Finnar senda fleiri skrímsli í Eurovision


Síðasta haust tilkynnti finnska ríkissjónvarpið, YLE, að hin þrítuga Saara Aalto hefði verið valin til að vera fulltrúi Finna í Eurovision 2018. Saara þessi er nokkuð þekkt meðal Eurovision aðdáenda. Hún hefur tvisvar sinnum lent í öðru sæti Uuden Musiikin Kilpailu (UMK), undankeppni þeirra Finna. Fyrst árið 2011 með lagið Blessed with Love og síðan 2016 með lagið No fear. Saara lenti einnig í öðru sæti í The Voice of Finland árið 2012 og er meðal annars þekkt fyrir að tala inn á teiknimyndir, t.d. fyrir Önnu prinsessu í Frozen. Saara öðlaðist aftur á móti heimsfrægð með þátttöku sinni í The X Factor UK árið 2016 þar sem hún, jú þið giskuðu rétt, lenti í 2. sæti. Þar gerði Saara garðinn frægan m.a. með því að taka lag Bjarkar Guðmundsdóttur, Oh So Quiet. Nú er svo sannarlega komið að upprisu Saara í Eurovision í Lissabon og ljóst að miklar væntingar eru gerðar til þessarar hæfileikaríku söngkonu.

Finnar hafa eins og Íslendingar ekki riðið feitum hesti frá Eurovision undanfarið þrátt fyrir að hafa sigrað keppninni eftirminnilega árið 2006 með Hard Rock Hallelujah Lordi skrímslanna frá Rovaniemi. Síðustu þrjú árin hafa þeir ekki komist upp úr undankeppninni og besti árangur þeirra síðustu tíu árin er 11. sæti Softengine drengjanna árið 2014.

Síðasta laugardagskvöld flutti Saara Aalto þrjú lög, Monsters, Domino og Queens, í einni úrslitakeppni. Lögunum hafði verið mjatlað út einu í einu síðustu þrjár vikur og ekki laust við að Eurovision aðdáendur hafi setið á sætisbrúninni að bíða eftir næsta lagið. Mikið var lagt í undankeppni Finna í ár, hellingur af leikmunum á sviðinu og flugeldar eins og við höfum aldrei séð fyrr. Finnar eru greinilega að undirbúa sig strategískt fyrir látlausa sviðið í Portúgal.

Fyrir keppnina var almennt talið að sigurstranglegasta lagið væri Monsters þar sem það hafði hlotið mesta mesta spilun af lögunum þremur. Eftir að lögin höfðu verið flutt á sviði var álit margra að Domino hefði borið af í sviðsetningu. Í því atriði var Saara á sviðinu með fimm risastórum dómínókubbum sem hreyfðust. Um miðbik lagsins festi Saara sig við einn þeirra, tókst á loft og snerist í 360 gráður, án þess að sjálfsögðu að slá nokkuð af í söngnum. Ekki skemmdi heldur fyrir velgengni Domino að einn lagahöfunda þess er Thomas G:son sem er að sjálfsögu maðurinn á bak við Euphoria smellinn hennar Loreen.

Á meðan á kosningu stóð flutti Melanice C, íþróttakryddið úr Spice girls, lagið “I turn to you” en Saara hefur margsinnis talað um dálæti sitt á Kryddpíunum. Fyrirkomulag keppninnar var hefðbundið og vógu atkvæði almennings til jafns á við atkvæði alþjóðlegrar dómnefndar. Í dómnefndinni sat meðal annarra okkar eigin Hera Björk sem setti Domino í efsta sætið. Í lok kvölds kom í ljós að almenningur og alþjóðlega dómnefndin voru sammála um að Monsters yrði framlag Finna í Lissabon í maí.

Lagið Monsters er eftir söngkonuna sjálfa, Joy Deb, Linnea Deb og Ki Fitzgerald en margir ættu að kannast við Joy og Linnea enda hafa þau staðið á bak við margann Melodifestivalensmellinn. Linnea Deb og Joy Deb eru að auki lagahöfundar hetjanna hans Måns Zelmerlöw frá 2015. Eftir flutning lagsins var grínast með að Monsters væri finnsk útgáfa af Heroes, svona sérstök Lordi útgáfa! Monsters stefnir hraðbyri í að verða þjóðsöngur alls hinsegin fólks enda myndbandið við lagið mjög kynsegin. Lagið er fyrirtaks danspopp og fjallar um að hætta að hlusta litlu skrímslin í höfðinu sem ala á sjálfsóöryggi, vera ákveðin og láta þessa innri djöfla ekki stjórna sér.