Ekki í boði ÁTVR – Rúmenía sendir Roxen og “Alcohol You” til Hollands.


Rúmenía hefur boðið okkur upp á ýmiskonar samansull í gegnum tíðina, bæði rosa gott og eins æðislega slæmt, en alltaf eftirminnilegt. Hver man ekki eftir teknósnúðinum Mihai Traistariu og “Tornero”? Nú, eða vampírupabbanum Cezar, sem mætti með túrtappana sína á sviðið? Og ekki má gleyma sómaparinu Ovi og Paulu, sem áttu eitt svakalegasta þriðja sæti seinni ára, með “Playing with fire” þar sem Paula tók háa C-ið upp á nýtt stig! Margs er að minnast, en undanförnum tveimur árum vilja Rúmenar helst gleyma, enda niðurstöðurnar ekkert til að hrópa húrra yfir. Síðast komust þeir í nefnilega í aðalkeppnina með jóðlsteikina “Yodel It!” árið 2017 og ekkert hefur gengið upp síðan þá.

Rúmenska sjónvarpið gerði heljarinnar yfirhalningu á forvali sínu að þessu sinni og í stað þess að vera með hefðbundna forkeppni, var ákveðið að kalla söngkonuna Roxen til leiks sem kjörinn fulltrúa Rúmeníu í Eurovision. Roxen var síðan látin flytja nokkur lög sem áhorfendur og sérvalin dómnefnd kusu á milli og varð það kraftballaðan “Alcohol You” sem varð hlutskörpust á endanum. Virðist lagið falla vel í kramið hjá veðbönkum, því eins og er, situr hún sem fastast í 6. sæti yfir þau lönd sem líklegust eru til að vinna keppnina. Hvort sú verður raunin mun þó koma í ljós seinna meir, og förum við ekki nánar út í veðbankaspár að sinni.

Roxen fékk fimm lög til að flytja á úrslitakvöldi Selectia Nationala 2020 þann 1. mars síðastliðinn. Fyrir keppnina, voru flestir á einu máli um að salsaslagarinn “Cherry Red” væri hið fullkomna lag til að fara með til Rotterdam, enda dansvænt með afbrigðum. Þegar á sviðið var komið leit Roxen út fyrir að nenna þessu hreinlega ekki og flutti lagið á eins óáhugaverðan hátt og mögulegt var. Hins vegar var allt önnur Roxen á sviðinu þegar að flutningi “Alcohol You” kom, og sú sviðsframkoma skilaði laginu í fyrsta sæti, bæði hjá almenningi og dómnefnd. Gárungar segja að Roxen hafi verið ákveðin frá upphafi að fara með  “Alcohol You” til Rotterdam og þess vegna viljandi verið eins og líflaus gína þegar hún söng “Cherry Red” en við seljum það nú ekki dýrara en við keyptum það. Þetta er hin dægilegasta ballaða og fjallar um þennan ákveðna tímapunkt á djamminu eða gardínufyllerýinu þegar við fáum þá “snilldarhugmynd” að hringja full í strákinn/stelpuna sem við erum skotin/n í. Við höfum öll gert það einhvern tímann. Ekki ljúga. Og svo auðvitað svaðalegur austur evrópskur orðaleikur með. Alcohol You = I´ll Call You. Takk fyrir pent, krakkar. Mæli með að þið lesið textann. Hann er náttúrulega bara dásamlegur.

Roxen heitir réttu nafni Larisa Roxana Giurgiu og er aðeins tvítug. Hún skaust upp á stjörnuhimininn fyrir rétt um ári síðan og er því ekki mesti reynsluboltinn í bransanum. Og það pirraði marga reynslumeiri söngvarana í Rúmeníu. Eða bara einn þeirra. Áðurnefndur Tornero-kappinn Mihai Traistariu fór mikinn á samfélagsmiðlum og fann hreinlega allt Roxen til foráttu um leið og hann benti ekki svo vinsamlega á hversu mikið betri kostur hann hefði verið. En forsvarsmönnum TVR var ekki haggað. Eitthvað hafði stelpan greinilega við sig því rúmenska sjónvarpið var snöggt að læsa klónum í hana, þrátt fyrir að hún væri ekki sú sjóaðasta í svæðinu og bjóða henni að keppa fyrir hönd landsins í Hollandi og freista þess að koma Rúmenum aftur í aðalkeppnina. Spurning hvernig Roxen tekst til í Ahoy höllinni, en það er engin vafi á að hún er hæfileikarík og við óskum henni alls hins besta.