Fjórði dagur æfinga í Expóhöllinni


Þá er komið fjórða degi æfinga í Expóhöllinni og í dag æfa löndin sem eru í seinni hluta seinni undankeppninni. Í dag æfa Króatía, Malta, Litháen, Rússland, Albanía, Noregur, Holland, Norðu-Makedónía og Aserbaídjan.

Færslan verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram í dag. 

Roko frá Króatíu

Króatíski Roko á æfingu í dag. Mynd: Andres Putting.

Roko byrjar lagið liggjandi á gólfinu og grafíkin er gyllt og rauð og minnir á rennandi hraun. Roko er í sama fatnaði og í Dora 2019, króatísku undankeppninni, hvítum buxum og hvítum leðurjakka. Hann er með tvo balletdansara með sér á sviðinu sem eru berir að ofan og með gyllta vængi og svífa niður úr loftinu. Í miðju lagi setja þeir einnig gyllta vængi á Roko. Roko er fantagóður söngvari þrátt fyrir ungan aldur en hann er 19 ára gamall en því miður nær hann ekki góðri tengingu við áhorfendur. Balletdansararnir eru greinilega í einhvers konar línu því þeir svífa upp sviðið í lokin. Myndatakan er mjög góð og einkennist af hröðum klippingu sem er kannski frekar óvenjulegt fyrir ballöður. Á heildina litið kemur atriði Króata vel út og það er nokkuð mikið klappað í blaðamannahöllinni fyrir frammistöðu þeirra.

Michela frá Möltu

Fulltrúi Möltu á æfingu í dag. Mynd: Andres Putting.

Menn höfðu beðið í nokkurri eftirvæntingu eftir að sjá lagið Chameleon á sviði enda lofaði það góðu. Það eru blendnar tilfinningar meðal blaðamanna í garð landsins, sumir voru ánægðir en öðrum ekki skemmt. Atriðið byrjar í anda myndbandsins Take on me og við sjáum enn einu sinni instagramramma. Michela er hvítklædd á sviðinu í nokkurs konar Don Cano jakka og ljóst að hún er ljósklædd svo hægt sé að varpa litríkum ljósum og bakgrunni á hana og sviðið Hún er með fjóra dansara með sér á sviðinu og þau standa í hálfum v-laga kassa. Sviðið skiptir litum ótt og títt og breytist m.a. í ríki hafsins og frumskóg. Það er mjög skemmtilegt að sjá einnig kamelljón bregða fyrir í grafíkinni Söngur Michela er misjafn og lítill samhljóður með bakröddunum til að byrja með en fer batnandi eftir því sem rennslunum fjölgar. Hún virðist ekki að njóta sín á sviðinu en það verður að taka með í reikninginn að Michela er ballöðusöngkona og vön að koma fram í síðkjólum svo þetta er töluvert langt frá hennar þægindarramma.

Jurij frá Litháen

Fulltrúi Litháens á æfingu í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Jurij er einn á sviðinu og bakraddirnir eru greinilega einhvers staðar bak við. Hann er svartklæddur og ljós og bakgrunnur eru gylltur og hvítur. Hann brosir lymskulega til áhorfenda sem eflaust gæti hrifið eldri konur víðsvegar um Evrópu. Jurij gælir við myndavélina og myndatakan einkennist af nærmyndunum. Söngurinn er þokkalegur en það eina sem vantar til að gera þetta klisjukenndara er ef það væri ljón að hlaupa í bakgrunninum. Jurij fær ekkert klapp í blaðamannahöllinni og er frekar líklegt að fólk nýti þetta númer til að fara á klósettið.

Sergey Lazarev frá Rússlandi

Sergey Lazarev á fyrstu æfingu 7. maí 2019. Mynd: Thomas Hanses/Eurovision.tv

Það er mikil spenna fyrir rússenska atriðinu hér í Expóhöllinni – mun Sergey gera það sama og Dima Bilan gerði um árið og vinna Eurovision í annað skipti sem hann tekur þátt? Við sjáum Sergey einan á sviði og að sjálfsögðu er hann í sigurlitnum sjálfum, hvítu. Á sviðinu eru LED speglaskjáir sem rússneska sendinefndin hefur væntanlega tekið með sér til Tel Aviv og á þeim sjáum við átta gervi-Sergeya í allskonar tilkomumiklum stellingum til viðbótar við hinn eina sanna. Síðan tekur Sergey sér stöðu fyrir aftan glerskjá sem rignir mikið á, kannski tilfinningasturta – hver veit? Hann leggur höndina á glerið og það kemur far eftir hana – það hefur augljóslega verið lagt mikið í atriðið. Sergey er aðeins mistækur í söngnum en það lagast með hverju rennsli. Eftir vel heppnaða æfingu fær Sergey mjög gott klapp í blaðamannahöllinni, það mesta sem við höfum séð hingað til og jafnast á við lætin sem Svíinn John Lundvik fékk eftir sína æfingu í gær. Á heildina litið er þetta algjört gæsahúðaatriði og ljóst að hér er sviðsetning að lyfta mjög nokkuð auðgleymanlegu lagi.

Jonida frá Albaníu

Jonida frá Albaníu á fyrstu æfingu í Tel Aviv. Mynd: Thomas Hanses/Eurovision.tv

Jonida syngur strangheiðarlega balkanballöðu og sviðsetningin er eftir því. Jonida er ein á sviðinu og stendur á einhvers konar palli svo svarti síðkjóllinn með gylltu skreytingunum njóti sín til fulls. Jonida er næstum því í upphlut – fær örugglega mörg stig frá íslenska Heimilisiðnaðarfélagið. Þrátt fyrir bótox varirnar tekst henni að skila laginu mjög vel frá sér. Við fáum gimmik, skjáhrif (e. on screen effect) í formi arnar sem stækkar og stækkar þangað til hann yfirtekur skjáinn.

KEiino frá Noregi

Norðmenn æfa í Expóhöllinni. Myndin: Thomas Hanses.

Þjóðlagarpopptríóið með samasönginn Tom, Alexandra og Fred eða gay spice, blondie spice og sami spice eins og einhverjir eru farnir að uppnefna þau. Tom og Fred standa á landganginum fyrir framan sviðið og Alexandra er ein þar. Þau eru öll svartklædd sem gerir atriðið myrkt. Fred er í leðurbuxum og svörtum samajakka sem er víst sérstakt því þeir eru yfirleitt mjög litríkir. Fred syngur jókhluta lagsins en það er elsta óbreytta sönghefð í Evrópu. Alexandra skartar síðum hárlengingum í tagli eins og Svala gerði um árið í Kænugarði. Við ferðum um óljós fjöll og fyrnindi í bakgrunnium og litirnir eru eins og í mörgum atriðum þetta árið eru litir rúmenska fánans í fyrirrúmi; gulur, rauður og blár með smávegis norðurljósablæ. Í fyrsta rennsli Norðmanna fáum við hljóð en mynd vantar en svo fáum við loks að sjá tvö almennileg rennsli. Það kemur fólki ekki hér á óvart að Norðmenn nota vindvélina (í fyrsta skipti í Eurovision í ár), við sjáum mikinn reyk á sviðsgólfinu og nóg af eldtungum. Söngur tríósins er nokkuð góður en Fred á erfitt með hæstu nóturnar. KEiino fær mikið klapp að launum fyrir æfingu sína hér í blaðamannahöllinni.

Duncan frá Hollandi

Duncan frá Holland á æfingu í dag. Mynd: Thomas Hanses.

Það dettur allt í dúnalogn hér í blaðamannahöllinni fyrir æfingu Hollands, svo spenntir eru menn fyrir æfingu Duncan. Hann situr við einhvers konar afbrigði skemmtara og píanós í bláum hörfötum sem koma ekkert sérlega vel út í sjónvarpi. Myndatakan einkennist af löngum skotum út í sal svo við erum að veðja á að áhorfendur verði beðnir um að kveikja á vasaljósum á símum sínum. Söngur Duncan er mjög góður en það er fátt annað sem vekur athygli í atriðinu. Í síðasta rennslinu er Duncan þó farin að líta meira í myndavélina og er það vel. Leysigeislum er líka bætt við í restina en það gerir ekki gæfumuninn. Það vantar greinilega eitthvað upp á heimavinnu Hollendinga því það vantar alveg VÁ hlutann í atriðið.

Tamara frá Norður-Makedóníu

Norður-Makedónía æfir á sviðinu í Expóhöllinni í fyrsta skipti. Mynd: Thomas Hanses.

Tamara mætir á sviðið í grænum satínkjól með svartri blúndu á höndum en þetta er í fjórða skipti sem hún stendur á Eurovisionsviðinu. Makedónar mæta til Tel Aviv með sömu sviðsetningu og Rússar, speglaskjáina, og við sjáum sex gervi-Tamörur á sviðinu. Myndatakan er hröð á köflum og í bakgrunni sjáum við myndir af konum, m.a. Tamöru og dóttur hennar í síðasta skotinu. Tamöru tekst vel upp í söngnum og það er klappað fyrir henni í lok fyrsta rennslisins.

Chingiz frá Aserbaíjan

Aserbaíjan á æfingu í dag. Mynd: Andres Putting.

Ó hvar eigum við eiginlega að byrja? Hér er sko allt í gangi svo það er best að hefja upptalninguna. Chingiz er svartklæddur (svolítið í stíl við fatnað Cesar Sampson) fyrir framan stórt biðskyldumerki sem skiptir litum og hjartagrafík er varpað á brjóst Chingiz (væntanlega fengið að láni frá Svíum 2015) af tveimur vélmennum (halló San Marínó 2018) sem virðast framkvæma hjartaaðgerð á Chingiz. Chingiz krýpur og fellur við eins og hann hafi stigið á legókubb. Í bakgrunni sjáum við gyllt hjarta. Tilkomumikill geysir kemur upp úr gólfinu og heilmynd Chingiz lyftist með honum. Þetta er nú meira Íslandsþemað í ár, ef menn eru ekki í hatara-inspired búningum sjáum við norðurljós og nú geysir. Chingiz er nokkuð stöðugur í söngnum en strögglar helst við falsettuna. Það kemur fólki hér á óvart að engir flugeldar eða eldtungur eru í atriði Aserbaíjan, land eldsins! Á heildina litið mjög flott æfing hjá Aserum og hann fær gott klapp í blaðamannahöllinni.