Mynd: Thomas Hanses
Eins og í gær ætlum við hjá FÁSES.is að fjalla um það sem fram kemur á blaðamannafundunum eftir æfingar keppenda í dag. Dagurinn hjá keppendum sem æfa í dag hefst á hálftíma inneyra æfingum baksviðs. Þá halda keppendur upp á stóra sviðið þar sem þeir fá æfingu í hálfa klukkustund með útsendingarteyminu. Eftir sviðsæfinguna fá keppendur að sjá atriðið sitt á tuttugu mínútu löngum fundi í áhorfs herberginu. Að honum loknum er fundur með smink ráðgjöfum. Samfélagsmiðlar Eurovision eiga svo stefnumót með keppendum í 35 mínútur og í lokin er svo blaðamannafundur í tuttugu mínútur þar sem blaðamenn fá að kynnast keppendum nánar.
Í þessum pistli munum við fara yfir það helsta frá blaðamannafundum dagsins. Pistillinn verður uppfærður eftir því sem líður á daginn. Löndin sem æfa í dag eru F.J.L. Makedónía, Króatía, Austurríki, Grikkland, Finnland, Armenía, Sviss, Írland og Kýpur
F.J.L. Makedónía – Eye Cue
Nafn hljómsveitarinnar Eye Cue var valið því það var minnst hallærislegasta nafnið sem kom til greina. Önnur nöfn sem komu til greina voru Keep the changes og No preservatives. Eye Cue er tíu ára gamalt band en söngkonan Marija gekk síðar til liðs við bandið eftir að hafa verið valin í gegnum áheyrnarprufu. Í áheyrnarprufunni söng Marija lagið Don’t you remember. Að mati Bojan söng Marija lagið betur en Adele og þess vegna bauðst Mariju að koma í bandið en ekki Adele. Bojan er snjóbrettakappi og elskar að skíða í Aussturrísku ölpunum. Textinn við lagið var saminn á ensku og Bojan segir það hafi aldrei verið spurning um að lagið yrði á ensku. Lagið er eins og það sé samsett úr þremur lögum og Bojan segir að þeir sem upplifi lagið þannig geti verið þakklátir fyrir að fá þrjú lög á verði eins. Fyrsta rennslið á æfingunni gekk ekki alveg nógu vel. Þau segja að það hafi verið vegna þess að framleiðsluteymið vildi prófa mismunandi hluti. Texti lagsins Lost and found fjallar um það þegar Marija týndi lyklunum af íbúðinni sinni. Mánuði seinna rétt áður en lagið var valið til þátttöku fann Marija lyklana sína í bílnum. Bojan fannst það vera lukku merki og fannst það frábær hugmynd að texta.
Króatía – Franka
Franka elskar Eurovision og hefur tvisvar reynt að verða fulltrúi Króata í Eurovision. Hún horfir alltaf á Eurovision og hefur sérstakt dálæti á Alexander Rybak og hlakkar mikið til að hitta hann, sérstaklega eftir að hann gerði fiðlu ábreiðu af laginu hennar. Fyrsta æfingin hennar gekk vel og hún segir að vindvélin sem hún notar í atriðinu færi henni orku. Hún skrifaði texta lagsins en langar að taka þátt aftur með eigið lag. Franka er að læra lögfræði og á eftir tvö próf. Hún hefur sérstakan áhuga á alþjóðalögum og mannréttindum. Kærastinn hennar er í landsliði Króatíu í fótbolta sem við Íslendingar munum mæta í sumar og auðvitað er hann uppáhaldsleikmaðurinn hennar í landsliðinu. Fyrirmynd Frönku í tónlist er faðir hennar sem sagði við hana þegar þau horfðu á keppnina 2013 að hún ætti að vera ein á sviðinu ef hún myndi keppa einhvern tímann í Eurovision eins og hinn ítalski Marco Mengoni.
Austurríki – Cesár Sampson
Cesár var ánægður með hvernig gekk á æfingunni í dag. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann tekur þátt í Eurovision því hann aðstoðaði Búlgaríu síðast liðin tvö ár með Poli Gonovu og Kristian Kostov sem náðu besta árangri sem Búlgarir hafa náð, það er fjórða og annað sæti. Það var ekki draumur hjá Cesári að keppa í Eurovision en eftir að hann komst á bragðið árin 2016 og 2017 varð hann mjög spenntur yfir því að fá að taka þátt í Eurovision fyrir heimalandið sitt Austurríki. Cesár kemur af listafólki, mamma hans er tónlistarmaður og faðir hans er dansari. Þegar Cesár var 10 ára gamall hóf hann tónlistarferil en um tvítugt fór hann að læra félagsráðgjöf því hann hefur ástríður fyrir að hjálpa fólki. Seinna lærði hann íþróttafræði en er kominn í hring og farinn að einbeita sér að tónlistinni að nýju. Hugmyndin að laginu kviknaði í Stokkhólmi árið 2016 þegar fyrsta lína lagsins kom til þeirra, þannig að lagið hefur verið í gerjun í tvö ár. Í byrjun árs 2017 breytti blaðamannafulltrúi Búlgara sem sá um twitter aðganginn hans lykilorðinu að aðgangnum í IwillrepresentAustria og það gekk eftir – ári síðar var hann valinn til að vera fulltrúi Austurríkismanna. Cesár gerir sér grein fyrir því að til að geta komið fram og gert það vel þarf hann að hugsa vel um sjálfan sig eins og í íþróttunum. Hann þarf að æfa, undirbúa sig, hvíla vel og svo framvegis. Jólatré eru ekki í uppáhaldi hjá honum og segist Cesár vera mikill náttúruunnandi og lítur svo á að mannfólkið eigi ekki að höggva tré til að gera eitthvað svo tilgangslaust eins og að skreyta stofuna fyrir jólin. Cesár nýtur þess að vera tónlistarmaður og mun gefa út fimm lög á þessu ári eftir að keppnin er búin. Ekki er langt síðan að Austurríkismenn héldu keppnina og þeir eru tilbúnir að halda keppnina aftur segir fararstjóri austurríska hópsins. Þeir eru líka mjög öruggir um að þeim muni ganga vel í ár og Cesár fókusar núna á að koma atriðinu vel frá sér því að sé það eina sem geti klikkað svo þeir komist áfram.
Grikkland – Yianni Terzi
Draumur hennar frá því hún var lítil að taka þátt í Eurovision og draumurinn hennar er orðinn að veruleika. Hún vonar að vinna Eurovision í ár og segir að allir sem taki þátt í keppni vilji vinna keppnina. Oniro mou er fyrsta lagið hennar sem hún semur á grísku. Hún saknaði Grikklands eftir að hafa búið í Bandaríkjunum í 10 ár og þess vegna langaði hana að syngja lag á grísku. Yianni hafði lengi dreymt um að búa í Bandaríkjunum til að semja popp tónlist. Þar kynntist hún fullt af góðu fólki sem að hefur hjálpað ferlinum hennar. Faðir hennar er tónlistarmaður sem hún telur hafa verið gott fyrir sig en hún vill vinna sig upp á eigin verðleikum ekki vegna þess hver faðir hennar er. Skilaboðin í laginu hafa ekkert með pólitík eða efnahagsástand landsins að gera. Blái liturinn er mikilvægur fyrir Grikki og þess vegna er blái liturinn allsráðandi í atriðinu hennar. Í atriðinu hennar er hún með bláa hendi sem er vísun í það að hún sé sterk grísk kona, en ekki auglýsing fyrir sjálfstæðisflokkinn. Hvíti kjóllinn sem Yianni klæðist á sviðinu er vísun í hinar fjölmörgu styttur sem finna má um allt Grikkland. Yianni segir að evrópski tónlistarmarkaðurinn sé á eftir hinum bandaríska markaði. Það er miklu erfiðara fyrir tónlistarfólk í Evrópu að koma sér á framfæri um allan heim heldur en bandaríska listamenn því allur heimurinn horfir til þess sem er að gerast í Bandaríkjunum.
Finnland – Saara Aalto
Saara var mjög brött þó að æfingin hafi ekki gengið að óskum. Það voru tæknilegir erfiðleikar á æfingunni en hún segir að það sé gott til að halda uppi spennunni. Í atriðinu í Lissabon notar hún hluti sem þekkja má úr hinum lögunum sem hún söng í undankeppninni heima og blandar þeim saman. Í finnsku undankeppninni þurfti hún að passa að hafa hvert lag einstakt en getur hér blandað saman atriðunum. Í atriðinu snýr hún sér á hvolf og syngur þannig og Saara segist elska að syngja á hvolfi og finna blóðið flæða um líkamann og í höfuðið. Hún elskar að taka áhættu því lífið er þannig og maður á ekki að vera hræddur að taka áhættu. Upprunalega hugmyndin af atriðinu var að hún myndi enda með sægaffal/heykvísl á sviðinu en hún vildi það ekki þar sem það myndi minna of mikið á Lordi. Hún ætlar samt að hafa pyró í lokin á atriðinu sem minnir óneitanlega á endann í atriði Lordi. Saara ætlar að gifta sig í sumar og segir það hafa verið mikið frelsi fyrir sig að koma út úr skápnum. Áður en hún kom út úr skápnum hafði hún verið í sambandi með konu í heilt ár. Í dag getur hún stolt sagt að hún sé ánægt í lífinu og finnst hún loksins geta andað. Henni líður eins og hún sé ekki bundin af neinum reglum lengur og hún getur gert hvað sem hún vill og ekkert geti stöðvað hana. Hún hefur lent fimm sinnum í öðru sæti í keppnum sem hún hefur tekið þátt í og myndi glöð taka við öðru sæti í Eurovision. Ki Fitzgerald sonur Scotts Fitzgeralds sem lenti í öðru sæti fyrir Breta í Eurovision fyrir 30 árum er einn af höfunum lagsins með henni – enn eitt til að styðja velgengni lagsins. Saara á afmæli þann 2. maí – en hún var búin að gleyma því þar sem hún hefur haft svo mikið að gera. Saara er mikil tungumála manneskja og söng lagið sitt Monsters á 34 tungumálum og birti á Youtube á dögunum. Fyrir nokkrum árum kom Saara fram á tónleikum í Kína og söng þá oft á kínversku. Í lok blaðamannafundarins tók Saara lagið á kínversku.
Armenía – Sevak Khanagyan
Sevak talar ekki ensku en var með túlk með sér á blaðamannafundinum. Fyrsta æfingin gekk vel hjá honum og Sevak líður vel á sviðinu með tækniliðinu. Þrátt fyrir að hafa tekið þátt í mörgum keppnum segist Sevak ekki vera mikill keppnismaður. Hann hefur meðal annars keppt í sjónvarpsþáttum í Rússlandi og Úkraínu og verið þjálfari í Voice í Armeníu. Honum líkar betur að vera keppandi heldur en dómari því hann á erfitt með að gagnrýna. Melovin frá Úkraínu og Sevak þekkjast frá því Sevak tók þátt og vann úkraínusku útgáfuna af Voice. Það var einmitt Melovin sem afhenti Sevak sigurverðlaunin eftir að Sevak vann Voice í Úkraínu. Sevak hefur ferðast vítt og breytt um Evrópu til að kynna lagið sitt Qami, en ferðin til Ísrael stóð upp úr fyrir honum. Qami er fyrsta lagið sem er eingöngu á armensku í Eurovision. Það er mikilvægt fyrir Sevak að syngja á armensku og honum finnst Eurovision útgáfan af laginu vera besta útgáfan til að koma laginu á framfæri og velur þá útgáfu fram yfir remixið. Sevak hefur vakið athygli fyrir klæðaburð en hann segist ekki vera að fylgja tískunni heldur er hann alltaf klæddur í föt sem honum finnast þægileg. Sonur Saveks er mikill söngvari og á sér draum um að verða söngvari, en Sevak vill ekki hafa áhrif á hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór.
Sviss – ZiBBS
Systkinin Corinne og Stefan skipa hljómsveitina ZiBBS. Þau hafa starfað saman í 10 ár og voru með raunveruleikaþætti sem gekk í fimm þáttaraðir frá 2011 til 2015 um lífið þeirra þegar þau bjuggu í Los Angeles. Áður en þau stofnuðu hljómsveitina bjuggu þau í sitthvoru landinu. Corinne bjó í London og Stefan í Sviss. Þetta var fyrir tíma Skype svo systkinin hringdust á milli landa og sömdu lög í gegnum síma. Stefan segir að það mæði meira á Corinnu á sviðinu þar sem hún hleypur um sviðið eins og hún sé að taka þátt í maraþoni. Þau vilja breyta heiminum til góða og nota þetta tækifæri til að koma einhverju áleiðis. Það eru sjálfsvíg alla daga sem eru tilkomin vegna eineltis og fólks sem að hefur lágt sjálfsálit. Systkinin vilja að fólk komi betur fram við aðra og ekki síst við sjálfan sig – því maður á að tala fallega við sjálfan sig í speglinum. Allir hafa upplifað að vera rifnir niður og við áttum okkur ekki á því að við eigum það öll sameiginlegt. Systkinin segja að hluti af því að vera listamaður í dag sé að vera í samskiptum við aðdáendur á samfélagsmiðlum og þess vegna leggja þau mikið upp úr að svara skilaboðum sem þeim berast. Þau hafa eignast marga góða vini í gegnum þátttöku sína í Eurovision (eru meðal annars góðir vinir Ara og félaga). Í Madrid þegar margir af þátttakendunum komu saman til að kynna lögin sín á dögunum gleymdi Corinna að strauja kjólinn sinn. Mikolas frá Tékklandi kom til bjargar og straujaði kjólinn fyrir hana svo ZiBBS gátu komið fram. Þó að systkinin komist ekki áfram í úrslit ætla þau að halda áfram að vinna saman.
Írland – Ryan O’Shaugnessy
Ryan byrjaði að leika 8 ára gamall í sápuóperu og lék í henni þangað til að hann var 17 ára gamall. Þannig að þegar hann hætti hafði hann eytt hálfri ævinni í að leika. Hann hætti að leika eftir að honum voru boðnir gull og grænir skógar fyrir að ganga til liðs við hljómsveit. Þegar hann áttaði sig á því að loforðin stóðust ekki þá hætti hann í hljómsveitinni. Ryan líkir laginu sínu Together við lagið Rock ‘n‘ roll kids sem Írar unnu með árið 1994. Með atriðinu vill Ryan undirstrika að ást sé ást sama hverjir eigi í hlut. Írland hefur ekki verið með í úrslitum frá árinu 2013. Ryan segist ekki finna fyrir pressu um að koma áfram í úrslit, en á sama tíma finna þau fyrir pressu um að hafa gaman af þátttökunni í Eurovision. Rússar hótuðu því að banna að sýna tónlistarmyndbandið við lagið hans vegna þess að í atriðinu er samkynhneigt par að dansa. Ryan hefur verið að ferðast um Bandaríkin og komið þar fram og hefur hann verið mikið á flakki á milli álfanna síðast liðna mánuði. Guðfaðir Ryans og frændi er Gary O‘Shaugnessy sem tók þátt fyrir Íra fyrir sautján árum. Gary hefur gefið Ryan fullt af góðum ráðum þar á meðal að reyna ekki of mikið og njóta þess að keppa í Eurovision. Lagið samdi hann í samtarfi við Mark Caplice og Laura Elizabeth Hughes á klukkustund.
Kýpur – Eleni Foureira
Eleni mætir sterk til leiks hér í blaðamannafundatjaldinu í hvítu galladressi og rauðum glansstígvélum merktum Fuego. Henni er hrósað fyrir frammistöðuna í dag og hún segir frá því að það sé erfitt að dansa og syngja á sama tíma – hvað þá fjórum sinnum í röð á æfingu! Eleni elskar lagið sitt og segist hafa fallið fyrir því við fyrstu hlustun. Hún er voðalega glöð að vera komin í Eurovision, stærsta „show“ í heimi og að það sé frábært að það sé hægt að fara á eitt svið og öll Evrópa, og jafnvel heimurinn sé að fylgjast með. Það er áhugavert að geta þess að allir dansarar Eleni eru sænskir. Sviðsbúningur Eleni kom til tals en hann er hannaður af sama manni og vinnur með þekktum stjörnum eins og Beyoncé og Jennifer Lopez. Búningurinn er ekki eins þægilegur og hann lítur út fyrir að vera því hann gefur ekki mjög mikið eftir – þá vitum við það! Eleni lék á alls oddi og tók t.d. brot úr Golden Boy (Ísrael 2015) á grísku (endilega kíkið á það á FÁSES snappinu; fasessnap). Þeir sem fylgdust með velheppnuðu æfingu Kýpverja í dag verða ekki hissa á að komast að því að atriðið hafi verið byggt utan um sviðið í Lissabon. Farastjóri Kýpur var spurð hvort þau væru tilbúin að halda Eurovision – og að sjálfsögðu eru þau það og vonast til að lenda í topp fimm í Eurovision í ár.