Árið 2010 voru Þjóðverjar búnir að fá nóg af slöku gengi síðasta áratuginn og fengu Stefan Raab til að poppa upp keppnina í von um góða útkomu þar sem hann hafði náð 5. sætinu árið 2000 en það var besti árangur Þýskalands þann áratuginn. Hann tók áskoruninni og fór svo að ung stúlka með látlaust lag vann Unser Star für Oslo og endaði síðan á vinna stóru keppnina með lagi sínu Satellite.
Síðan þá hefur gengið misvel, Micheal Schulte náði mjög óvænt 4. sætinu með fallegu lagi um föður sinn sem féll frá ungur og Lena náði einnig 8. sæti 2011 þegar keppnin var haldin í Dusseldorf í Þýskalandi. Þetta eru þó undantekningar og yfir höfuð hefur gengið Þýskalands verið dapurt síðustu ár og þeir ítrekað lent í neðstu sætunum. Á síðasta árið lenti svo dúettinn S!sters í næstneðsta sæti, fengu engin stig úr símakosningunni og þá var Þjóðverjunum nóg boðið.
Þeir boðuðu breytingar á þessu ári, nú skyldi lagið valið í innherjakosningu af tveimur dómnefndum sem hvor um sig giltu 50%. Önnur dómnefndin var skipuð dyggum Eurovision aðdáendum en hin svokölluðum Eurovision sérfræðingum, 20 talsins frá ýmsum löndum sem allir höfðu áður verið í dómnefndum fyrir heimalönd sín í Eurovision í gegnum árin. Þannig telja Þjóðverjarnir að þeir séu komnir með prýðisgóða aðferð til að finna gott lag sem skilar þeim betri árangri en tuttugusta og eitthvað sæti.
Fyrir valinu var hinn 22 ára gamli Benjamin Dolić eða Ben Dolic eins og hann kallar sig núna. Hann er fæddur og uppalinn í Ljúblíönu í Slóveníu og sýndi snemma mikla hæfileika á sviði tónlistar. Hann var aðeins 12 ára gamall þegar hann tók þátt í Slovenia Ima Talent þar sem hann komst alla leið í úrslit.
Ben tók þátt í undankeppni Eurovision í Slóveníu EMA árið 2016 með hljómsveitinni D Base með laginu Spet živ. Þeir komust þó ekki áfram í einvígið þar sem ManuElla fór með sigur að hólmi gegn Raven, mörgu Eurovision aðdáendum til mikillar armæðu.
Sama ár flutti Ben með fjölskyldu sinni til Sviss. Þar lærði hann þýsku og fór að máta sig við þýskt tónlistarlíf og flutti til Berlínar. Hann tók þátt í The Voice of Germany 2018 þar sem hann lenti í 2. sæti og í framhaldi af því hélt hann tónleika víðsvegar um Þýskaland og Austurríki.
Þá var komið að Eurovision keppninni sjálfri. Tónlistarverksmiðjan Symphonix fékk Ben til að syngja fyrir sig lagið Violent Thing og skemst er frá því að segja að dómnefndirnar báðar heilluðust af þessum unga manni. Hér er útgáfan sem dómnefndirnar fengu að sjá og dæmi nú hver fyrir sig. Ben og lagið Violent Thing voru að minnsta kosti valin til að vera fulltrúar Þýskalands í Rotterdam í maí.
Hafi fólk áhuga á að kynna sér betur tónlist Ben Dolic er hægt að finna hann undir nafninu Usually Quiet á Youtube og Spotify ef fólk hefur áhuga á að hlusta á tónlist hans.