Maltneska sjónvarpið PBS hafði ákveðið að nota raunveruleikaþáttinn X Factor Malta til að velja flytjanda fyrir þátttöku þeirra í Eurovision 2020, sem er reyndar búið að aflýsa núna. PBS var þá að fara sömu leið og í fyrra, en Michela Pace var valin úr X Factor Malta þáttunum og komst í úrslit Eurovision. Þátturinn hófst með áheyrendaprufum í byrjun október og beinar útsendingar hófust síðan í janúar. Úrslitaþátturinn var svo þann 8. febrúar síðastliðinn. Tólf atriði voru í úrslitaþættinum, valin úr fjórum hópum. Sigurvegari var hin 17 ára Destiny Chukunyere. Þrátt fyrir ungan aldur er hún ekki óvön söngvakeppnum. Hún vann Junior Eurovisionkeppnina árið 2015 og kom aðeins fyrir í Eurovisionkeppninni 2016. Árið 2017 tók hún þátt í Britain’s Got Talent og endaði í 6. sæti.
Margt er sameiginlegt með Möltu og Íslandi og ekki bara þegar kemur að Eurovision. Báðar þjóðir eru smáþjóðir og eyjaskeggjar. Eurovisionáhuginn er hvergi meiri og götur auðar meðan á keppni stendur. Malta hefur, eins og Ísland, verið með í Eurovision 32 sinnum og árið í ár átti að verða þrítugasta og þriðja skiptið. Þeir tóku reyndar fyrst þátt 1971 en tóku sér gott hlé 1975-1991. Og eins og við er besti árangurinn 2. sætið sem þeir hafa líka náð tvisvar. Ira Losco vermdi 2. sætið árið 2002 með lagið 7th Wonder og Chiara með lagið Angel árið 2005, sem hún söng óaðfinnanlega. Ira Losco tók aftur þátt árið 2016 og Chiara var einnig fulltrúi Möltu í Eurovision 1998 og 2009.
Eftir að Destiny hafði verið valin var fundið lag handa henni. Lagið sem varð fyrir valinu heitir All My Love og er eftir Bernarda Brunovic, Borislav Milanov, Sebastian Arman, Dag Lundberg og Joacim Persson. Bæði Borislav og Joacim hafa áður samið lög fyrir Eurovision eða söngvakeppnir landanna. Cesár Sampson sem vann dómnefndakosninguna fyrir Austurríki 2018 kom svo að því að útsetja lagið með þeim. Þetta er fjörugt og skemmtilegt popplag með Eurovisionlegum texta þar sem rödd Destiny fær að njóta sín.