Angólskt hip hop í Rotterdam


Úrslitin réðust í Tékklandi í gær og fyrirfram voru aðdáendur búnir að gera ráð fyrir að annað hvort Barbora Mochowa með lag sitt White and Black Holes eða vegan aktívistarnir í We All Poop með lagið All The Blood færu með með sigur að hólmi. Svo fór þó ekki.

Úrslit tékknesku undankeppninnar voru sýnd í beinni útsendingu á facebooksíðu keppninnar og fyrst voru atkvæði alþjóðlegu dómnefndarinnar kynnt. Í þetta sinn var enginn Íslendingur meðal þeirra en í dómnefndinni voru hinir ýmsu Eurovisionfarar síðustu ára eins og Keiino, Miki frá Spáni, kærustuparið unga Zala og Gasper frá Slóveníu, Kristian Kostov sem lenti í 2. sæti á eftir Salvador Sobral og góðvinur okkar frá Eistlandi, Stig Rästa.

Þegar dómnefndarkosningu var lokið var Barbora Mochowa líkt og í fyrra, í fyrsta sæti með og vongóð um að í þetta sinn myndi þetta hafast. Í öðru sæti hjá dómnefnd var Benny Cristo og í þriðja sæti Eliz Mraz feat. Čis T. Hljómsveitin We All Poop sem aðdáendur héldu svo mikið upp á átti ekki upp á pallborðið hjá dómnefndinni því þeir enduðu í sjötta og næstneðsta sæti. En netkosningin átti eftir að breyta öllu.

We All Poop gekk mun betur í þeirri kosningunni og lenti þar í þriðja sæti en í fjórða sæti þegar heildarstig voru lögð saman, Eliz Mrax feat. Čis T var í öðru sæti bæði í símakosningu og í heildarkosningu en greyið Barbora hlaut afhroð í netkosningunni, endaði þar í neðsta sæti og annað árið í röð tapar hún fyrir sigurvegara netkosningarinnar en það var Benny Cristo sem vann hana og var því sigurvegari þegar öll stigin voru reiknuð saman.

Benny Cristo eða Ben Cristovao er fæddur í tékknesku borginni Pilsen. Móðir hans er tékknesk en faðir hans er frá Angóla. Hann kom fyrst fram á sjónarsviðið í hæfileikaþætti í sjónvarpi árið 2009 og þrátt fyrir að hafa dottið út frekar fljótt var hann staðráðinn að meika það. Hann gaf út sína fyrstu plötu 2010 og notið sívaxandi vinsælda í Tékkland og hélt meðal annars stóra tónleika í Prag á síðasta ári þar sem mættu 15 þúsund manns.

Benny er mikill íþróttamaður og hefur unnið til verðlauna í íþrótt sinni jiu-jitsu en auk þess er hann virkur í samfélagsverkefni í grunnskólum í Tékklandi sem beinist að því að gera börn og unglinga meðvituð um hættur internetsins. Ekki nóg með það heldur hefur hann einnig verið duglegur vekja athygli á fordómum í heimalandi sínu gegn svörtu fólki og ekki hikað við að benda á útlendingahatur meðal landa sinna.

Lagið hans, Kemama (Ókei, mamma)  fjallar einmitt um það hvernig það er að alast upp ólíkur  öðrum en vilja samt tilheyra þeirra hópi. Lagið er eins og áður sagði hip hop undir sterkum áhrifum frá angólsku hip hopi nokkuð sem við höfum ekki fengið að heyra áður í Eurovision og ber að fagna því þegar við fáum eitthvað nýtt og ferskt sem víkkar sjóndeildarhring okkar sem elskum Eurovision.