Selecția Națională 2018 – Rúmenska undankeppni Eurovision

Rúmenar buðu í ár upp á eina stærstu undankeppni sem haldin hefur verið fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. 60 lög kepptu í 5 undanriðlum víðsvegar um landið þar á meðal í saltnámu í borginni Turda sem er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður í Rúmeníu og trúlega einn exótískasti staður nokkur undankeppni Eurovision hefur verið haldin í. Upp úr hverjum undanriðli komust áfram þrír keppendur af 12 sem keppa síðan til úrslita í 15 laga úrslitariðli 25. febrúar (í kvöld) í höfuðborginni Búkarest.

Meðal keppenda voru ýmis kunnugleg andlit, þar á meðal Mihai sem við þekkjum vel frá Eurovision 2006 þegar hann tók þátt í keppninni með lagið Tornero.

Einnig spreytti Alex Florea sig aftur enda náði hann besta árangri Rúmena síðan 2010 ásamt Iliincu í fyrra með Yodel! Þar sem Ilinca var ein af dómurum þessa árs þá hefði maður haldið að Alex myndi fljúga inn í úrsliting en nei, hún gaf lagi hans og flutningi lága einkunn sem varð til þess að hann komst ekki áfram, hugsanlega minnug kossins alræmda frá síðasta ári.

Eins og áður sagði þá voru það 15 lög sem komust áfram í úrslitin og það er fjölbreyttur hópur laga og flytjanda. Hvort eitthvert þeirra muni gera enn betur en Alex og Ilinca verður að koma í ljós í Lissabon en í kvöld munu eftirfarandi listamenn og lög keppa um heiðurinn að koma fram fyrir hönd Rúmeniu í ár.

Alexia og Matei unnu fyrsta undanriðilinn með lagið sitt Walk on water. Alexia hefur unnið til verðlauna fyrir píanóleik þótt hún sýni ekki þá hæfileika núna og Matei hefur lengið verið í rokkbandi. Þau hittust fyrir ári síðan og í kjölfar gríðarlegra vinsælda Alex og Ilincu ákváðu þau að mynda dúett og senda inn lag.

Rokkbandið Echoes tekur þátt í fyrsta sinn í undankeppni Eurovision með lagið lagið Mirror. Lagahöfundur þeirra Liviu Ekeles er þó enginn nýgræðingur á þessu sviði en þetta er fjórða tilraun hans að komast alla leið.

Eduard Santha tók þátt í undankeppninni í fyrra með etnópopplagið Wild Child. Nú er hann mættur aftur með eitt skrautlegasta atriði keppninnar, rómalagið Me Som Romales sem hann flytur að mikilli innlifun og tapar nokkrum tölum í leiðinni. Þetta er lag sem fólk annað hvort hatar að elska eða elskar að hata.

Jukebox ft Bella Santiago vann annan undanriðilinn með laginu Auzi cum bate. Jukebox er ein vinsælasta hljómsveit Rúmeníu og hafa starfað saman í 18 ár. Þeir tóku einnig þátt í undankeppninni 2016 þar sem þeir töpuðu fyrir Ovidiu Anton en svona eftir á eru þeir líklega mjög ánægðir með þá útkomu en það ár var Rúmeníu bannað að taka þátt vegna skulda rúmverska ríkissjónvarpsins við EBU.

Rafael & friends flytja lagið We are one komust einnig áfram í öðrum undanriðlinum. Rafael er þekktur söngvari í Rúmeníu og hefur unnið til verðlauna fyrir söng. Hann tók sér þó ár til íhugunar í klaustri til að ákveða hvort söngurinn væri það sem hann vildi leggja fyrir sig eða ekki.

MIHAI tók eins og áður sagði þátt í Eurovision fyrir hönd Rúmeníu árið 2006 og lenti þar í fjórða sæti. Hann vill þó endurtaka leikinn og reyndi að komast áfram í fyrra en lenti í öðru sæti á eftir Alex og Ilincu og nú reynir hann hann enn og aftur með laginu Heaven. Athygli vekur að lagahöfundar þessa lags eru meðhöfundar lags Fókushópsins í hinni íslensku Söngvakeppni. Tekst þeim að vera með tvö lög í Lissabon?

Erminio Sinni og Titziana Camelin unnu þriðja undanriðilinn með ballöðunni All the love away. Erminio er virtur tónlistarmaður sem hóf feril sinn aðeins 12 ára gamall. 18 ára gamall fluttist hann til Ítalíu þar sem hann hefur meðal annars tekið þátt í San Remo keppninni nokkrum sinnum auk þess sem um nokkurra ára skeið samdi hann lög fyrir ítalska fótboltalandsliðið. Í þessu lagið fékk hann til liðs við sig söngkonuna Titziönu enda hafa Rúmenar góða reynslu af því að velja dúetta til þess að syngja fyrir sig í Eurovision

Xandra komst einnig áfram í úrslitin með hið mjög svo viðeigandi lagaheiti Try enda er þetta í þriðja sinn sem hún reynir að komast í Eurovision. Lagahöfundar eru hinir sömu og hjá MIHAI og Fókus. Þeir hafa verið ansi duglegir í ár.

Vyros er fæddur í Moldóvu, vel menntaður í tónlist og hefur unnið til hinna ýmsu verðlauna fyrir söng sinn og tónlist. Hann komst áfram með lagið La la la sem auðvelt er að söngla með þó svo að lag hans sé á rúmensku.

Hljómsveitin The Humans vann fjórða undanriðilinn með laginu Goodbye. Þau leggja mikla áherslu á að þau séu ekki að skapa verksmiðjulög heldur koma lög þeirra frá hjartanu. Það er spurning hvort Salvador sé samþykkur því að þeirra tónlist sé ekki yfirborðskennt rokk…

Teodora Dinu flytur lagið Fly og vonast eftir betri útkomu en þegar hún tók þátt í undankeppninni í Rúmeníu árið 2016 þegar hún var ein af bakraddasöngvurum Ovidiu Anton og taldi að hún væri á leiðinni í Eurovision allt þar til örfáum vikum fyrir keppnina að þeim var bannað að taka þátt sökum fyrrnefndra skulda RTV.

Dora Gaitanovici er ung listakona sem spilar á píanó og saxófón auk þess að vera hin frambærilegast söngkona og lagahöfundur. Hún komst áfram í lokakeppnina með eigið lag, Fără tine.

Claudia Andas vann fimmta og síðasta undanriðilinn sem haldinn var í saltnámunni. Rætur hennar eru í rokki eins og má heyra í lagi hennar The One en þó hefur hún meðal annars komið fram með sinfóníuhljómsveit Seoul en maður hennar er frá Suður-Kóreu og hefur hún sterk tengsl við landið.

Lagið Desert de sentimente sem tónlistarmaðurinn Tiri flytur er eitt umdeildasta framlagið í rúmensku undankeppninni. Eftir að í ljós kom að hann hafði komist áfram í undankeppninni kærði annar tónlistarmaður hann fyrir lagastuld en í laginu koma fyrir línur úr frægu klassísku tónverki eftir 19. aldar listamanninn Ciprian Porumbescu. Rúmenska ríkssjónvarpið mat það hins vegar svo að þetta væri ekki höfundarverkastuldur vegna aldurs tónverksins og því mun Tiri taka þátt í lokakeppninni með lagið sitt.

Síðasta lagið sem valið var inn í úrslitin er Bună de iubit með söngkonunni Feli. Hún skaust upp á stjörnuhimininn með lagið Cine te crezi og í framhaldið var hún tilnefnd til evrópsku tónlistarverðlauna MTV árið 2015 og 2016. Hún er feikivinsæl í heimalandi sínu. Hins vegar gætu áhorfendur af hinni frábæru 80’s kynslóð fundist lagið ansi kunnuglegt enda minnir það mjög mikið á Walk like an Egyptian með kvennasveitinni The Bangles.

 

Í undankeppnunum fimm var það dómnefndin sem réði hvaða lög komust áfram í úrslit. Í lokakeppninni hafa þeir hins vegar ekkert vægi því símakosning mun skera úr um hvaða lag vinnur og mun verða framlag Rúmeníu í Lissabon í ár. Vinsælust á Youtube eru stóru nöfnin Jukebox, MIHAI og Feli sem tekur alla aðra í nefið þegar kemur að áhorfi. Spekingar virðast líka flestir veðja á að það verði Feli eða Jukebox sem vinni í kvöld.

 

Rúmenska úrslitakeppnin fyrir Eurovision verður haldin í kvöld sunnudaginn 25. febrúar og hefst kl. 19.00 að íslenskum tíma. Hægt verður að horfa á keppnina á Youtube og á vefsíðu TVR. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur þessa skemmtilegu keppni.