Operación Triunfo: Spánverjar keyra í gang.


Æ æ, aumingja elsku Spánn. Þeir hafa ekki riðið feitum hesti frá keppninni undanfarin ár, og hafa hæst komist í 10. sæti á undanförnum 16 árum og hafa, þrátt fyrir að hafa verið með nánast frá byrjun, aðeins unnið keppnina tvisvar. Árið 1968 kom Massiel með lagið “La La La” og rétt hafði sigur fram yfir hjartaknúsarann Cliff Richard. Árið eftir deildi svo Spánn efsta sætinu með Bretlandi, Hollandi og Frakklandi og var það síðastnefnda landið sem fékk heiðurinn af því að halda keppnina árið eftir, en reglunum var breytt í framhaldinu til þess að svona pattstaða kæmi ekki upp aftur. En síðan Spánn hafði hreinan sigur fyrir 50 árum síðan, hefur hvorki gengið né rekið hjá þessari flottu þjóð, þrátt fyrir að hafa komist í topp þrjú sætin nokkrum sinnum á því tímabili.

Lengi vel framan af voru Spánverjar með innbyrðisval á keppanda og lagi, en seinustu þrjú árin hafa þeir verið að færa sig meira í áttina að forkeppni heima við, en þó með öðrum brag en við þekkjum hér. Í ár er það hæfileikaþátturinn Operación Triunfo, sem er nokkurs konar blanda af Fame Academy og The Voice, sem að þjónaði þeim tilgangi að finna fimm flotta keppendur, sem síðan berjast um miðann til Lissabon þann 29. janúar næstkomandi. Eftir að hafa verið í nokkurs konar æfingarbúðum, fóru keppendur áfram í undanúrslitaþætti þar sem haldin voru söngeinvígi uns aðeins fimm söngvarar stóðu eftir en það eru þau Amaia, Alfred, Aitana, Miriam og Ana Guerra sem að fá tækifæri til að keppa fyrir hönd Spánar. Agoney var síðasti keppandinn sem datt út eftir æsispennandi söngeinvígi á móti Ana Guerra, en hann fær samt að taka þátt sem partur af dúett og nú er loksins komið að því að velja bæði söngvara og lag. En valið er ekkert beint í mark og borðleggjandi. Ó nei. Þetta er heljarinnar ferli með alls kyns dúllum og blúndum. Öll nema Agoney munu koma fram sem einsöngvarar og þá hvert og eitt með það lag sem samið var fyrir þau sem mögulegt framlag Spánverja. Síðan er búið að skipta þeim niður í þrjá dúetta, og þeir dúettar flytja önnur þrjú lög sem líka eru möguleg framlög. Síðast en ekki síst munu þau öll koma fram sem hópur með enn eitt lagið, sem einnig er einkennislag Operación Triunfo 2018. Eftir að keppendur hafa flutt öll níu lögin, eru það áhorfendur sem að kjósa og efstu þrjú lögin fara áfram í svokallaðan súperfínal þar sem verður svo aftur kosið á milli þeirra og úrskurðaður sigurvegar. Flókið? Já, smá og við viðurkennum það alveg.

Í fyrra var það hinn hárprúði og afslappaði Manel Navarro sem að stóð uppi sem sigurvegari Objetivo Eurovision, sem var forval Spánar það árið, þó svo að glöggir áhorfendur og sérfræðingar hafi bent á öööööörlítinn formgalla á því vali, eins og frægt er orðið. Endanlegt val stóð á milli Manel með lagið “Do it for your lover” og Mirelu með “Contigo”, en stúlkan sú var mikið eftirlæti aðdáenda sem og almennings á Spáni og þótti nokkuð örugg með fyrsta sætið. En svo bregðast krosstré. Manel og Mirela voru hnífjöfn að stigum og einungis einn dómari átti eftir að skera úr um sigurvegara. Sá reyndist, þegar betur var að gáð, vera umboðsmaður Manel, og að sjálfsögðu setti hann sinn mann beint í fyrsta sætið og var að sjálfsögðu algjörlega hlutlaus. Allt varð brjálað í sjónvarpssal, á netmiðlum og í spænskum dagblöðum. Manel greyið átti fullt í fangi með að viðhalda trausti landa sinna (jæja, hann hafði það nú svo sem aldrei alveg) og stóð fast á sínu, með loforðum um að standa sig vel og vera Spáni til sóma. Það klikkaði aðeins, því eins og flestir muna, brast drengstaulinn í hálfgert hanagal á ögurstundu í Kænugarði. Spánn endaði í 26. og seinasta sæti með einungis fimm stig, og Manel fór beygður maður aftur heim. Æ, elsku drengurinn. Fannst hann nú aldrei eiga skilið allt þetta hatur.

En í ár verður vonandi annað upp á teningnum og væntanlegur flytjandi verður vonandi í raun og veru sá sem Spánverjar vilja sem sinn fulltrúa í Eurovision, án þess að það sé eitthvað drama….jæja, allt í lagi, það má alveg vera smá drama, enda spænskir Eurovision aðdáendur ekki þekktir fyrir að sitja á sínum skoðunum. En þau ykkar sem eruð algjörir harðhausa aðdáendur og eruð til í að leggja á ykkur sirka þrjá tíma af ofurhressum Spánverjum sem tala SJÚKLEGA hratt, þá er málið að stilla inn á úrslitaþátt Operación Triunfo þann 29. janúar kl. 21:30, og fylgjast með þessum sexmenningum slást um miðann til Portúgal.

Ana Guerra er 25 ára og fædd á eyjunni Tenerife. Hún gengur einnig undir listamannsnafninu Ana War og á vegferð sinni í gegnum OT hefur hún verið eftirlæti bæði áhorfenda sem og þjálfara. Hún mun flytja lagið “El remedio”.

Aitana er aðeins 19 ára og þrátt fyrir að hafa ekki komið frá mjög tónelsku heimili, er hún engu að síður ótrúlega hæfileikarík og hefur leikið á píanó frá barnæsku. Hún mun flytja lagið “Arde”

Miriam er 21 árs gömul leik og söngkona, fædd í bænum Pontedeume í Gallisíu. Hún er jafnvíg á gítar sem og söng og er nú þegar með BA gráðu í leiklist. Hún mun flytja lagið “Lejos de tu piel”

Alfred García er 20 ára, og áður en hann komst í undanúrslit OT, var hann einn af keppendunum í spænsku útgáfunni af The Voice. Ekki gekk honum sem skyldi þar, því hann komst ekki í gegnum blindprufurnar. En nú hefur hann fengið uppreisn æru og mun flytja lagið “Que nos sigan las luces”

Amaia heitir fullu nafni Amaia Romero og fæddist í Pamplona fyrir réttum 18 árum síðan. Hún hefur verið að koma fram síðan hún var barn og ásamt því að syngja, spilar hún á fjölda hljóðfæra. Hún mun flytja lagið “Al cantar”.

 

Svo eru það dúettarnir..

Aitana og Ana munu syngja saman lagið “Lo malo”

Amaia og Alfred taka höndum saman og flytja “Tu canción”

Og síðast en ekki síst mun Agoney snúa aftur og flytja, ásamt Mirelu, lagið “Magia”

Að lokum koma allir nema Agoney og flytja saman lagið “Camina”.

Hvort sem það verður dramatískur einsöngur, krúttlegur dúett eða epískur sönghópur sem fer fyrir hönd Spánar, þá verður óneitanlega gaman að fylgjast með.