Nýtt lag valið fyrir Benny frá Tékklandi


Benny Cristo fór með sigur af hólmi í dramatískri undankeppni í Tékklandi fyrir Eurovision í fyrra. Nú hefur tékkneska sjónvarpið valið hann til þátttöku í Rotterdam 2021 og var lagið hans kynnt á dögunum.

Benny Cristo eða Ben Cristovao er fæddur í tékknesku borginni Pilsen. Móðir hans er tékknesk en faðir hans er frá Angóla. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið í hæfileikaþætti í sjónvarpi árið 2009 og þrátt fyrir að hafa dottið út frekar fljótt var hann staðráðinn í að meika það. Hann gaf út sína fyrstu plötu árið 2010, hefur notið sívaxandi vinsælda í Tékklandi og hélt meðal annars stóra tónleika í Prag á síðasta ári þar sem mættu 15 þúsund manns.

Benny er mikill íþróttamaður, var atvinnumaður í tennis og á snjóbretti og hefur unnið til verðlauna í íþrótt sinni; jiu-jitsu. Auk þess er hann virkur í samfélagsverkefni í grunnskólum í Tékklandi sem beinist að því að gera börn og unglinga meðvituð um hættur internetsins. Ekki nóg með það heldur hefur hann einnig verið duglegur vekja athygli á fordómum í heimalandi sínu gegn svörtu fólki og ekki hikað við að benda á útlendingahatur meðal landa sinna. Benny gaf út sína fyrstu plötu árið 2010 og þær eru nú alls fimm talsins.

Í fyrra sigraði lagið hans Kemama (Ókei, mamma) tékknesku undankeppnina. Nú mætir Benny með lagið omaga (útsnúningur á Oh My God!) og spruðlandi ferskt myndband. Í myndbandinu má sjá tilvísanir í frægar kvikmyndir og sjónvarpsþætti eins og The Shining, Dirty Dancing, The Simpsons, Forrest Gump, Pulp Fiction og Grease. Lagið er fantafínt sumardanspopp og það passar því vel að Benny ætlar að taka með sér fjóra dansara á Rotterdam-sviðið.

Benny keppir í sömu undankeppni og Ísland í Eurovision þann 20. maí nk.