Þemu ársins: Karlar og klofstígvél á Instagram


Á hverju ári keppast aðdáendur Eurovision að finna þemu ársins; hvað er það sem einkennir Eurovision þessa árs. Í fyrra var það #metoo, nútíma rauðsokkur, þjóðtungur og etnísk áhrif. FÁSES.is lætur sitt ekki eftir liggja þetta árið og greiningardeildin tekur dýfu í djúpa enda þemalaugarinnar.

Karlmenn

 

Í ár eru 18 karlkyns sólósöngvarar en “bara” 14 söngkonur. Í Eurovision eru þar að auki þrír dúettar og sex bönd. Áður en æfingar hófust hér í Tel Aviv skipuðu karlkyns sólóistar efstu fimm sæti veðbanka; hinn hollenski Duncan, Sergey frá Rússlandi, Mahmood frá Ítalíu, Luca frá Sviss og John Lundvik frá Svíþjóð. Það eru því nokkrar líkur á því að karlmaður vinni í ár!

Instagram þema

Það á greinilega að vera hipp og kúl í ár og tikka í samfélagsmiðlaboxið! Það er vissulega ekkert lag um Facebook (halló San Marínó 2012) eða FaceTime (halló Ástralía 2016) en það eru margir að leika sér með ramma á sviðinu sem líkjast Instagramrammanum. Tékkatríóið leikur sér með rammana í myndatöku, Serhat frá San Marínó er með ramma í bakgrunni, og Miki frá Spáni byrjar númerið sitt í rammgerðu dúkkuhúsi. Svo verðum við líka að minnast á að Zala Kralj & Gašper Šantl frá Slóveníu kynntust í gegnum Instagram.

Störukeppni

Svo virðist sem margir keppendur í Eurovision ár séu í störukeppni við áhorfendur heima í stofu. Hér ber að sjálfsögðu fyrst að nefna Ísland. Oto frá Georgíu er með magnaða sviðsframkomu en henni fylgir stara svo maður fær kaldan svita á bakið. Fyrrnefnt par frá Slóveníu er greinilega ákaflega ástfangið og tekur þriggja mínútna störu við hvort annað. Leonora frá Danmörku blikkaði augunum 24 sinnum á meðan að á flutningi lags hennar stóð sem er aðeins undir meðaltali samkvæmt upplýsingum af Vísindavefnum.

Loftslagsbreytingar

Loftlagsbreytingar eru þema þessa árs eins og #metoo var þema síðasta árs. Finnska lagið Look Away fjallar um hvernig okkur hættir til að horfa framhjá erfiðum málum eins og loftslagsógninni. Hinum hollenska Duncan er greinilega umhugað um náttúruna því hann er í jakkafötum úr endurunnum rúmlökum. Hann  hefur m.a. stært sig af því að þau væru örugglega 100 ára gömul.  Boðskapur belgíska lagsins er að reyna að fá ungt fólk til að vakna til vitundar í fallandi heimi. Í Belgíu er þar að auki stór hreyfing ungs fólks sem berst gegn hnattrænni hlýnun sem Eliot samsvarar sér með.

Klofstígvél

Skóbúnaður keppenda. Samsett mynd WIWI Bloggs myndir: Eurovision.tv

Eins og allir vita fylgir Eurovision nýjustu tísku og tískan í ár er há klofstígvél! Zena frá Hvíta-Rússlandi er í hvítum háum stígvelum, Srbuk frá Armeníu klæðist svörtum stígvélum sem og hin kýpverska Tamta. Alexandra í norska bandinu KEiino var sömuleiðis í einhvers konar útgáfu af klofstígvélum þó ekki hafi þau verið jafnhá og hin. Sebastian frá Finnlandi er síðan í mjög skrýtnum gallabuxum með leðri upp á miðjum lærum svo það lítur út fyrir að hann sé í klofstígvélum. Þetta er að sjálfsögðu fyrir utan ofurflottu stígvélin sem liðsmenn Hatara klæðast á sviðinu hér í Tel Aviv.

Kórónur

Það eru greinilega ekkert nema royalistar í Eurovision árgangnum þetta árið því allir vilja kenna sig við kónga eða drottningar. Serbneska lagið Kruna þýðir kóróna og franskið lagið heitir Roi eða konungur. En við fáum líka að sjá tilkomumiklar kórónur á sviðinu, t.d. hjá hinni áströlsku Kate sem lítur út eins og bandaríska frelsisstyttan. Pólsku stelpurnar í Tulia eru líka með tilkomumikil höfuðföt undir þjóðlegum áhrifum.

Bert á milli

Það eru greinilega nokkrir keppendanna með sama stílistann því allt í einu datt næstum öllum í hug að vera með bert á milli í Eurovision. Hin írska Sarah er rauðu dressi með bert á milli og það sama gildir um Zenu frá Hvíta-Rússlandi. Hin franski Bilal er í hvítu dressi með bert á milli og það sama má segja um Serhat frá San Marínó (þó maður óski sér að hann myndi lyfta hendinni aðeins lægra upp svo það skini ekki í bert hold elsta keppandans).

Öskursöngur

Það eru ýmiss konar áskoranirnar sem áhorfendur Eurovision þurfa að glíma við í ár. Eitt af þeim er öskursöngurinn. Söngtæknin í pólska laginu Fire of Love heitir “Light voice singing” og er hærri söngrödd. Þessi stíll kemur frá verkafólki sem vann á ökrunum í Austur Evrópu. Ef þú vildir að það heyrðist í þér þurftir þú að öskra en síðar þróaðist röddin í þennan háan tón. Þessari tækni fylgir mikill hávaði og þess vegna er þetta stundum kallað öskursöngur. Söngur Oto frá Georgíu fellur einnig í þennan flokk með kraftmiklum flutning á Keep on going. Nevena frá Serbíu og Roko frá Króatíu taka að auki góða spretti á hæstu tónunum þó söngur þeirra flokkist ekki beint undir öskur. Við megum síðan alls ekki gleyma elsku Sergey frá Rússlandi sem syngur lagið Öskur eða Scream. Að sjálfsögðu þarf ekki að minnast á Hatara hér enda fellur söngur Matthíasar eins og flís við rass við þetta þema.

Peningar

Eins og alltaf þá reyna þátttakendur í Eurovision að herma eftir sigurformúlu seinasta árs og árið í ár er engin undantekning. Við sjáum þó enga gaggandi kjúklinga á sviðinu í Tel Aviv. Keppendurnir hafa greinilega sökkt sér í smáatriðin í atriði Nettu og fundu út að á einum stað í laginu má heyra hana syngja um “stefa” sem er slanguryrði yfir peninga. Íslendingar sem kusu Hatara í Sönvakeppninni hafa eflaust tekið eftir þessu smáatriði og þess vegna valið andkapítalíska BDSM teknóhópinn Hatara sem fulltrúa í Eurovision. Mahmood frá Ítalíu syngur lagið Soldi sem þýðir peningar. Lagið fjallar um hvernig peningar geti breytt samskiptum innan fjölskyldna. Loks er Serbía með lag sem gæti verið óður til íslensku krónunnar (Kruna), ætli það setji nokkuð aðildarumsókn Serbíu að Evrópusambandinu í uppnám?

Speglaskjásbakgrunnar

Nokkurs konar speglaskjásbakgrunnar eru áberandi í ár. Svipmynd frá æfingu Rússland. Mynd: Andres Putting.

Nýjasta uppfinningin í Eurovisiondótakassanum eru speglaskjásbakgrunnir. Þetta er greinilega ágætt trix til að sýna fleiri á sviði en sex og um leið hægt að gefa Eurovisionlögum breiðari túlkun. Menn tóku andköf þegar Sergey afhjúpaði speglaskjáina á fyrstu æfingu sinni hér í Tel Aviv – hann mætti í raun með átta auka Sergeya. Nú er ljóst að Tamara frá Norður-Makedóníu notar líka þessa tækni og við sjáum sex auka Tamörur. Að auki sjáum við fimm auka Kobia í atriði Ísraela í ár. Menn ætla greinilega að nýta vel þetta splunkunýja trix!

 

Fyrir utan þessu mörgu þemu ársins fáum við að heyra mikla tungumálafjölbreytni í ár en alls heyrast 18 tungumál í keppninni þetta árið. Allt um það á FÁSES.is von bráðar.

FÁSES.is þakkar Ástríði Margréti Eymundsdóttur kærlega fyrir samsetningu mynda.