Raddirnar unnu Melodifestivalen


Nu kör vi! Þessi þrjú litlu orð sem þýða þó svo mikið, hljómuðu í seinasta sinn á þessari júróvertíð á laugardaginn var, þegar úrslitakeppni Melodifestivalen, eða Melló, fór fram í Stokkhólmi. Og Svíar sviku engan frekar en vanalega þegar kom að flottu sjóvi og spennu. Einnig markaði þessi Melló ákveðin tímamót þar sem þetta var í síðasta skipti sem hinn góðkunni Christer Björkman stjórnaði öllu heila klabbinu en hann hefur nú látið af störfum sem Mellópabbi eftir 20 ára starf. Takk Christer og gangi þér vel. En aftur í aðalmálið…

Eins og vanalega var ekkert slegið af, þrátt fyrir sóttvarnir og takmarkanir vegna Covid 19. Svíar héldu sínar 4 forkeppnir og Andra Chansen að venju og svo úrslitakvöld. 12 lög kepptu til sigurs og að sjálfsögðu voru gamlir kunningjar mættir til leiks, en þar mátti m.a sjá Selmuhrellirinn Charlotte Perelli, vinsældaralkann Eric Saade, mæðratríóið The Mamas og prúðupiltana í Arvingarna, en allir þessir flytjendur hafa unnið Melodifestivalen. Það var því gott sambland af reynsluboltum og nýliðum sem tóku yfir Annexet, sem er lítil hliðarhöll í Globen City. Eftir hörkuspennandi keppni var það þó einn af nýliðunum sem gjörsamlega stal senunni og valtaði yfir keppinauta sína, en það er hinn 19 ára gamli Tusse sem mun keppa fyrir hönd Svíþjóðar með lagið “Voices”.

Keppnin var æsispennandi og sitt sýndist hverjum um hver myndi vinna Melodifestivalen. Flestir veðjuðu þó á Eric Saade og lagið hans “Every Minute” eða söngkonuna Dotter, sem þótti eiga harma að hefna eftir að hafa lent í öðru sæti á eftir The Mamas í fyrra, þar sem munaði aðeins einu stigi! En Svíar geta nú verið jafn óútreiknanlegir og þeir eru kassalaga, og þegar allt kom til alls, var það Tusse sem kom, sá og saltaði samkeppnina, eftir að hafa unnið bæði símakosningu sem og dómnefndarkosningu. Eric Saade varð að láta sér lynda annað sætið, The Mamas vermdu þriðja sætið og Dotter varð í fjórða… einu stigi á eftir The Mamas. Talandi um Dejá Vu!!

Tusse heitir réttu nafni Touzin Michael Chiza og er fæddur og uppalinn í Afríkuríkinu Kongó. Hann á sér merkilega sögu, en þegar hann var aðeins 13 ára gamall kom hann aleinn til Svíþjóðar og sótti um hæli sem flóttamaður. Ekki er ljóst af hverju hann var einn á ferð, en maður getur varla ímyndað sér hvaða aðstæður 13 ára gamalt barn flýr aleitt þvert yfir heimskringluna. Hafa ber í huga að í Kongó er barnahermennska algengari en æla fyrir utan skemmtistaði í miðborginni og spurning hvort Tusse hafi þurft að þola slíkt. Þó er ekkert vitað um það og eru þetta einungis vangaveltur. En Tusse komst til Svíþjóðar og var fljótlega tekinn í fóstur og hefur síðan alist upp í smábænum Kullsbjörken, þar sem hann fann fljótlega að ástríða hans lá í tónlist og söng. Hann sást fyrst í hæfileikaþættinum Talang 2018 en komst ekki lengra en í undanúrslit þrátt fyrir að hafa fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína. En þegar hann tók þátt í Swedish Idol ári seinna, voru Svíar búnir að kveikja á hversu mikið hæfileikabúnt drengurinn er, og svo fór að hann vann keppnina og hefur síðan verið á hraðri leið upp stjörnuhimininn.

Lagið “Voices” er sko ekki samið af neinum rumparalýð, en á bakvið lagið standa þau Joy og Linnea Deb, Jimmy “Joker” Thörnfeldt og Anderz Wrethov, en allir þessir höfundar hafa á einn eða annan hátt verið viðloðandi Melodifestivalen og Eurovision í gegnum tíðina, en fyrrum Deb hjónin sömdu t.a.m. “Heroes”. Textinn er áleitinn, enda tengir Tusse hann við sína eigin lífsreynslu, þ.e. ferðalagið frá ótta til öryggis og syngur af mikilli innlifun. Hvort sú innlifun skilar honum í úrslitakeppnina þann 22.maí nk. á enn eftir að koma í ljós, en það er klárt mál að hér er hæfileikaríkur drengur á ferð.