Þá eru fréttaritarar FÁSES.is búnir að koma sér aftur fyrir í blaðamannahöllinni eftir að hafa nært sig og hlaupið heim í hlýrri föt. Ísraelsbúar eru nefnilega ekkert að grínast með loftkælinguna hér í höllinni – og það sama gildir um hljóðstyrkinn. Þeir kunna bara að stilla allt í botn. Við ætlum að fylgjast með dómararennslinu í kvöld og segja frá því markverðasta sem gerist á skjánum. Eins og alþjóð veit gilda atkvæði dómnefnda til helmings á við atkvæði almennings sem koma inn annað kvöld.
Færslan verður uppfærð eftir því sem dómararennslinu vindur fram í kvöld.
Mikið er spáð og spekúlerað hvort dómnefndir hafi fengið fyrirmæli fyrir dómararennslið í kvöld eins og fyrir dómararennslið fyrir seinni undankeppnina. Þá óskuðu framleiðendur Eurovision eftir því að dómnefndir myndu eingöngu taka lagið og frammistöðu keppenda til greina í mati sínu en ekki hvernig það kom út í sjónvarpi. Þrátt fyrir ýmsar bollaleggingar hefur ekkert verið staðfest.
Eins og kom fram í lýsingu okkar á fyrstu búningaæfingunni fyrr í dag byrja úrslit Eurovision á allsvaðalegu fánaatriði með flugþema. Á dómararennslinu í kvöld fékk Hatari miklu minni skjátíma í fánaatriðinu en önnur atriði í kvöld. Þetta minnir okkur óþægilega á að í fyrri undankeppninni eftir að Hatari hafði sungið Hatrið mun sigra var myndatökuskotið beint upp í rjáfur en áhorfendur í stæði ekki myndaðir eins og tíðkast eftir að flytjendur hafi lokið sér af. Við ætlum þó að halda okkur langt frá öllum samsæriskenningum að sinni.
Sergey Lazarev frá Rússlandi á sæmilegt rennsli í kvöld en er aðeins óhreinn í röddinni. John Lundvik og The Mamas eru alltaf með sjarmann í botni og það myndast gríðarlega góð stemning í blaðamannahöllinni þegar menn syngja og klappa með Too late for love. Það þagnar allt í blaðamannahöllinni þegar Duncan Lawrence frá Hollandi mætir á sviðið og fólk stendur upp til að sjá betur á stóra skjáinn. Eins og við sjáum í gær byrjar atriðið mjög hægt og rólega og maður veltir fyrir sér hvort hinn almenni áhorfandi, sem verður að horfa á laugardaginn, muni þykja þetta nægilega aðlaðandi númer. Duncan syngur vel og það er mikið klappað í lok frammistöðu hans.
Norðmennirnir í KEiino eiga góða æfingu. Þau eru greinilega staðráðin að gera sitt allra besta á sviðinu og láta ekki einn og einn myndatökumann sem gleymir að fara af sviðinu í atriðinu þeirra slá sig út af laginu. Við fréttum síðar að norska sendinefndin hefur kvartað yfir þessu og vill fá að flytja lagið sitt aftur. Þeirri kröfu hefur nú verið hafnað af EBU.
Hatari er að það næsta markverðasta á sviðinu og þau eiga mjög gott rennsli. Það helsta sem við tökum eftir að nú er Matthías komin með dekkri augnmálningu en í fyrri undankeppninni. Allt gengur greinilega smurt og samkvæmt áætlun. Bilal frá Frakklandi hefur því miður lagast lítið í hálsinum frá því fyrr í dag en við vonum að hann verði orðinn góður á morgun. Mahmood frá Ítalíu á massa gott rennsli, veit greinilega upp á hár hvenær hann á að toppa og fær gott klapp fyrir sína frammistöðu. Kate Miller-Heidke frá Ástralíu á hreint út sagt frábæra æfingu og gæti verið að raka inn stigum frá dómnefndunum. Spánverjinn Miki lokar síðan kvöldinu með líflegri frammistöðu.
Það verður gaman að sjá hvernig úrslit Eurovision fara á morgun. Googletrends spáir Frakklandi sigri, Íslandi 2. sæti og Rússlandi 3. sæti. Í aðdáendakosningu OGAE varð Ítalía í 1. sæti, Sviss í 2. sæti og Holland í 3. sæti. Þegar þetta er skrifað eru Hollendingar efstir í veðbönkum og á eftir fylgja Ástralía og Sviss. Mest spilaða Eurovisionlagið á Spotify er ítalska framlagið og þar á eftir koma Svíþjóð og Holland.