Nú þegar sjö dagar eru í úrslit Eurovision er rétt að taka smá tíma í að spá í spilin. Það er hægt að velta því endalaust fyrir sér hvernig þetta muni fara en líkt og með pólitík þá er vika langur tími í Eurovision.
Einn þáttur í Eurovision nördismanum er að skoða veðbankana. Veðbankarnir hafa oft gefið góða mynd af því hvernig spilin munu leggjast – en þó ber að taka þeim með ákveðnum fyrirvara. Enda eru þeir sem leggja undir pening í veðmál að leitast við að hámarka endurgjald sitt. Þeir sem veðja horfa til margra þátta til að reyna að spá fyrir um mögulega útkomu. Til dæmis frammistöðu landa í Eurovision sögunni, hverjir kjósa í viðkomandi riðli, rásröðina, hverjir aðrir taka þátt, viðbrögð á miðlum og svo framvegis.
Í gegnum tíðina hefur verið vestur evrópsk slagsíða í veðbönkunum þar sem að flestir sem nýta sér veðbankana eru frá Vestur-Evrópu. Þannig er líklegra að stórar stjörnur úr vestri hafi meiri áhrif á veðbankana heldur en stórar stjörnur frá Austur-Evrópu. Þannig er líklegra að stórstjörnu eins og Bonnie Tyler eða Nicky Byrne séu ofmetnar í veðbönkum heldur en stórstjörnur eins og Dino Merlin sem eru þekktar í Austur Evrópu. Aðdáendur Hatara virðast vera margir í Austur-Evrópu miðað við óvísindalegar rannsóknir blaðamanna FÁSES.is. Til að mynda er Facebook hópurinn “Hatari Band – International fans” sem er tileinkuð Hatara, stjórnað af Svartfellingi og Tyrkja.
Það er alltaf einstaklega skemmtilegt að fylgjast með stöðu veðbankanna á meðan fyrstu æfingar landanna eru í gangi. Venjulega eftir að hvert land æfir í fyrsta skiptið þá fara stuðlarnir á flug eftir því hvernig fólk metur frammistöðuna á sviðinu. Næstu daga munu veðbankarnir ekki taka miklum breytingum fyrr en eftir fyrri og seinni undankeppnirnar þegar áhorfendur heima í stofu fara að leggja undir. Breytingarnar sem verða þá gefa vísbendingar um það hvernig símakosning hjá Vestur-Evrópu hafi farið fram. Margir sérfræðingar sem við höfum rætt við vilja meina að Hatari muni líklega sækja fylgi sitt að miklu leyti í símakosninguna.
Ísland hefur hæst komist í fjórða sæti veðbankanna í ár. Eftir fyrstu æfingu höfum við verið með svipaða stuðla (á milli 25-30) en sviptingar hafa verið á löndunum í kringum okkur svo við höfum verið að skipta um sæti. Í dag eru flestir sem veðja á að Holland muni vinna, þar á eftir koma Svíþjóð, Rússland, Aserbaídsjan, Ítalía, Malta, Sviss, Ástralía, Ísland og í tíunda sæti yfir hverja veðbankarnir telja líklegast að vinni Eurovision er Frakkland.
Sérfræðingar sem fréttaritarar FÁSES.is hafa rætt við segja að Bettfair Exchange stuðullinn sé næmastur og gefi oft vísbendingar um hvað muni gerast í veðbönkunum. Þess vegna finnst okkur líklegt að breytingar sem geti átt sér stað í dag séu að Malta muni fara upp fyrir Ítalíu og Frakkland muni skjótast fram úr Íslandi og í lok dags muni Ísland sitja í tíunda sæti og sitja þar fram að undankeppninni á þriðjudaginn þegar næstu stóru breytingar munu líklega eiga sér stað.
Staða Hatara í Eurovision í ár
Blaðamenn hér í Tel Aviv eru almennt jákvæðir gagnvart atriði Hatara í ár og margir meira að segja svo djarfir að segja að nú sé loksins komið að sigri Íslendinga í Eurovision. Norsku vinkonur FÁSES hjá Good Evening Europe, Guri og Astrid, segja að lag Hatara sé “til þess fallið að ná til sín atkvæðum frá breiðum hópi kjósenda – allt frá börnum sem eru að mótmæla loftslagsbreytingum til amma sem vilja frið í heiminum. Frá dansandi hommunum til sniðgangandi súraldina. Og til okkar allra sem falla þarna á milli einhvers staðar.”
That is bound to resonate well with a broad selection of voters – from the kids protesting for the environment to the grannies protesting for peace. From the dancing gays to the boycotting sour grapes. And to all of us in-between there somewhere. Good Evening Europe
Sharleen Wright hjá ESCInsight er frá Ástralíu og gefur innsýn inn í stöðu mála þar. Í Ástralíu er Eurovision mjög árla á sunnudagsmorgun og það eru einungis hörðustu aðdáendurnir sem vakna til að horfa og kjósa sitt lag. Á sunnudagskvöld safnast fjölskyldur í Ástralíu saman til að horfa á upptöku á Eurovision. Vegna þessa segir Sharleen að hægt sé að treysta á aðdáendakosningu OGAE frá ástralska Eurovision klúbbinum. Þar fékk Ísland 8 stig. Hollendingar fengu 10 stig og Ítalir 12 stig í sömu kosningu en þessi lönd eru ekki að keppa í fyrri undankeppninni, eins og Ísland og Ástralía. Því er ljóst að Ísland á von á einhverri gommu af stigum frá Áströlum!
Síðasta skipti sem við fengum 12 stig í Eurovision var árið 2011 þegar Vinir Sjonna fengu 12 stig frá Ungverjum. Dauðarokk, pönk og teknó metal á mjög upp á pallborðið í Austur-Evrópu og reyndar í Finnlandi líka svo við teljum líklegt að hægt sé að treysta á að Ísland muni hala inn stigum frá þessum þjóðum, sem kjósa í fyrri undankeppninni á þriðjudagskvöld. Sérfræðingar sem við höfum rætt við telja að við getum einnig fengið stig frá Póllandi. Í gegnum tíðina höfum við líka fengið mörg stig frá Portúgal og Spáni og við erum svo heppin að hafa báðar þjóðir með okkur að kjósa í undankeppninni
Að auki ræddum við stöðuna við Peter Fenner úr íslensku sendinefndinni og hann telur að ef við komumst í úrslit sé líklegt að Bretar og Írar kjósa atriði sem skeri sig úr og þess vegna megi Hatari eiga von á stigum þaðan.
Það er mikil jákvæðni hér meðal blaðamanna í Tel Aviv í garð Hatara og við höfum ekki hitt neinn ennþá sem segir að Hatari muni ekki komast áfram í úrslit Eurovision laugardaginn 18. maí. Jafnvel þótt mönnum líki lagið ekki sérstaklega þá eru þeir vissir um að lagið muni gera góða hluti.