjúkdómsins Leber Congenital Amaurosis en þaðan kemur heiti hljómsveitarinnar en dúóið var sérstaklega myndað fyrir Söngvakeppnina. Systkinin hafa unnið saman áður og sigruðu m.a. jólalagakeppni Rásar 2 árið 2019 með laginu Jólaósk. Már Gunnarsson vakti mikla athygli fyrir vasklega framgöngu í viðtölum við fjölmiðla á ólympíuleikum fatlaðra í fyrra þar sem hann keppti í sundi. Hann hefur sagt í viðtölum að sundið hafi verið í forgangi síðustu ár en síðasta haust hafi opnast tækifæri til að skella í lag fyrir Söngvakeppnina.

Stefán Óli syngur lagið Ljósið (All I Know) eftir Andra Þór Jónsson og Birgir Stein Stefánsson. Íslenski texti lagsins er eftir Stefán Hilmarsson og enski textinn er eftir Andra Þór, Birgir Stein og Stefán Hilmarsson. Stefán Óli Magnússon er Ísfirðingur sem flutti í bæinn fyrir tveimur árum, byrjaði þá að syngja og kemur nú á fljúgandi farti inn í Söngvakeppnina. Andri Þór og Birgir Steinn fundu Stefán á Instagram og fannst lagið sniðið fyrir rödd Stefáns. Stefán Óli er óskrifað blað söngsviðinu (en er samt með 1 í forgjöf í golfi!) en einhverjir hafa spáð því að lagið Ljósið sé hið næsta Í síðasta skipti.

Haffi Haff syngur lagið Gía (Volcano) eftir Steinar Jónsson og Sigurð Ásgeir Árnason. Texti lagsins er eftir Hafstein Þór Guðjónsson og Sigurð Ásgeir Árnason. Haffi Haff er að sjálfsögðu þekktastur meðal Eurovision aðdáenda fyrir flutning The Wiggle Wiggle Song í Söngvakeppninni 2008 eftir Svölu Björgvins. Hann keppti aftur í Söngvakeppninni árið 2010 með lagið Buried Alive þar sem hoppaði upp úr líkkistu. Við búumst því við svaka showi í kvöld! Einn lagahöfundur lagsins, Stefán Ásgeir Árnason, er þekktur sem meðlimur Ultra Mega Technobandsins Stefán sem lenti í 2. sæti í Músíktilraunum 2006. Gía verður ekki fyrsta eldgosalagið í Söngvakeppninni því auðvitað muna allir eftir Eyjafjallajöklinum hans Matta Matt. Gíufólk hefur útbúið stórkostlegt myndband við lagið sem við hvetjum alla hummuselskendur til að kíkja á.

Stefanía Svavarsdóttir syngur lagið Hjartað mitt (Heart of Mine) eftir Halldór Gunnar Pálsson við texta Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Stefánía er að sjálfsögðu ekki ókunnug Söngvakeppninni en hún keppti árið 2018 með Agnesi Marinósdóttur og Regínu Magnúsdóttur þar sem þær sungu Svaka stuð, 2015 var það lagið Augnablik og 2013 söng hún lagið Til þín með Jógvan Hansen. Halldór Gunnar segir að lagið sé samið til dóttur sinnar en það er örugglega eitthvað sem tveggja barna móðirin Stefanía á ekki erfitt með að tengja við. Halldór Gunnar og Stefánía hafa gefið út angurvært myndband við lagið.

Systurnar Sigga, Beta og Elín syngja lagið Með hækkandi sól eftir Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttur eða Lay Low. Þetta er eina lagið í Söngvakeppninni sem er alfarið á íslensku. Systurnar, dætur Ellenar Kristjánsdóttur söngkonu og Eyþórs Gunnarssonar tónlistarmanns, hafa alla tíð verið mikið í tónlist og mynda bandið Sísí Ey. Þær hafa m.a. lýst því í viðtölum að hafa farið í Eurovision partý til Kristjáns frænda, tónlistarmannsins KK – ekki amalegt það! Móðir þeirra Ellen átti svo að mati greinarhöfunar eitt besta lag Söngvakeppninnar á áttunni, Línudans. Texti lagsins er hlýr og dáleiðandi og þess vegna mælum við með að þið skoðið textamyndbandið sem gefið hefur verið út.

Reglur Söngvakeppninnar kveða á um að lögin í undanúrslitum skuli flutt á íslensku en í úrslitum á því tungumáli sem til stendur að flytja það í Eurovision, sigri lagið Söngvakeppnina. Fyrirkomulagið í kvöld verður þannig að efstu tvö lögin í símakosningu fara í úrslitin 12. mars nk. Kynnar keppninnar eru Björg Magnúsdóttir, Jón Jónsson og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og við höfum heyrt að í kvöld muni m.a. GusGus koma fram.

Að lokum mælum við með hlaðvarpi RÚV sem ber heitið Með Söngvakeppnina á heilanum og upphitunarþættinum #12stig. Þá er ekkert eftir nema poppa og skella sér fyrir framan skjáinn í kvöld!