Íslenska Eurovision útrásin

Felix Bergsson hefur farið fyrir sendinefnd íslenska Eurovision hópsins (head of delegation, oft stytt í HoD) síðustu ár og er nú staddur í París, Frakklandi, þar sem úrslit Destination Eurovision, frönsku undankeppninnar í Eurovision, fara fram. Felix er hluti af alþjóðlegu dómnefndinni í keppninni en það verður ekki eina dómnefndarseta hans þetta árið því hann mun einnig fara fyrir íslenskri dómnefnd í Melodifestivalen í Svíþjóð. FÁSES.is forvitnaðist aðeins um hvernig það kom til að Felix tæki þátt í þessum verkefnum.

Eftir að Frakkar lentu í neðsta sæti í Eurovision 2014 og næst neðsta sæti 2015 fannst þeim nóg komið og réðu ungan mann, Edoardo Grassi, sem head of delegation. Hann hefur svo sannarlega stuðlað að aukinni velgengni Frakka; fyrst með þátttöku Amir árið 2016, sem lenti í 6. sæti, og Ölmu í fyrra sem lenti í 12. sæti.

Í ár blása Frakkar til metnaðarfullrar undankeppni með tveimur undanúrslitum og úrslitakvöldi sem fer fram í kvöld. Ekki hefur verið haldin undankeppni síðan 2014 og franskir aðdáendur tala um að undankeppnin í ár jafnist á við hina goðsagnakenndu Concours de la Chanson Française, sem haldnar voru á áttunda áratug síðustu aldar. Felix segir að keppnin í kvöld beri velgengni Frakka í Eurovision síðustu ár vitni; fullt af gríðarlega sterkum lögum og flottum keppendum. Það sé eins og Eurovision sé komið aftur á kortið í Frakklandi.

Felix Bergsson í París.

Fyrirkomulagið í úrslitum Destination Eurovision verður þannig að átta lög bítast um að verða fulltrúi Frakka í Lissabon í vor. Atkvæði almennings vega 50% og atkvæði alþjóðlegrar dómnefndar vega 50%. Í 10 manna alþjóðlegu dómnefndinni situr Felix Bergsson fyrir hönd Íslands, en aðrir dómnefndarmeðlimir eru frá Búlgaríu, Finnlandi, Rússlandi, Armeníu, Ísrael, Sviss, Svíþjóð, Ítalíu og Hvíta-Rússlandi. Hver dómnefndarmeðlimur gefur sex af átta lögum í kvöld einkunn á skalanum 2, 4, 6, 8, 10 og 12. Felix hafði fylgst með keppendum á æfingu í dag en síðan mun dómnefndin gefa sín stig í beinni útsendingu í kvöld.

Talið berst að alþjóðlegum dómnefndum í Eurovision og hvernig það hafi komið til að óskað hafi verið eftir kröftum Íslendinga. Felix segir að menn hafi fylgst með velgengni Svía síðustu árin en alþjóðleg dómefnd hefur verið í Melodifestivalen síðan 2009 en fékk meira vægi strax árið eftir. Síðustu ár hafi æ fleiri lönd nýtt sér alþjóðlegar dómnefndir og aðstandendur Eurovision víðsvegar um heiminn, hvort sem það eru fulltrúar ríkissjónvarpa eða sendinefndarfulltrúar, styðja hvern annan í leitinni að lagi sem getur slegið í gegn í aðalkeppni Eurovision. Eurovision sé auðvitað alþjóðleg keppni og með alþjóðlegum dómnefndum gefst tækifæri til að draga þau áhrif strax fram í undankeppnum. Felix bætir síðan við að þetta fyrirkomulag bjóði einnig upp gott sjónvarpsefni.

Aftur á móti sé það ekkert sem gefi það sérstaklega til kynna að lög sem valin eru m.a. af alþjóðlegri dómnefnd gangi betur í Eurovision en öðrum. Felix bendir þarna sérstaklega á Búlgaríu sem hefur gengið mjög vel síðustu tvö ár en þeirra framlag er valið innbyrðis af búlgarska sjónvarpinu. Eins notast Portúgalar, sem unnu í fyrra, ekki við alþjóðlega dómefnd í Festival da Canção.

Í Söngvakeppninni 2017 var í fyrsta skipti notast við alþjóðlega dómnefnd og vógu atkvæði hennar jafnt á við símakosningu. Í dómnefndinni sátu Måns Zelmerlöw frá Svíþjóð, Julia Zemiro frá Ástralíu, Bruno Berberes frá Frakklandi, Milica Fajgelj frá Serbíu ásamt Snorra Helgasyni, Andreu Gylfadóttur og Þórði Helga Þórðasyni. Felix segir að í ár verði einnig alþjóðleg dómnefnd í Söngvakeppninni.

Í mars heldur Felix síðan til Svíþjóðar, þar sem hann fer fyrir fimm manna íslenskri dómnefnd sem mun taka þátt í að velja sigurvegara Melodifestivalen. Alþjóðlega dómnefnd þeirra Svía hefur fengið sinn skerf af gagnrýni, raunar svo mikinn að í ár breyta þeir stigagjöfinni til að auka áhrifa símakosningar umfram dómnefndar. Þátttöku Íslendinga í vali hinna ýmsu Eurovision laga er þó ekki þar með lokið, því íslensk dómnefnd verður einnig í svissnesku keppninni, ESC 2018 – Entscheidungsshow og mun Gísli Marteinn lesa atkvæði Íslands í beinni útsendingu frá Zürich 4. febrúar næstkomandi. Íslendingar munu einnig taka þátt í að dæma undankeppnir frá tveimur öðrum löndum og það er því greinilegt að menn kunna að meta íslenska „touchið“ þegar kemur að Eurovision!