Fimmtíu ár frá fjórföldum sigri


Í dag er merkisdagur. Það er liðin hálf öld síðan eina Eurovisionkeppnin var haldin sem gaf af sér fleiri en einn sigurvegara. Keppnin var haldin í Teatro Real á Madrid á Spáni 29. mars 1969. Kynnir keppninnar var Laurita Valenzuela og hún byrjaði eins og algengt var þá á að ávarpa gesti á ýmsum evrópskum tungumálum. Sumum þátttökulöndum leist illa á að taka þátt í keppni í landi undir stjórn einræðisherrans Francos, en á endanum var það bara Austurríki sem var ekki með. Þetta var önnur keppnin sem var sýnd í lit og gaman að sjá hvað margir keppendur eru klæddir í litrík föt. Einnig var sviðið skreytt með litríkum blómum. Það var einmitt í vikunni þegar þessi keppni var haldin sem John Lennon og Yoko Ono voru í rúminu í viku til að stuðla að friði og hefur þess verið minnst undanfarna daga. Meðal keppanda var 12 ára drengur, Jean Jaques sem keppti fyrir Mónakó. Hann er yngsti Eurovisionkeppandinn fyrr og síðar sem hefur verið í aðalhlutverki. Einnig var hópur (grúppa) skráður sem flytjandi í fyrsta sinn, Muriel Day ásamt The Lindsays fyrir hönd Írlands. Atriðið frá Portúgal er einnig í uppáhaldi hjá mörgum, Simone de Oliveira með lagið Desfolhada Portugesa.

Það var mikið hringlað með stigakerfið þessi fyrstu ár keppninnar. Það fór því þannig þetta árið að sigurvegararnir urðu fjórir, allir með 18 stig! Sextán þjóðir kepptu og 25% þeirra unnu! Þess ber að geta að stigakerfinu var áfram breytt næstu ár, en núverandi kerfi var komið á árið 1975. Það hefur verið notað óbreytt í 40 ár og frá 2016 hefur það verið notað tvöfalt.

En þá að þessum sigurlögum. Fyrst er það Lenny Kuhr frá Hollandi með lagið De Trubadour. Lenny er fædd árið 1950 og var því nýorðin 19 ára þegar keppnin fór fram. Lenny var áfram í skemmtanabransanum næstu árin, var meðal annars kynnir á söngvakeppninni í Hollandi árið 1982. Það eru ekki mörg Eurovisionlög sem minna á hippatímann, en þetta er eitt af þeim. De Trubadour fékk þann heiður að vera lag númer 200 sem var flutt í Eurovision.

Frida Boccara flutti lagið með Un Jour, Un Enfant eða Einn dagur, eitt barn fyrir hönd Frakka. Frida fæddist 29. október 1940 í Casablanca í Morrokkó. Hún var því 29 ára þegar keppnin fór fram. Þess má geta að undirrituð á einnig þennan afmælisdag og deilir honum stolt með Fridu. Hún hafði einnig tekið þátt í söngvakeppninni í Frakklandi árið 1964 sem var forval fyrir Eurovision, en komst ekki áfram þá. Hér er á ferðinni ekta frönsk eðal ballaða. Frida lést 1. ágúst 1996.

Þá er það Lulu frá Bretlandi með Boom Bang-A-Bang. Lulu er fædd árið 1948 og er með þekktari Eurovisionkeppendum. Hún vakti fyrst athygli þegar hún söng stuðlagið Shout árið 1964. Þremur árum síðar söng hún titillagið í kvikmyndinni To Sir With Love. Árið 1974 söng hún titillag James Bond myndarinnar The Man With The Golden Gun. En hér er þetta hressa og skemmtilega lag og ekki skemmir lífleg framkoma eða kjóllinn hennar fyrir.

Síðast en ekki síst er það Salomé eða Maria Rosa Marco eins og hún heitir í raun með lagið Vivo Cantando! eða Ég lifi fyrir að syngja! Spánverjar urðu þarna fyrstir þjóða til að vinna tvö ár í röð. Salomé er fædd árið 1939 og fangar áttræðisafmæli þann 21. júní næstkomandi. Hún hljóðritaði Vivo Cantanto á átta tungmálum; spænsku, katalónsku, basnesku, frönsku, þýsku, ítölsku, ensku og serbó-króatísku. Hún var trúlega fyrst Eurovisionkeppenda til að gera það og hafa margir leikið þann leik eftir þetta. Til hamingju með daginn!