Pólland sendir eðaltöffarann Rafal og lagið “Ride”


Fólki var farið að lengja eftir framlagi Póllands og hvernig sem reynt var að þrýsta á pólska sjónvarpið, var innanbúðarfólk þar þögult sem gröfin. Keppandinn frá því fyrra, Alicja Szemplinska, var spurð fyrir tæpri viku síðan hvað væri að frétta, en hún yppti bara öxlum og sagðist ekkert hafa frétt. Eftir að Armenía dró sig úr keppni, voru uppi sögusagnir þess efnis að Pólverjar hyggðust gera það sama. En ó ekkí. Allt í einu stökk söngvarinn Rafal inn af hliðarlínunni með ofursvala synthpopsmellinn “Ride” og Pólland er aftur með í leiknum!

Það er óhætt að segja að Pólverjar hafi verið með ansi fjölbreytta ferilskrá síðan þeir hófu þátttöku árið 1994 og það með hvelli, enda höfnuðu þeir í öðru sæti með kraftballöðuna “To Nie Ja”, sem flutt var af Edytu Gorniak. Síðan þá hafa þeir nú ekkert verið að merkja sér svæði neitt þannig, en tvisvar sinnum hafa þeir þó verið inn á topp tíu, í annað skipti árið 2003, þegar sveitin Ich Troje með litskrúðuga léreftsbarkann Michal Wisniewski í fararbroddi lenti í 7. sæti og í seinna skiptið árið 2016 þegar krúttbomban Michal Szpak gerði sér lítið fyrir og varð í 4. sæti í símakosningunni, öllum að óvörum og skaust rakleiðis í 8. sæti. Vel gert, Mikki! En nóg um það…

Það er annar og ekki síðri söngvari sem keppir fyrir hönd Pólverja í ár, en það er Rafael Brzozowski, eða Rafal eins og hann kýs að kalla sig. Rafal er fæddur í Varsjá í júní árið 1981 og mun fagna fertugsafmæli sínu rétt eftir keppni. Hann hóf feril sinn í The Voice of Poland árið 2011 og lá leið hans greið upp á stjörnuhimininn uppfrá því. Hann hefur örlítið komið við sögu Eurovision áður, en hann varð í 2. sæti í pólsku forkeppninni Krajowe Eliminajce árið 2017, þar sem hann tapaði naumlega fyrir Kösiu Móz. Hann hefur þó ekki aðeins starfað við söng heldur er hann líka vel þekktur sjónvarpsmaður í Póllandi og var m.a. kynnir á Junior Eurovision 2020, en keppnin var einmitt haldin í Póllandi í nóvember síðastliðnum. Og hvort sem þið trúið því eða ekki, áður en Rafal sló í gegn sem söngvari, var hann atvinnuglímukappi. Fjölhæfur drengur á ferð.

Lagið “Ride” er 80´s skotið dansslag og auðvitað er smá Svíabragð af því, en það er samið af Joakim Övrenius, Clöru Rubenson, Thomas Karlsson og Johan Mauritzon. En þrátt fyrir sænska lagahöfunda, er Rafal svo sannarlega pólskur og einstaklega stoltur og ánægður yfir því að hafa verið treyst fyrir þessu risaverkefni sem Eurovision er, eins og fram kom í Instagram pósti frá honum í morgun, þegar pólska sjónvarpið hafði staðfest hann sem fulltrúa sinn: “Loksins get ég deilt þessum frábæru fréttum! Já, ég er að fara í Eurovision! Nú byrjar ævintýrið. Haldið ykkur fast því nú verður lagt í hann. Krossið fingur!”

Og gerum við það ekki? Jú, svona krakkar, krossum fingur fyrir Rafal og súpersvala og sjóðheita synthapoppinu hans, lóðbeint af strætum Varsjár.