Mikil eftirspurn og unnið allan sólarhringinn – FÁSES.is ræðir við aðstoðarfararstjóra íslensku sendinefndarinnar


Það er í mörg horn að líta hjá íslensku sendinefndinni þessa dagana hér í Tel Aviv og nóg að gera hjá öllum. Fréttaritarar FÁSES.is hittu Birnu Ósk Hansdóttur, framleiðslustjóra hjá RÚV og aðstoðar fararstjóra, til að heyra hverjir aðrir fylgja listafólkinu hingað út.

Árið í ár er frábrugðið fyrri árum vegna þeirrar gríðarlegu athygli sem íslenski hópurinn hefur fengið. En að vanda eru fagmenn í hópnum og meðal blaðamanna er rætt um það hvað íslenska sendinefndin er alltaf fagmannleg í öllu sem þau gera og hafa gert í gegnum tíðina á Eurovision.

Birna Ósk Hansdóttir

“Stemmingin hjá hópnum er mjög góð og búin að vera frá fyrsta degi. Við erum sjálfsörugg, ánægð með það sem við erum að gera og við höfum gaman af þessu” segir Birna, sem hefur verið í íslensku sendinefndinni frá því árið 2015. Árið í ár er sérstaklega skemmtilegt fyrir hana því þetta er í fyrsta skiptið sem hún er hluti af sendinefndinni þegar við komumst í úrslit. 

Allar þátttökuþjóðirnar senda sendinefnd sem er skipuð fararstjóra (Head of Delegation), aðstoðarfararstjóra (Assistant Head of Delegation), fjölmiðlafulltrúa (Head of Press) og þuli (Commentator). Svo er mismunandi eftir eðli atriðisins hverjir fleiri fylgja með. Til dæmis fylgir íslenska hópnum í ár sviðsframleiðanda, leikstjóri, fréttamaður og tæknimaður.

Fararstjóri hópsins, Felix Bergsson, stýrir hópnum og gigginu fyrir RÚV. “Í því felst í grófum dráttum mikill undirbúningur og samskipti mánuðina á undan við alla úti, við erum saman í því við Felix” segir Birna sem gegnir hlutverki aðstoðarfararstjóra í ár. “Það er mikið af pappírum sem við þurfum að fylla út og allskonar upplýsingar sem við þurfum að skila af okkur. Fararstjórinn stýrir því öllu og er meðvitaður um næstu skref. Þegar kemur að ferðinni sjálfri þá leggur hann upp dagskrána miðað við allar upplýsingar sem hann hefur fengið, alla viðburði  og allt sem við þurfum að mæta á.” Það eru ekki bara æfingar á sviði sem hópurinn þarf að mæta á heldur þarf að prófa hljóðið, skoða hvernig atriðið lítur út á skjánum, förðun og svo allir viðburðirnir sem þarf að mæta á eins og appelsínuguli dregillinn. “Fararstjórinn býr til mjög nákvæma dagskrá sem er nánast bara í míntútum talim. Hvenær er morgunmatur, hvenær eru fundir, æfingar og svo framvegis. Fararstjórinn er líka aðalmaðurinn í samskiptum við EBU og Eurovision.”

“Ég hef það hlutverk að vera aðstoðarfararstjóri. Það getur verið mjög mismunandi milli landa hvernig þessi hlutverkaskipti eru.” Birna er eins og áður sagði framleiðslustjóri hjá RÚV og Söngvakeppnin er þess vegna á hennar könnu. Fyrir ferðalagið er mikill undirbúningur og þarf að huga að mörgu þegar ferðast er með hóp. “Ég sé um allar hótelbókanir, allar flugbókanir, ferðalagið í heild sinni, alla miða og allt svoleiðis.” Svo er Birna fararstjóranum og sendinefndinni innan handar með aðra hluti sem geta komið upp á meðan að á ferðinni stendur. “Það eru líka samskipti heim af því það er mikil framleiðsla í gangi heima þessa daga meðan keppnin er.” Það þarf að líka að koma upplýsingum heim vegna dómnefndarinnar sem starfar heima og svo framvegis.

Fjölmiðlafulltrúi íslensku sendinefndarinnar er Rúnar Freyr Gíslason. “Hann er eins og gefur að skilja í samskiptum við blaðamenn og alla sem vilja nálgast atriðið okkar og það byrjar líka mörgum vikum áður. Það er líka undirbúningur á fjölmiðlaefni ef við erum með svoleiðis sem er rafrænt í ár. Hann er sían og leiðin út og inn fyrir alla sem vilja nálgast listamennina.

Salóme Þorkelsdóttir er sviðsframleiðandi Íslands í Eurovision í ár. Sviðsframleiðandinn gegnir veigamiklu hlutverki og sér um samskipti við framleiðendur Eurovision til að atriðið líti sem best út á skjánum. Salóme ásamt Gísla Berg stýrðu útsendingunni á Söngvakeppninni heima. “Þau hönnuðu myndvinnsluna og allt á atriðinu og þá er eðlilegt að Salóme fylgi því. Hún er aðilinn sem er í beinum samskiptum við tæknifólkið hér.” Undirbúningurinn hófst strax eftir úrslit Söngvakeppninnar enda mikið af upplýsingum sem þarf að skila inn. “Salóme teiknar upp hvernig atriðið á að vera. Hún tekur æfingu þar sem hún mælir allt út og gefur þeim allar upplýsingar um hvað við viljum á sviðinu hvort sem það eru leikmunir eða flugeldar. Í ár erum við mun stærri með það allt sérstaklega það að láta smíða hnötttinn sem er á sviðinu. Salóme var í öllum samskiptum út af því. Sem voru mikil af því að við enduðum á því að þiggja ekki smíði hér í Ísrael heldur ákváðum að smíða heima og senda út.” Birna segir að verðið á sviðsmyndinni hafi verið margfalt lægra heima og þess vegna hafi borgað sig að flytja sviðsmyndina út. Á æfingum sér Salóme um öll samskipti við tæknimennina vegna myndvinnslu, ljóss, hljóðs og svo framvegis.

Hópnum fylgja Björg Magnúsdóttir og Gísli Berg sem sjá um að vinna efni fyrir útvarp, sjónvarp, RÚV.is og samfélagsmiðla. Það er mikið að gera hjá þeim og eru þau í vinnunni allan sólarhringinn til að koma efni heim til Íslands enda mikil eftirspurn eftir fréttum heima. Þulurinn í ár er Gísli Marteinn Baldursson sem auk þess er að vinna efni fyrir útvarp og sjónvarp ásamt þeim Björgu og Gísla Berg. Lee Proud sem leikstýrði Söngvakeppninni er líka með hópnum hérna úti og styður listamennina. Hann fylgir listamönnunum og “tekur þau á allskonar æfingar meira að segja ballet æfingar og allt. Lee hjálpar þeim og styður þau í sjálfu dansverkinu” sem gegnir veigamiklu atriði í listaverkinu.

Hatari er náttúrulega stór margmiðlunarhópur og þeim fylgja búningahönnuðirnir Karen og Andri sem ná varla að sofa því það er svo mikið að gera hjá þeim. Ingi sér um grafík bæði á sviðinu sjálfu og líka á þeim viðburðum sem Hatari hefur komið fram á. Svo eru hér líka umboðsmaður, heimildargerðarfólk og fleiri sem fylgja listamönnunum.

Aðspurð segir Birna ekki mikinn mun fólginn í því að fylgja atriði eins og Hatara í Eurovision heldur en öðrum. “Þetta er alltaf mismunandi og maður getur aldrei ákveðið nákvæmlega hvernig þetta verður næst miðað við hvernig þetta var í fyrra.” Það er svo mikill eðlismunur á því hvernig okkur er tekið. Það vill bara þannig til að Hatari eru mjög vinsæll hér. Við fáum miklu meiri athygli heldur en síðustu ár. Það er sótt mikið í okkur þannig að starf fjölmiðlafulltrúa er öðruvísi. Hann er meira í því að ýta frá heldur en biðja um. Það eru rosa stórir miðlar að sækja í Hatara. Það er öðruvísi miðað við mína upplifun.” En það er svo sem ekkert nýtt enda hefur íslenski hópurinn áður vakið athygli eins og til dæmis árið 1999 þegar nóg var að gera hjá íslensku sendinefndinni.

Í lokin segir Birna að það sé einstakt að vinna með öllu þessu fólki sem hún hefur unnið með í íslensku sendinefndunum í gegnum tíðina. “Þetta er allt alveg frábært fólk og leiðinlegt að við komumst ekki alltaf áfram. En því miður fengum ekki næg atkvæði.”