Tunglskin frá Sanremo


Ef Eurovision aðdáendur væru fengnir til að lýsa forkeppnum Eurovision með tegundum af pasta væri Söngvakeppnin lítil og krúttleg makkaróna á móti ítölsku keppninni Sanremo sem væri laaaaaangt spaghetti. Já, ef einhverjir kunna að halda úti fimm klukkustunda langri beinni útsendingu, fimm kvöld í röð þá eru það Ítalir.

En það var einmitt síðastliðið laugardagskvöld sem að úrslit í ítölsku langloku tónlistarhátíðinni Sanremo fóru fram. Keppnin hefur verið haldin árlega síðan árið 1951 og er fyrirmyndin að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision. Sanremo er ekki eiginleg forkeppni fyrir Eurovision, þó að sigurvegara keppninnar sé boðið að vera fulltrúi ítalska sjónvarpsins RAI. Síðastliðin ár hafa sigurvegarar Sanremo þó oftast þegið boðið og tekið þátt í Eurovision. Það er ekki lengra síðan en árið 2016 þegar sigurvegarinn Stadio hafnaði boðinu og þess vegna var keppandanum í þriðja sæti, Francescu Michielin, boðið að vera fulltrúi Ítala í Stokkhólmi. En nóg um sagnfræði Sanremo enda væri hægt að skrifa heila ritröð um sögu keppninnar.

Eins og hefð er fyrir þá var keppninni dreift á fimm kvöld með sjónvarpsútsendingu sem stóð í litlar sex klukkustundir hvert kvöld. 26 lög tóku þátt og var helmingur laganna fluttur á þriðjudagskvöld og restin miðvikudagskvöldið í síðustu viku. Á fimmtudeginum fengu allir keppendurnir 26 að spreyta sig á sögufrægum ítölskum lögum ásamt gestasöngvara ef keppendurnir vildu. Á föstudagskvöldinu fengum við svo að heyra keppendurna flytja lögin sín öðru sinni ásamt því að úrslit voru kynnt í nýstirna keppninni sem er einhverskonar hliðarkeppni af Sanremo þar sem ungir og óþekktir söngvarar fá að spreyta sig gagnvart alþjóð.

Það voru svo örþreyttir keppendur með blik í augum (væntanlega af þreytu) sem ásamt sinfóníuhljómsveitinni stigu á svið í áhorfendalausu Ariston leikhúsinu í Sanremo á laugardagskvöldið og fluttu lögin sín aftur. Þar á meðal voru nokkrir góðkunningjar Eurovision aðdáenda: Francesca Michielin (2016) og hrokkinhærði látúnsbarkinn Ermal Meta (2018) að ógleymdri Annalise sigurvegara OGAE Second Chance Contest árin 2013 og 2018. Svo má náttúrulega ekki gleyma Eurovision vininum Zlatan Ibrahimović sem kætti áhorfendur með nærveru sinni á skjánum, enda ekki langt fyrir hann að skreppa frá Mílanó þar sem hann spilar með fótboltaliðinu AC Mílan.

Eftir æsispennandi fimm tíma langa útsendingu voru það þrjú lög sem komust áfram í súperfínalinn: Ermal Meta með lagið Un milione di cose da dirti, Francesca Michielin & Fedez með Chiamami per nome og rokkbandið Måneskin með Zitti e buoni. Klukkan að verða tvö aðfararnótt sunnudags, tæpum sex tímum eftir að keppnin byrjaði var það svo tilkynnt að Mäneskin stæðu uppi sem sigurvegarar með 53,5% atkvæða úr símakosningu, 33% frá dómnefndinni og 35,2% frá blaðamannadómnefndinni.

Hljómsveitin Måneskin er ekki aldönsk þó að dönskumælandi Íslendingar gætu ályktað sem svo. Bandið er skipað söngvaranum Damiano David, gítarleikaranum Thomas Raggi, trommuleikaranum Ethan Torchio og bassaleikaranum hinni hálfdönsku Victoria De Angelis. Hljómsveitina stofnuðu þau þegar þau voru í menntaskóla. Þegar þau ákváðu að skrá sig í keppni fyrir upprennandi hljómsveitir vantaði nafn á bandið og fengu þau þá snilldarhugmynd um að biðja Victoriu um að þylja upp dönsk orð af handahófi. Þeim leyst best á Måneskin sem hefur ekki dýpri merkingu en það. Ári síðar skráðu þau sig til leiks í 11. seríu af X Factor á Ítalíu þar sem þau lentu í öðru sæti.

Á sunnudaginn var það staðfest að Måneskin hefðu samþykkt að vera fulltrúar Ítalíu í Eurovision í Rotterdam. Lagið Zitti e buoni er strangheiðarlegt ítalskt rokk lag sem verður gaman að sjá hvernig Evrópa fílar.