Eftir að hafa handvalið keppendur til að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir hönd Frakklands undanfarin ár ákvað franska ríkissjónvarpið að vera með undankeppni í þetta sinn og gefa almenningi kost á að velja fulltrúa Frakklands í Eurovision 2018. Hugsanlega kom þessi ákvörðun í kjölfar mikillar velgengni Amirs, keppenda Frakka árið 2016. Lag hans varð gríðarlega vinsælt í Frakklandi og öðrum Evrópulöndum eftir þátttöku hans þrátt fyrir að lenda aðeins í 6. sæti í sjálfri keppninni, sem reyndar er besti árangur Frakka í keppninni frá árinu 2002. Var lag hans J’ai cherché eitt vinsælasta lagið í Frakklandi 2016 og hlaut Amir fjölda verðlauna fyrir það.
Frakkland hefur tekið þátt í Eurovision frá upphafi keppninnar og fimm sinnum unnið. Það er þó orðið langt síðan að þeir unnu síðast en það var árið 1977 þegar Marie Myriam vann með lagið “L’oiseau et l’enfant”. Sumir telja reyndar að Frakkar hefðu átt að vinna árið 1991 þegar söngkonan Amina fékk jafnmörg stig og sænska júróvisjóndrottningin Carola en var úrskurðuð önnur þar sem hún hafði hlotið færri tíur en Carola. Frakkar eru því orðnir þyrstir í velgengni.
Form undankeppninnar er ekki ósvipað hinum ýmsu söngvarakeppnissjónvarpsþáttum sem hafa verið vinsælir undanfarna áratugi. Þrír dómarar, títtnefndur Amir, fransk- kanadíska söngkonan Isabelle Boulay og Christophe Willem vinsæll franskur söngvari, segja álit sitt á flutningi og lögum og gefa keppendum stig sem og erlendir gestadómarar. Almenningur fær ekki að kjósa fyrr en í lokakeppninni en þá munu atkvæða þeirra vega 50% á móti tíu manna dómnefnd. Í dómnefndinni munu sitja fyrrnefndir þrír dómarar en sjö koma erlendis frá, þar á meðal frá Íslandi.
Haldnir hafa verið tveir undanriðlar og upp úr þeim komust samtals 8 keppendur sem keppa til úrslita um sigur laugardaginn 27. janúar. Sigurvegarinn mun síðan keppa fyrir hönd Frakklands í Lissabon 12. maí. Keppendur sem keppa nk. laugardag eru:
Emmy Liyana sem vakti fyrst athygli í sjónvarpsþættinum The Voice en datt frekar fljótt út. Nú vonast hún til þess að heilla frönsku þjóðina með laginu Ok ou KO.
Igit er annar keppandi sem kom einnig fyrst fram í The Voice eins og Emmy. Hann mætir með klassískt franskt lag sem hefði alveg eins getað verið í framlag Frakka fyrir 40 árum eins og núna og það án þess að vera gamaldags. Svona líkt og hinn portúgalski Salvador.
Lisandro Cuxi langar eflaust meira en marga aðra keppendur að vinna og taka þátt í Eurovision í Portúgal. Hann er nefnilega fæddur og uppalinn í Lissabon til 9 ára aldurs þegar foreldrar hans fluttu til Frakklands. Hann vann The Voice á síðasta ári og hefur átt velgengni að fagna síðan. Eitt vinælasta lag hans er með skemmtilega tengingu við annan keppanda í undankeppninni, Émilie Satt en hún samdi það ásamt öðrum lagahöfundi.
Louka, þótt ótrúlegt megi virðast hefur ekki tekið þátt í The Voice. Hann kemur inn í undankeppnina sem skjólstæðingur gríðarlega vinsæls fransks rappara, Maitre Gims, sem samdi lagið Mamma Mia fyrir hann. Það er spurning hvort vinsældir Maitre Gims munu hjálpa Louka í keppninni.
Madame Monsieur er franskt popp-par sem lengi hafa samið lög fyrir aðra listamenn en ákváðu nú að taka þátt í undankeppni Eurovision með eigið lag. Lagið Mercy fjallar um og heitir eftir lítilli stúlku sem fæddist í flóttamannabát á Miðjarðarhafinu en móðir hennar flúði átökin í Líbíu. Lagið fjallar einnig um að það er alltaf von svo framarlega sem mannkynið sýnir miskunn.
Malo eða Malory Legardinier er ungur franskur tónlistarmaður sem tekur þátt í undankeppninni með lagið Ciao. Margir telja hann vera undir áhrifum frá Coldplay í lagi sínu en við Íslendingar myndum þó frekar telja að áhrif frá Jónsa og Sigurrós séu sterkari.
Max Cinnamon er aðeins 16 ára gamall og yngsti keppandi í Frakklandi í ár. Það þarf þó ekki að koma að sök því hæfileikaríkum krúttbúntum á borð við hann hefur oft gengið vel. Max hefur spilað á hljóðfæri og sungið frá unga aldri og tekur hér þátt með lag sem hann samdi sjálfur.
Nassi er lagahöfundur sem hefur samið lög fyrir þekkta listamenn á borð við hjartaknúsarann Kendji Girac og fleiri. Honum er því ekki úr skotaskuld að semja einn hittara fyrir Eurovision sem hann og gerði og flytur sjálfur í þetta sinn. Það er spurning hvort honum takist að fara alla leið með Rêves de gamin.
Spekingar telja líklegast að baráttan verði milli Lisandro með lagið Evu og Madame Monsieur með Mercy. Það verður gaman að sjá hvort þeir hafa rétt fyrir sér en lokakeppnin fer fram á sjónvarpsstöðvunum France2 og TV5Monde. Fyrir okkur sem ekki höfum aðgang að þeim stöðvum verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu á Eurovision Facebooksíðu France2.