Jii, þetta er bara alveg að fara bresta á, krakkar! Tvær vikur í fyrstu æfingar og allt að gerast. Niðurtalningin yfir keppendur ársins er alveg að verða búin, og nú er komið að næst seinasta pistlinum. Vindum okkur í þetta.
San Marínó – Who we are – Jessica feat. Jenifer Brening.
Já, San Marínó. Þau eru nú alltaf svo hress í þessu oggoponsulitla ríki þarna í Apenninne fjöllunum, sem er umvafið Ítalíu á nánast alla kanta…held ég. Æi, við erum heldur ekki í landafræði. Eurovision var það, heillin! San Marínó mætti fyrst á svæðið árið 2008 með lagið “Complice”, sem flutt var af Miodio, sem þá var ein vinsælasta hljómsveit landsins. Eitthvað var nú Evrópa ekki að kveikja á snilldinni sem þetta lag er (hlutlaust mat) og úthlutaði San Marínó seinasta sætinu í undanriðlinum. Bú, Evrópa! En sanmaríneska? Sjónvarpið var alveg sultuslakt í sambandi við Eurovision og tók sér strax tveggja ára hlé frá keppninni og bar við fjárhagsörðugleikum. En aftur komu þeir árið 2011 og gerðu engan skandal, hvorki góðan né slæman. En svo kom árið 2012 og þýski Júrórisinn Ralph Siegel ákvað að “hjálpa” San Marínó á þessari erfiðu för sinni í átt að velgengni. Úr varð lagið “Social Network Song” eða bara Facebook-lagið einsog flestir þekkja það. Algjört flopp, rosa skrítinn texti, ennþá skrítnara sviðsdæmi með lækni, flugstjóra og ég veit ekki hvað og hvað… en rúsínan í pylsuendanum var söngkonan sjálf. Hin eina sanna Valentina Monetta þreytti þarna frumraun sína á Eurovisionsviðinu fyrir hönd San Marínó. Fyrsta skiptið af fjórum, hvorki meira né minna! Takk fyrir takk. En hún Valentina er algjört yndi og varla til sá Eurovision aðdáandi sem ekki elskar þessa ofurhressu píu í drasl! Enda er hún ennþá eini keppandinn sem komið hefur San Marínó í aðalkeppnina, en það gerði hún með bravúr árið 2014 með laginu “Maybe” og svo er hún bara svo fjandi almennileg þessi elska. Hún er þó fjarri góðu gamni í ár, og til leiks eru mættar vinkonurnar Jessica og Jenifer Brening, með teknórapp danssamsuðuna “Who we are”, sem er ádeila á einelti og sendir þau skilaboð að við eigum öll að fá að vera eins og við erum. Halelúja fyrir því. Sanmaríneska? sjónvarpið ákvað að fara aðra leið í vali sínu á framlagi og keppenda, en fram að þessu hafa lögin verið valin innbyrðis. Blásið var til keppninnar 360° og gátu vongóðir listamenn hvaðanæva úr heiminum sótt um að fá að vera með. Síðan voru haldnar einhversskonar Idol-prufur þar sem valinkunn dómnefnd, sem innihélt m.a fararstjóra San Marínó (Head of delegation) og þótti það nokkuð undarlegt að Felix Bergsson þeirra í Sanmaríneringa? skyldi vera svona mikið með puttana í valinu, en nóg um það. Sigurvegarar voru á endanum Jessica og Jenifer, sem báðar eru þýskar. Jessica syngur en Jenifer rappar af miklum móð. Lagið er hresst, þrátt fyrir tilfinningaþrunginn boðskap og mættu þær m.a.s. með lítil og krúttleg vélmenni á sviðið. Vonandi að þau fái að fara með til Lissabon! Hvort þær Jessica og Jenifer komi smáríkinu upp úr forkeppninni, verður að koma í ljós, en heilt yfir eru menn ekki mjög bjartsýnir á velgengni San Marínó í ár. En vonum það besta…
Sviss – Stones – ZibbZ
Árið í ár markar tímamót í sögu Sviss í Eurovision. Það eru í fyrsta lagi liðin heil 30 ár síðan að ung og óþekkt kanadísk söngkona að nafni Celine Dion, sigraði keppnina með naumindum í Dublin árið 1988. Hvað ætli hafi annars orðið um þá skvísu…? En 2018 er líka árið sem Eurovision-heimurinn missti hina ástsælu Lys Assia, en hún var fyrst til að vinna keppnina árið 1956, einmitt fyrir hönd Sviss. Blessuð sé minning þeirrar góðu konu. Hin frábæra setning hennar: “It was fun. I won” eru orð sem ávallt má kíma yfir og fá pínu kökk í hálsinn líka. Lys var drottningin og hana nú! En Sviss hefur verið svolítið mikið týnt í keppninni um árabil. Seinast létu þeir eitthvað að sér kveða árið 2005, þegar eistneska stelpuhljómsveitin Vanilla Ninja kom Svisslendingum í 8. sætið í aðalkeppninni, en síðan tók við asskoti langt þurrkatímabil, sem entist þar til 2014 þegar síflautandi sjarmatröllið Sebalter skaut þjóðinni aftur upp í aðalkeppnina og í 13. sætið. En síðan þá hefur hvorki gengið né rekið hjá aumingja Sviss. Landið hefur ávallt haldið í hlutleysi sitt í heimsmálum, og það viðhorf virðist hafa smitast yfir í Eurovision feril þeirra líka. Já, þeir hafa bara verið allsvakalega hlutlausir og stundum komið með ótrúlega vond lög. Skemmst er að minnast grey rakarans árið 2004, með lagið “Celebrate” sem hefur oftar en einu sinni hlotið þá vafasömu nafnbót að hafa verið “Versta lag allra tíma í Eurovision”. Ekki gott á ferilskránni. En í ár virðist sem Svisslendingar nenni ekki lengur að standa í einhverju hlutleysi. Þeir eru greinilega orðnir hundleiðir á ömurlegu gengi og ákváðu því að senda systkinadúettinn ZibbZ fyrir hönd landsins til Lissabon. Þau heita réttum nöfnum Corinne og Stefan Gfeller en kalla sig Coco og Stee. Systkinin skipta tíma sínum milli heimalandsins og Los Angeles, en núna er það Evrópa sem fær að njóta þeirra og lagsins “Stones”, sem líkt og lag San Marínó, fjallar um einelti. Lagið er í senn rokkað og dansvænt, og gjörólíkt því sem Svisslendingar hafa hingað til sent í keppnina. Sterkur taktur, flottur texti og skýr skilaboð. Svo ekki sé minnst á hversu ótrúlega svöl hún Coco er! Þeir sem fylgst hafa með ZibbZ systkinunum á samfélagsmiðlum geta verið sammála um að þau eru hrikalegir stuðboltar bæði tvö og það á án efa eftir að vera svakalegt partý í kringum þau í Lissabon. Veit ekki með ykkur, en undirrituð stefnir allavega á að fá sér stóran öllara með þeim!
Georgía – For you/Sheni gulistvis – Ethno Jazz Band Iriao
Georgía er sennilega afslappaðasta þjóðin í fyrrum Sovétríkjunum. Allavega hvað við kemur Eurovision. Ólíkt nágrönnum sínum í Armeníu og Aserbaídsjan, eru Georgíumenn langt frá því að vera með flekklausan feril hvað varðar að komast áfram. Þrisvar sinnum hafa þeir setið eftir í aðalkeppninni síðan þeir hófu leika árið 2007 og einu sinni hafa þeir tekið hlé, en það gerðu þeir árið 2009. Þá var keppnin haldin hjá gömlu herraþjóðinni Rússum en löndin höfðu átt í bitrum deilum um landssvæðið Suður Ossitíu og var lengi vafi á því hvort Georgíumenn gætu yfirhöfuð tekið þátt. En þeir tilkynntu þó þátttöku engu að síður. Það ár átti söngsveitin Stefane & 3G að fara til Moskvu með lagið “We don´t want to put in”. Skemmst er að segja frá því að Rússar snöppuðu og töldu þjóðina vera að hæðast að þáverandi forsætisráðherra landsins, sjálfum Vladimir Putin, og kröfðust þess að textanum yrði breytt. Georgíumenn sögðu bara nei, ypptu öxlum og drógu sig úr keppni. En nóg um það. Georgía hefur hæst komist í 9. sætið í aðalkeppni en það gerðu þeir bæði árin 2010 og 2011. Þrátt fyrir fremur rysjótt gengi í gegnum árin, hefur Georgía ekkert verið að stressa sig eitthvað svakalega, og koma alltaf með nýjar nálganir á hverju ári. Þeir eru einhvern veginn alltaf ferskir. Svona oftast nær. Í fyrra komust þeir að vísu ekki áfram, með raddfimleikadívuballöðuna “Keep the Faith”, sem sungin var af fyrrum meðlimi Stefane & 3G, henni Tamöru Gachechiladze, eða Tako, eins og henni datt án alls djóks, í hug að kalla sig á tímabili. Ooog brandararnir flæddu, Tako hafði ekki húmor fyrir því og til að bæta gráu ofan á svart, var hún alveg laus við ungmennafélagsandann og var bara engan veginn sátt við að hafa ekki komist áfram. Hún tók kast, segjum bara eins og er. Greyið. En hún er samt bara undantekningin sem sannar regluna um afslappaða Georgíubúa, því keppendurnir í ár eru eins slakir og mögulegt er. Þetta eru félagarnir í Iriao, sem er þekkt band í heimalandinu fyrir að blanda saman þjóðlegum georgískum söngstíl og rólegum jazzi. Lagið fellur algjörlega að þeim tónlistarstíl sem vann keppnina í fyrra. Það er nákvæmlega ekkert “fast food” dæmi hér á ferðinni. Textinn er sungin á georgísku og það er í fyrsta skipti sem tungmálið heyrist í Eurovision, þ.e. af einhverju viti, þar sem jókerinn Anri Jokhadze söng fyrstu línurnar í framlagi Georgíu árið 2012 á georgísku. En það var frekar vont lag, svo við ræðum það ekki meir. “For you” eða Sheni gulistvis” eins og það heitir á frummálinu er rólegt og seiðandi og strákarnir í Iriao eru greinilega ferlega slakir og glaðlyndir fýrar. Þeir hafa sjálfir sagt að þeir séu ekki “in it to win it”. Þeir hlakka bara rosalega til að kynnast nýju fólki, mynda ný tengsl, heimsækja önnur lönd og bara hafa gaman! Allt umfram það sé bara risabónus. Þeir eru svona “mundu ferðalagið, ekki áfangastaðinn” týpur. Dásamlegt!
Næst seinasti pistillinn um lög og keppendur ársins hefur runnið sitt skeið. Afslappaður þjóðlagadjass, taktfast soul popp og dansrapp. Í næsta og seinasta pistli verður fjallað um Írland, Aserbaísjan og Ástralíu og svo er það bara Lissabon! Vúhú!